„Ég vona að hægt verði að fá Skúla að samningaborðinu núna og við leysum þetta, sættumst á að ganga báðir ósáttir frá borði. Maður hálfskammast sín fyrir að vera að reka þetta mál og það er löngu kominn tími til að ljúka því, þetta hefur staðið yfir í fimm ár,“ segir Sigmar Vilhjálmsson í viðtali við DV í dag, en máli hans gegn Skúla Gunnari Sigfússyni, sem kenndur er við Subway, lauk í dag fyrir Landsdómi. Þar áfrýjaði Skúli dómi Héraðsdóms en Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms – en þó ekki að fullu leyti.
Forsagan er sú að Sigmar og Skúli stofnuðu saman fyrirtækið Sjarmur og Garmur í kringum sýninguna Lava Center. Starfsemin snerist um byggingu á húsnæðinu og smíðina á sýningunni. Landsbyggðarsjóður tók þátt í verkefninu en eingöngu hvað sýninguna varðaði. Því skiptu þeir Sigmar og Skúli hugmyndinni upp í sýningarhluta og fasteignahluta. Skúli ákvað í krafti meirihlutaeignar að selja Pálmari Harðarsyni byggingarréttinn með undirrituðum leigusamningum, á undirverði. Sigmar kærði þá ákvörðun félagsins að samþykkja tilboð Pálma á þessu verði. Í Héraðsdómi var sú ákvörðun úrskurðuð ótilhlýðileg þar sem verðmæti eignarinnar væri meira en söluverðið.
Dómsorð Landsréttar í málinu í dag er eftirfarandi:
„Ógilt er ákvörðun hluthafafundar stefnda Stemmu hf. 9. maí 2016 þar sem samþykkt var að selja lóðarréttindi að Austurvegi 12 og 14, Hvolsvelli, auk stofnkostnaðar og annarra réttinda tengdra þeim, til Fox ehf., kt. 410908 – 1740, Gnitaheiði 3, Kópavogi, samkvæmt drögum að kaupsamningi, dags. í maí 2016, sem lögð voru fram á hluthafafundinum. Stefndi greiði stefnendum 4.000.000 króna í málskostnað.“