„Stilla úr The Laundromat, stórmynd um Panamaskjölin með Meryl Streep, Gary Oldman, Antonio Banderas og fleiri stjörnum sem frumsýnd var á Netflix í dag (þegar 80 mínútur eru liðnar af myndinni); engin mynd af Sigmundi Davíð eða Bjarna Ben, Panamabófunum sjálfum; Sigurður Ingi situr uppi með að verða andlit stjórnmálaspillingar á Íslandi.“
Þetta segir Gunnar Smári Egilsson fjölmiðlamaður á Facebook en líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd þá er Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sýndur fremur en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem sagði af sér eftir Wintris-málið. Gunnar Smári er ekki sá eini sem fjallar um þetta á Facebook því Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, segir myndina góða en þó ekkert meistarastykki.
„Ísland kemur aðeins lítlilega við sögu í myndinni Laundromat sem frumsýnd var á Netflix í dag en hún segir spillingarsöguna í Panamaskjölunum, sem lekið var frá lögfræðifirmanu Mossack-Fonseca. Þessi mynd með þeim Meril Streep, Gary Oldman og Antonio Banderas fer á gamansaman hátt í gegum alvörumálið sem er skattasniðganga auðmanna og spilltra stjórnmálamanna – stundum glæpamanna, í gegnum skúffufélög eða Tortólufélög eins og Íslendingar hafa kallað fyrirbærið frá Hruni. Íslendingar áttu heimsmet í Panamaskjölunum og forsætisráðherrann Sigmundur Davíð, nú Bónaparte Miðflokksins, laug sig ofan í holu í alþjóðlegu hneyksli, en hefur nú risið upp með stuðningi 15% landsmanna sem aðhyllast Klausturdónaskap og siðspillingu,“ segir Kristinn.
Hann segir það kaldhæðnislegt að þessi mynd hafi verið frumsýnd sama dag og Ísland var sett á hinn svokallaða gráa lista:
Þessi kvikmynd er ekkert meistarverk kvikmyndasögunnar, enda nánast heimildarmynd um eðli og inntak spillingarinnar sem birtist í lekanum. Sú staðreynd að þessi mynd er frumsýnd sama dag og Ísland er sett á gráan lista yfir lönd sem hafa ekki hirt um að taka upp aðgerðir gegn spilltum fjármálahreyfingum milli landa er nánast því gullin tilviljun. Fjármálaráðherrann í ríkisstjórn Panamaprinsins er sá sem hefur heykst á því að innleiða þær varnir sem gerð er krafa um svo lönd lendi ekki á þessum gráa lista. Hann er enn í sama embætti. Skyldi sú staðreynd vera skýringin á hörkuni við að setja Ísland á gráa listann? Skyldi sú staðreynd að íslensk fjármálaelíta fór öll í skeljafléttur með aurana sína eins og ljóst varð eftir Hrun og skýrðist frekar í Panamaskjölunum eiga hér hlut að máli? Eigum við eftir að sjá meira af ástæðum þess að Ísland er nú álitið spillt ríki á pari við Zimbabwe og Mongólíu? Og hve írónískt er það svo, að spillingin er núna hjúpuð undir verndarsjali Vinstri-grænna. Vituð þér enn, eða hvað?