fbpx
Miðvikudagur 01.janúar 2025
Fréttir

Linda P. í leigustríði: Seldi húsið rétt fyrir gjaldþrot en leigir það samt út – Leigjandi telur sig svikinn

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 18. október 2019 09:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Linda Pétursdóttir, athafnakona og fegurðardrottning, stendur í deilum við fyrrverandi leigjanda sinn. Deilurnar varða lengd uppsagnarfrests, ástand húsnæðis við skil og tryggingarfé. Linda hefur lokað á samskipti við leigjandann, sem sér enga aðra leið í stöðunni en að leita liðsinnis kærunefndar húsamála, enda hefur Linda bæði hótað honum málsókn, neitað að tala frekar við hann og vísað á lögmann sinn án þess að gefa upp hver sá lögmaður er. Þó að málið sýnist við fyrstu sýn vera nokkuð hefðbundin deila leigusala og leigjanda sem greinir á um samning, þá virðist leigusamningurinn við nánari skoðun hafa verið ógildur frá upphafi, því Linda er ekki eigandi hússins.

Leigði hluta bílskúrs á 115 þúsund

Ali Taha Falih, frá Írak, skrifaði undir leigusamning um hluta bílskúrs sem innréttaður hafði verið sem stúdíóíbúð. Leigusali var samkvæmt samningi Linda Pétursdóttir. Bílskúrinn tilheyrir stóru einbýlishúsi að Sjávargötu á Álftanesi. Bílskúrinn er í heildina rétt rúmlega fimmtíu fermetrar að stærð en að sögn Alis þá fékk hann aðeins hluta bílskúrsins til umráða. Fær þetta stoð í leigusamningi þar sem stærð húsnæðisins er tilgreind 25 fermetrar. „Það voru tvö herbergi í bílskúrnum og þegar ég skrifaði undir var mér sagt að eftir þrjá mánuði þá fengi ég líka hitt herbergið, því var lofað og gekk ég til samninga út frá því,“ segir Ali í samtali við DV.

Leigusamningurinn var skriflegur og stefndi Ali á að þinglýsa honum til að eiga kost á húsnæðisbótum. Það gekk hins vegar aldrei upp, þrátt fyrir ítrekuð loforð.

Braut hægri hönd í vinnuslysi

Sjávargatan á Álftanesi: 200 fermetra einbýli úr timbri auk rúmlega fimmtíu fermetra bílskúrs.

Í júní 2019 tilkynnti Ali Lindu munnlega að hann ætlaði að finna sér annað hentugra rými þar sem væru betri loftgæði og betri lykt. Gerði hann þetta meðal annars vegna þess að honum var þarna orðið ljóst að samningnum fengi hann aldrei þinglýst. Ítrekaði hann þessa fyrirætlun sína í tölvupósti sem hann sendi þann 24. júní. Um miðjan september hafði hann svo samband við Lindu í gegnum Facebook til að tilkynna henni að hann hefði fundið nýtt húsnæði frá og með 1. október. Jafnframt tók hann þá eftir að tölvupósturinn sem hann sendi Lindu í júní hafði aldrei komist til skila.

Ali Taha Falih vill bara trygginguna sína til baka

Í ágúst lenti Ali í vinnuslysi. Hann féll niður úr nokkurri hæð og hafnaði á hægri hönd. Fór beinið skáhallt í sundur við öxl og er um nokkuð slæmt brot að ræða. Rétt er að taka fram að Ali er rétthentur og hamlaði þetta því verulega getu hans til að sinna sínu daglega lífi. Linda brást í fyrstu vel við fyrirætlunum Alis um að yfirgefa húsnæðið við Sjávargötuna, að hans sögn. Hins vegar þyrfti hann að segja upp með þriggja mánaða fyrirvara nema henni eða honum tækist að finna nýja leigjendur. Það reyndi Ali en tókst ekki að fá aðra leigjendur í rými sem hann var sjálfur að flytja úr vegna lélegra aðstæðna.

Þá mun ég lögsækja þig

Í byrjun október greindi Ali Lindu frá því að hann væri fluttur úr bílskúrnum og hefði afhent umboðsmanni hennar lykla. Falaðist hann samtímis eftir tryggingu sinni.

Linda brást ókvæða við að sögn Alis. Hún sendi honum myndir af rýminu sem hún taldi með öllu óásættanlega þrifið. Eins hefði Ali ekki greitt leiguna fyrir október. „Þú hefur 24 klukkustundir til að þrífa og borga leigu fyrir októbermánuð. Ef þú gerir það ekki þá mun ég lögsækja þig,“ sagði Linda í Facebook-skilaboðum til Alis. Ali gat ekki skilið þessi skilaboð öðruvísi en að í þeim fælist hótun og spurði því beint: „Ertu að hóta mér?“ Blaðamaður DV hefur mynd af þessum samskiptum undir höndum.

„Eldavélin er ónýt. Þú ættir að skammast þín. Ég ætla að láta þig gjalda fyrir samkvæmt lögmætum skriflegum samningnum. Ég mun ekki tala meira við þig. Lögmaðurinn minn tekur yfir málið eftir 24 klukkustundir,“ svaraði Linda þá og lokaði samtímis á öll frekari samskipti við Ali á Facebook, hann gat því ekki svarað þessari síðustu yfirlýsingu Lindu. Ekki fylgdi sögunni hver þessi lögfræðingur væri eða hvernig hann kæmi sér í samband við Ali.

Ali viðurkennir að þrifum á eigninni hafi verið ábótavant. „Ég lenti í vinnuslysi, ég er rétthentur með brotna hönd. Ég gat ekki fengið vini til að koma og hjálpa mér, ég varð að fá þá til að koma og gera þetta alfarið fyrir mig. Vinir mínir eru í fullri vinnu og eiga nóg með sitt en þeir komu og gerðu það sem þeir gátu. Ég var búinn að segja henni [Lindu] að ég væri slasaður og í slæmri stöðu.“

Leiga lögð inn á dóttur hennar

Nú gætu sumir hugsað: Samninga skal handa. Uppsagnarfrestur var jú þrír mánuðir samkvæmt því sem Linda kallaði sjálf „skriflegum og löglegum samningi“. En er það virkilega svo? Ali sýndi blaðamanni samninginn. Samningurinn er um 25 fermetra íbúðarhúsnæði í bílskúr og er leiga ákveðin 115 þúsund krónur á mánuði. Einn mánuður var greiddur fyrirfram og tveir mánuðir í tryggingu. Alls 345 þúsund krónur.

Leigan skyldi mánaðarlega leggjast inn á bankareikning sem er skráður á fjórtán ára dóttur Lindu, Ísabellu. Ali segir að frá upphafi leigutíma hafi hann óskað eftir því að hægt væri að þinglýsa samningi, því segir hann ítrekað hafa verið lofað og jafn oft svikið. Hann gat því aldrei sótt um húsaleigubætur, sem reyndist honum þungbært.

„Ég held að hún hafi ekki verið að gefa leiguna upp, eða ekki viljað að yfirvöld vissu að hún væri að leigja út bílskúrinn því ég efast um að það sé löglegt að leigja svona út sem íbúðarhúsnæði,“ segir Ali. Vert er að taka fram að löglegt er að leigja út bílskúr sem íbúðarhúsnæði að uppfylltum skilyrðum, svo sem að leigutekjur séu gefnar upp til skatts.

Linda ekki eigandi

Þinglýsing húsaleigusamnings er forsenda þess að húsnæðisbætur fáist greiddar. Til þess að hægt sé að þinglýsa húsaleigusamningi þarf leigusali samkvæmt samningi að vera þinglýstur eigandi eignarinnar, eða hafa einhverja sannanlega heimild um að hafa lagalegan rétt til að ráðstafa afnotarétti af eigninni með leigusamningi.

Þegar Sjávargötu er flett upp í fasteignaskrá sést að Linda hefur ekki verið eigandi eignarinnar síðan árið 2015. Þá seldi hún eignina til fransks ríkisborgara fyrir 48 milljónir króna. Fasteignamat eignarinnar er í dag tæpar áttatíu milljónir króna.

Kaupandinn var búsettur erlendis og þurfti því að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að hann hygðist sjálfur búa í eigninni eða nýta hana sem orlofsbústað, en slíka yfirlýsingu verða íbúar EES-svæðisins að undirrita er þeir kaupa fasteignir á Íslandi.

Kaupandinn er barnsfaðir Lindu

Kaupandinn samkvæmt fasteignaskrá, Mohammad Azab, og er egypskur krabbameinslæknir sem starfar hjá lyfjafyrirtæki í Ameríku. Í viðtali við Loga Bergmann í mars á þessu ári lýsti Linda barnsföður sínum, sem hún hefur aldrei nafngreint opinberlega, með eftirfarandi hætti:

„Hann er egypskur krabbameinslæknir og vísindamaður, búsettur í Bandaríkjunum að uppgötva og selja lyf við krabbameini. Hann er þroskaðri og aðeins eldri en ég.“

Ísabella ber eftirnafnið Azab samkvæmt Þjóðskrá og því má leiða líkur að því að umræddur Mohammad, kaupandi Sjávargötu, sé barnsfaðir Lindu. Í sama viðtali greindi Linda frá því að samskipti Ísabellu við föður sinn væru afar takmörkuð, og hún hafi til að mynda aldrei gist hjá honum.

Mæðgurnar eru búsettar erlendis, en lögheimili þeirra samkvæmt Þjóðskrá er eftir sem áður að Sjávargötu. Ekki er því að sjá að Mohammad hafi haft þar bústað eða orlofsveru, þvert á yfirlýsingu hans þar um. Í yfirlýsingunni er tekið fram að röng yfirlýsing varði refsingu samkvæmt íslenskum hegningarlögum.

Seldi rétt fyrir í gjaldþrot

Þegar Linda seldi eignina árið 2015 var hún illa stödd fjárhagslega og var hún úrskurðuð gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjaness þann 12. nóvember. Líkamsræktarstöð hennar, Baðhúsinu, var lokað í desember 2014 og var í kjölfarið úrskurðað gjaldþrota. Aðeins 2,1 milljón fékkst  upp í þær rúmlega 180 milljóna króna kröfur sem voru gerðar í þrotabú Baðhússins. Gjaldþrotaskiptum Lindu sjálfrar lauk í apríl 2016 og nam heildarkrafa í búið 56 milljónum króna. Búið var eignalaust og því fékkst ekkert upp í kröfur.

Eins og áður segir er fasteignamat Sjávarsíðu í dag tæpar áttatíu milljónir króna. Eignin var seld fyrir 48 milljónir, rétt fyrir gjaldþrot Lindu.

Löglegur húsaleigusamningur?

Samkvæmt leigusamningnum við Ali er leigusali Linda Pétursdóttir. Hvergi kemur fram í samningnum að Linda sé ekki eigandi eignarinnar. Hún er ekki titluð umboðsmaður eiganda, þvert á móti er skráður umboðsmaður fyrir hana, leigusalann. Engum leigusamningi milli Mohammads og Lindu er þinglýst á eignina og leigusamningurinn við Ali hvergi kallaður framleigusamningur.

Líklegt verður að telja að Lindu verði ekki stætt á að leita lagalegra úrræða til að fá Ali dæmdan til að greiða fullan uppsagnarfrest.

Samkvæmt húsaleigulögum hefur hún tvær vikur í viðbót til að gera kröfu í tryggingarfé sem leigusali, en til þess að slíkt geti gengið eftir verður að liggja fyrir úttekt á húsnæðinu áður en Ali flutti inn, og úttekt sem gerð var eftir að hann flutti út sem Ali eða umboðsmanni hans væri boðið að vera viðstaddur.

Linda lokaði á samskipti við Ali sama dag og hann skilaði lyklunum. Upprunalega ætlaði hún að fara eftir húsaleigulögum og gefa honum 24 klukkustundir til að bæta úr annmörkum á viðskilum húsnæðisins, en dró það boð strax til baka og vísaði á lögmann sinn.

Kærir til að fá tryggingu til baka

Ali hefur leitað til kærunefndar húsamála til að fá trygginguna sína til baka, hann sá enga aðra leið færa í stöðunni. Í kærunni segir meðal annars: „Það var pínulítill gluggi í bílskúrnum og skolplögn sem lyktaði og gerði lífsaðstæðurnar óviðunandi. Leigusali hafði lofað að þinglýsa leigusamningnum svo leigjandi gæti fengið húsaleigubæturnar sínar. Síðan neitaði leigusalinn að þinglýsa og leigjandi lét þá munnlega vita að hann segði leigunni upp samkvæmt 3ja mánaða uppsagnarfrest. […] Lífsaðstæður í bílskúrnum voru ekki manni bjóðandi og leigjandi gat ekki sofið og hafði lent í vinnuslysi vegna örmögnunar.“

Ekki náðist í Lindu Pétursdóttur við vinnslu greinarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Búa ekki á landinu og hafa ekki borgað fasteignagjöldin

Búa ekki á landinu og hafa ekki borgað fasteignagjöldin
Fréttir
Í gær

Aldraður lögfræðingur gagnrýnir Snorra – „Ég hef alltaf talið þá aum­ingja sem ráðast á minni mátt­ar“

Aldraður lögfræðingur gagnrýnir Snorra – „Ég hef alltaf talið þá aum­ingja sem ráðast á minni mátt­ar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jimmy Carter látinn

Jimmy Carter látinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Norður-Kóreumenn stráfelldir í Úkraínustríðinu – Enginn skeytir um örlög þeirra

Norður-Kóreumenn stráfelldir í Úkraínustríðinu – Enginn skeytir um örlög þeirra
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vinsælustu leitarorðin á Pornhub í ár – Mun minni áhugi á lesbíuklámi en undanfarin ár

Vinsælustu leitarorðin á Pornhub í ár – Mun minni áhugi á lesbíuklámi en undanfarin ár
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Söngvar Satans aftur í bókabúðir í Indlandi eftir 36 ára bann

Söngvar Satans aftur í bókabúðir í Indlandi eftir 36 ára bann