Athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson hefur, samkvæmt áreiðanlegum heimildum DV, keypt 50% hlut í Hlöllabátum.
Segja má að þetta sé nokkuð skáldleg viðskiptaákvörðun vegna þess að Hlöllabátar eru íslenskir samlokubátar en samlokubátarnir á Subway eru frá Bandaríkjunum. Aðaleigandi Subway á Íslandi, Skúli Gunnar Sigfússon, og Sigmar hafa átt í hörðum deilum um lóðarréttindi á Hvolsvelli. Var ósamkomulag milli þeirra um ráðstöfun Skúla á lóð sem tilheyrði sameiginlegu félagi þeirra sem þeir stofnuðu áður en brestir komu í samstarf þeirra. Sigmar, sem vildi losna úr samstarfinu, fékk áformum Skúla um uppbyggingu á lóðinni hnekkt fyrir héraðsdómi í fyrra. Skúli áfrýjaði til Landsréttar og verður dómur í málinu kveðinn upp í Landsrétti í fyrramálið.
Sigmar er nú að láta til sín taka á ný á veitingamarkaðnum eftir að hafa dregið sig út úr rekstri Hamborgarafabrikkunnar, Keiluhallarinnar og fleiri fyrirtækja. Á næstunni mun Sigmar opna sportbarinn Barion í Mosfellsbæ. Sigmar er bendlaður við fleiri verkefni í veitingabransanum en hann vildi ekkert tjá sig um áform sín er DV leitaði til hans um upplýsingar.
DV hefur hins vegar staðfestar heimildir fyrir kaupum Sigmars í Hlöllabátum og því er ljóst að þeir Skúli og Sigmar eru orðnir keppinautar á samlokumarkaðnum.