Freyja Haraldsdóttir, þroskaþjálfi og fötlunaraktívisti, hefur lengi barist fyrir því að fá að gerast fósturforeldri. Barnaverndarstofa hefur hins vegar hafnað umsóknum hennar, en þá ákvörðun kærði Freyja til dómstóla. Taldi hún að Barnaverndarstofa hefði ekki farið að lögum og reglum þegar umsókn hennar var tekin fyrir og því mismunað henni á grundvelli fötlunar hennar. Á þetta féllst Landsréttur sem dæmdi Freyju í vil í mars á þessu ári. Málinu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.
Freyja opnaði sig um málið á vefsíðu sinn í vikunni sem leið þar sem hún greinir frá því að málið taki gífurlega á hana og að henni sárni það að finna ekki fyrir stuðningi kynsystra sinna úr röðum femínista á Íslandi.
Rússíbanareið
„Síðustu fimm ár hef ég unnið að því hörðum höndum að verða (fóstur)mamma. Það hefur verið mikil rússíbanareið sem hefur m.a. innihaldið samþykki heimilisumdæmis, höfnun Barnaverndarstofu áður en lögformlegt mat fór fram, tap í Héraðsdómi og sigur í Landsrétti.“
Freyja segir að rökin gegn því að hún fái að gerast fósturforeldri hafi tekið á hana. Líkami hennar hafi verið dæmdur sjúkur af fagfólki, heimili hennar kallað stofnanalegt og hún sögð ófær um að tengjast börnum.
„Þetta ferli hefur því vegið að líkama mínum, kyngervi og fötlun. Það hefur ráðist að dómgreind minni, sjálfræði og valdi yfir eigin líkama. Einkalífi og heimili. Það er sárara en ég mun nokkurn tímann geta sett í orð en ég hef komist í gegnum það fyrst og fremst þökk sé konum“
Konurnar sem hafa hjálpað Freyju í gegnum þetta allt eru fatlaðar konur, hinseginn konur, fjölskylda hennar, vinir, aðstoðarkonur, lögmenn og samstarfsmenn.
Þögn og mótstaða kynsystra særir
Freyja segir að sér sárni að þögn hafi ríkt um baráttu hennar innan meginstraums femínista á Íslandi. Ekki bara þögn heldur í sumum tilvikum mótstaða.
„Það er eins og ég hafi farið inn á mjög heilagt yfirráðarsvæði kvenna þar sem fötlun mín ógnar hugmyndum um yfirburði ófatlaðs kvenlíkama þegar kemur að móðurhlutverkinu“
Bendir Freyja á að barátta hennar sé ekki bara barátta fatlaðs einstaklings heldur einnig konu. Sögulega hafi fatlaðar konur verið sviptar kynfrelsi, neyddar í ófrjósemisaðgerðir, þungunarrof, haft skert aðgengi að heilbrigðisþjónustu og mætt fordómum fagfólks innan opinbera kerfisins. Þær hafi verið þvingaðar til að taka inn getnaðarvarnir og sviptar forsjá barna sinna með ólöglegum hætti.
„Við höfum verið stimplaðar kynlausar, passífar, óaðlaðandi, hjálparlausar og óverðugar þegar kemur að kynlífi, kvenleika, ástarsamböndum og barneignum“
Þessi saga sé lituð af kvenfyrirlitningu og fötlunarfordómum. Í raun séu engar sannanir fyrir hendi um að fatlaðar mæður séu verri foreldrar en ófatlaðar.
Allar mömmur tapa
Þessi málaflokkur og þessi barátta á ekki aðeins við um fatlaðar konur
„Fátækar konur eiga sögu af sömu meðferð. Hinsegin konur og trans foreldrar. Einstæðar mæður. Og svartar og litaðar konur. Konur sem voru í „ástandinu“. Meira að segja konur sem gáfu sig út fyrir að vera femínistar áður fyrr, og líklega jafnvel enn, til dæmis súffragettur, voru vistaðar á stofnunum fyrir „brjálaðar“ hugmyndir sínar og/eða haldið frá börnum sínum. Það sem flestar þessar mæður/foreldrar eiga sameiginlegt er að mennska þeirra, líkami og tilvera hefur verið talin svipta þær hæfni til að annast og elska börnin sín „rétt“
Freyja tekur fram að pistill hennar sé ekki settur fram í neinni andstöðu við femínisma. „Ég er ekki að skrifa þessa grein til að gefa andfemínískum miðflokksmönnum og skoðanasystkinum þeirra vagn til að stökkva á gegn feminískri baráttu eða femínskum gildum“
Freyja er sjálf, eins og flestir vita, femínisti. En hins vegar segist hún þreytt á að barátta hennar sé aðeins flokkuð sem barátta fyrir réttindum fatlaðra einstaklinga. Baráttan sé barátta fyrir réttindum kvenna, fatlaðra sem ófatlaðra.
„Á meðan móðurhlutverkið er einskorðað við ákveðinn hóp kvenna mun það viðhalda kynjamisrétti og kúgandi þáttum sem tengjast móðurhlutverkinu, t.d. sú sturlaða einstaklingshyggju karlrembu hugmynd að kona eigi ein og sjálf að hugsa um allt sem varðar barnið sitt. Allar mömmur tapa.“