Þrjátíu og átta af 44 undirskriftarbærum kennurum við Fjölbrautarskóla Vesturlands Akranesi (FVA) hafa skrifað undir vantraustsyfirlýsingu á skólameistara, Ágústu Elínu Ingþórsdóttur, þar sem hvatt er til þess að Ágústa verði ekki endurráðin. Þetta staðfestir Garðar Norðdahl, formaður kennarafélags skólans, í samtali við DV. Kennarar við skólann eru 46 en tveir voru taldir vanhæfir til að skrifa undir yfirlýsinguna þar sem þeir eru umsækjendur um stöðuna.
Ágústa var skipuð skólastjóri frá 1. janúar 2015 til fimm ára. Skipunartíminn rennur út um næstu áramót og hefur Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra ákveðið að auglýsa stöðuna lausa til umsóknar.
Mikil óánægja hefur ríkt með störf skólameistara eins og kom fram í fréttaskýringu DV í gær. Frá því að Ágústa tók við embættinu hefur hún mætt harðri gagnrýni fyrir stjórnunarhætti sína og framkomu við undirmenn. Meðal annars hefur ríkið þurft að greiða ríflega fimm milljónir króna í bætur og málskostnað til fyrrverandi aðstoðarskólameistara sem Ágústa vék úr starfi án þess að fylgja réttum verkferlum.
Í mars á þessu ári féll dómur Landsréttar í máli Hafliða Páls Guðjónssonar, fyrrverandi aðstoðarskólameistara FVA, gegn ríkinu. Kærði hann þar ákvörðun Ágústu Elínar að víkja honum fyrirvaralaust úr starfi aðstoðarskólameistara árið 2015, sem hann hafði aðeins nýlega tekið við, sem og úr kennarastarfi við skólann, en hann hafði unnið þar frá árinu 1998. Bæði héraðsdómur og Landsréttur komust að þeirri niðurstöðu að uppsögn Hafliða hefði verið ólögmæt, bæði hvað varðaði aðstoðarskólameistarastöðuna sem og kennarastöðuna.
Ágústa er einnig gagnrýnd fyrir að hafa sagt upp sjö ræstingarkonum við skólann.
Yfirlýsing kennaranna er orðfrétt eftirfarandi:
„Undirritaður kennarar við Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi, FVA, lýsa yfir vantrausti á núverandi skólameistar FVA, Ágústu Elínu Ingþórsdóttur, og beina þeim tilmælum til ráðherra að hún verði ekki endurráðin sem skólameistari skólans.“