Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Blaðið fjallaði einnig um málið í júní en þá kom fram að Fjölnir hefði verið snupraður af kirkjuráði fyrir að reka heimagistingu í prestbústaðnum án þess að hafa fengið leyfi til þess. Oddur Einarsson, framkvæmdastjóri kirkjuráðs, sagði þá að rætt hefði verið við Fjölni vegna þessa. Þá kom einnig fram í Fréttablaðinu að ekki væri annað að sjá en að prestbústaðurinn hafi verið leigður út um nokkra hríð þegar kirkjuráð tók málið fyrir.
Blaðið segir að prestar greiði ekki háa leigu og ef þeir leigi bústaði sína út til ferðamanna fái þeir allan ávinninginn í eigin vasa. Búsetuskylda í prestbústaðnum fylgir embætti Fjölnis en hann heldur annað heimili á Flateyri.