Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Helgu Völu að þegar þessar upplýsingar liggi fyrir muni fulltrúar Útlendingastofnunar verða kallaðir til fundar með nefndinni sem muni í kjölfarið taka afstöðu til hvort hægt er að ljúka umfjöllun um stofnunina eða hvort hún telji þörf á að bregðast við.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er meðal annars fjallað um starfsmannamál Útlendingastofnunar en starfsmannafjöldinn hefur þrefaldast á tæpum áratug. Meðal nýrra starfsmanna er fólk með litla reynslu sem var ráðið í tengslum við átaksverkefni stjórnvalda gegn atvinnuleysi. Í skýrslunni er sett fram gagnrýni á að starfsfólk hafi engar verklagsreglur til að starfa eftir en slíkar reglur gætu stuðlað að faglegri vinnubrögðum.