Þetta segir Áslaug Kristjánsdóttir, kynfræðingur og hjúkrunarfræðingur, í Fréttablaðinu í dag. Þar er haft eftir henni að hún hafi orðið vör við aukningu í því að fólk, sem er í opnum samböndum eða vill ræða þann möguleika, leiti til hennar.
„Ég legg til að fólk ræði mörkin sem sambandi þeirra séu sett í upphafi sambands og svo reglulega eftir það. Sambönd eru lifandi og breytast með fólkinu sem er í þeim. Ég hef ekki trú á því að með því að ræða hvort sambandið eigi að vera opið eða lokað auki líkurnar á því að fólk opni samböndin. Langflestir eiga enn erfitt með þessa hugmynd að deila maka sínum þó við séu að sjá örlitla breytingu á því.”
Segir hún og bætir við að almennt séð sé fólk opnara fyrir fjölbreytileika í dag en áður og að þeir sem leita til hennar og eru í opnum samböndum séu oft að takast á við svipaða hluti og þeir sem eru í hefðbundnum lokuðum samböndum.
Hún bendir á að því fylgi ekki skömm í dag að skilja, nú sé skömmin sú að vera í lélegu hjónabandi þegar annað og betra er í boði.
„Með tilkomu skilnaða breytist fjölskyldumynstur líka. Við erum farin að deila börnunum okkar með öðrum foreldrum sem við köllum stjúpforeldra. Umræðan hjá kynfræðingum er um það hvaða breytingar séu næstar á hjónaböndum og fjölskyldum. Er það að við förum að deila maka okkar í auknum mæli?“