Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að Berglind hafi fylgt 13 manns í nokkrar vikur eftir að þeir útskrifuðust af öldrunardeild.
„Við sjáum þetta líka í öllum rannsóknum erlendis, fólk kemur kannski vannært inn á spítalann en dvölin þar er svo stutt að það gefst ekki tími til næra það almennilega upp og svo fer fólkið heim og heldur áfram að versna.“
Er haft eftir Berglindi í Fréttablaðinu. Hún segir vandann vera fjölþættan en skortur á hjúkrunarrýmum og þrýstingur úr öllum áttum á Landspítalann að útskrifa fólk eins fljótt og hægt er valdi því að ekki sé hægt að leysa þennan vanda. Hún segir að fólkið fái nóg að borða á meðan það dvelur á spítalanum og vel sé hugsað um næringu fólks en spítaladvölin sé svo stutt að hún dugi ekki til að vinna upp vannæringu.
Hún mun kynna niðurstöður rannsóknarinnar á Líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnunni sem fer fram í Háskóla Íslands í dag og á morgun. Niðurstöðurnar sýna ekki aðeins að þátttakendurnir í rannsókninni glíma við ótryggt fæðuöryggi og slæmt næringarástand því þeir glíma einnig við þunglynid, depurð og einmanaleika. Allir þátttakendurnir voru með minna en 200.000 krónur í ráðstöfunartekjur á mánuði. Þeir voru á aldrinum 77 til 93 ára og voru mældir við útskrift af öldrunardeild og síðan heimsóttir tvisvar eftir útskrift með viku millibili.
Berglind segir þátttakendurna almennt hafa borið sig vel og sagst hafa nóg að gera en annað hafi komið í ljós þegar þeir svöruðu spurningalista um þunglyndi og einmanaleika.
„Það er líka algengt að þau eigi engan að sem þau geta treyst fyrir öllu, svona trúnaðarvin sem er eflaust líka mjög erfitt og gerir mann einmana, ef maður er að bera hluti einn sem maður hefur engan til að ræða um við.“
Segir Berglind en leggur áherslu á að flestir þátttakendanna hafi átt ágætt bakland og aðstandendur þeirra séu yfirleitt allir af vilja gerðir til að hjálpa en samfélagslegar breytingar valdi þessari einangrun gamla fólksins og það vilji ekki láta hafa fyrir sér.
„Mín upplifun er sú að aðstandendur séu mjög viljugir en fólkið sjálft segir bara: Nei, nei, það er allt í góðu hjá mér, ég á nóg til, engar áhyggjur.“
Er haft eftir Berglindi í Fréttablaðinu.