fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fréttir

Hvað varð um litla 11 ára strákinn sem var handtekinn á Austurvelli?

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 27. janúar 2019 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta gerði Patrick bara enn ákveðnari í að mótmæla.“

Þetta segir Pauline McCarthy, móðir Patricks McCarthy sem prýddi forsíðu DV þann 21. janúar 2009. Patrick var aðeins ellefu ára þegar hann var handtekinn í janúarbyltingunni við Austurvöll. Mikil spenna og reiði kraumaði á Austurvelli þennan dag en þúsundir manna kröfðust þess að ráðamenn þjóðarinnar segðu umsvifalaust af sér.

Alþingismenn höfðu sett þingið eftir langt og notalegt jólafrí en almenningur hafði fengið sig fullsaddan af aðgerðaleysi og blekkingum. Hart var tekist á og margir mótmælendur gáfust upp á að vera kurteisir og mættu með heimatilbúnar reyksprengjur. Lögreglan beitti piparúða en á annan hundrað lögregluþjónar voru á svæðinu, gráir fyrir járnum. Í DV frá 21. janúar 2009 sagði:

„Allt var notað til að framkvæma hávaða: Pönnur, pottar, hjólbörur, flautur, hækjur og lyklar svo eitthvað sé nefnt. Flugeldum og eggjum var kastað í átt að húsinu á meðan lögreglan fjölgaði í skjaldborginni. Í kringum hundrað lögreglumenn voru staddir inni í garðinum um tíma og restin af liðinu vítt og breitt í kringum húsið. Súrmjólk var kastað yfir óeirðasveitina sem lét eins og ekkert væri, stóð pollróleg og sprautaði piparúða á fólk sem þótti sýna of mikla hörku.“

Og Patrick litli fékk að kenna á því, var handtekinn. Á forsíðumynd má sjá hann rauðeygðan og óttasleginn með lögregluþjón í óeirðabúningi sér við hlið. Hann var athugull drengur þrátt fyrir ungan aldur, hafði fylgst vel með fréttum og fór viljugur með foreldrum sínum á mótmælin. Hann var búinn hjálmi og hlífðargleraugum, í hermannaklæðnaði, tilbúinn að taka þátt í byltingunni. Pauline sat fáeinum metrum frá, þar sem hún þjáðist af slitgigt og gat því ekki staðið.

Þegar hiti fór að færast í leikinn gengu lögreglumenn til Patricks og spurðu hann um nafn, heimilisfang og hvar foreldrar hans væru.

Vanræksla að sitja 10 metrum frá 11 ára syni

Þrátt fyrir að móðir hans sæti þarna skammt frá var Patrick fjarlægður og farið með hann á lögreglustöðina og þangað þurfti faðir hans að sækja hann. Föður hans var tilkynnt í kjölfarið að atvikið yrði tilkynnt til barnaverndaryfirvalda. En samkvæmt samtali blaðamanns DV við lögregluna skömmu eftir atvikið er sá háttur hafður á þegar lögregla hefur afskipti af barni yngra en 15 ára.

Ekki var því úr vegi að hafa samband við þau mæðgin til að rifja upp atvikið. Ekki náðist í Patrick, en hann er að sögn móður sinnar staddur erlendis í helli, fjarri rafmagni, til að einbeita sér að ritstörfum.

„Okkur hafði verið sagt, og það kom fram í fréttum, að við foreldrarnir yrðum ákærðir fyrir vanrækslu á barni. Þeir sögðu að þeir myndu tilkynna þetta til barnaverndarnefndar á Akranesi, þar sem við bjuggum, og sagði þeim að ég sætti mig ekkert við það,“ segir Pauline þegar hún er beðin um að lýsa þessum degi. Hún heldur áfram: „Þau sögðu að ég hefði ekki verið að fylgjast með honum, en ég var bara tíu metrum í burtu frá honum. Ég benti á hann og bað þá um að koma með hann til mín, en í stað þess að gera það fóru þeir með hann af vettvangi yfir á lögreglustöðina.“

Táragasi beitt gegn 11 ára barni

Pauline veifaði til lögregluþjónanna sem höfðu handsamað drenginn hennar en fljótlega var myndaður varnarveggur fyrir framan hana og hún komst hvergi. Pauline er hreyfihömluð og á erfitt með að standa í langan tíma. Hún hafði því tekið sér stöðu á bekk skammt frá og hafði sagt syni sínum að þangað skyldi hann koma ef þau myndu týna hvoru öðru.

Patrick var sérstaklega útbúinn fyrir mótmælin. Með íshokkíhjálm á höfði og skíðagleraugu til að vernda augun fyrir piparúða.

„Hann leit út fyrir að vera í hernum,“ segir Pauline. Búnaðurinn reyndist honum vel er hann fékk svo yfir sig gusu af piparúða. „Þeir fóru með hann inn í Alþingi, en það gerðist eftir að þeir áttuðu sig á að þeir höfðu sprautað táragasi á barn. Því þeir spreyjuðu táragasi á hann. Þeir spreyjuðu yfir hópinn eins og þeir ættu lífið að leysa og fólk var öskrandi og grátandi og það ríkti algjört öngþveiti. Ég sá hluti sem almenningur sá ekki vegna þess hvar ég sat. Sumir lögreglumennirnir kipptu grímum af fólki áður en þeir úðuðu táragasi beint framan í það.“

Pauline bætir við að flestir lögregluþjónarnir hafi staðið vaktina með sóma en svo hafi aðrir laganna verðir verið ribbaldar og tekið of hart á mótmælendum.

„Það voru að minnsta kosti þrír lögreglumenn sem viljandi ögruðu fólkinu þar til það brást við. Þá gripu þeir um hálsinn á fólki, ýttu því niður, trömpuðu á fótum þess og brutu næstum fæturna á því. Ég horfði á þetta. Maðurinn sem var yfir lögreglunni þarna sagði við mig: „Þú verður að fara, þú verður að fara, það er mjög hættulegt að vera hérna.“ Ég svaraði: „Það er engin hætta. Það eina sem er að gerast er að það er verið að kasta snjóboltum.“ Þá sagði hann: „Þú gætir orðið fyrir skoti,“ og ég svaraði: „Þetta eru bara snjóboltar. Ég held ég muni lifa af að fá í mig snjóbolta.“ En það sem þeir vildu, var að losna við mig því þeir voru að hefja aðgerðir gegn fólkinu.“

„Veistu hvar sonur minn er?“

Eftir að sonur Pauline hafði verið handsamaður neyddist Pauline til að fara með sjúkrabíl af svæðinu. Þá þurfti tvær manneskjur til að hjálpa henni á fætur eftir að hún hafði setið á bekknum í nokkra klukkutíma.

„Ég sagði við sjúkraflutningamanninn, því ég vissi að hann gat haft samband við lögregluna: „Veistu hvar sonur minn er, lögreglan tók hann?“ Eiginmaður minn var þarna í mannmergðinni líka, svo ég hélt að þá hlytu þeir að hafa farið með Patrick til hans. En eiginmaður minn var þarna hjá sjúkrabílnum og okkur var sagt að sonur okkar væri á lögreglustöðinni.

Þegar við fórum á lögreglustöðina gat ég ekki farið út úr bílnum, út af gigtveikinni, svo maðurinn minn fór og náði í son okkar. Þegar hann kom út þá sagði hann að lögreglumaðurinn sem hann ræddi við á stöðinni hefði sagt að til stæði að kæra mig fyrir vanrækslu á syni mínum. Það tók þrettán mánuði að fá skýrsluna í hendurnar og ég neyddist til að ráða mér lögfræðing. Að lokum eftir þrettán mánuði þá fékk ég þessa skýrslu, um hvað hefði átt sér stað þarna við Alþingishúsið. Í grófum dráttum var niðurstaðan sú að ég hefði ekki vanrækt barnið.“

Janúaróeirðirnar Einhverjir mestu átakatímar lýðveldissögunnar.

Færði ungur björg í bú

En hver er staðan hjá Patrick í dag? Hafði þessi handtaka afleiðingar á sálarlíf hans eða er hann byltingarsinni?

„Hann var mjög stoltur yfir því að vera á forsíðu DV. Það vildi svo til að Obama Bandaríkjaforseti var svarinn inn í embætti sama dag og blaðið kom út og Patrick sagði oft fólki: „Á þessum sögulega degi var Obama forseti á forsíðum blaða alls staðar nema á Íslandi. Þar var ég á forsíðunni!“ Í hvert skiptið sem við fengum gesti tók hann fram blaðið og sagði: „Sjáið! Ég er frægur!““

Telur þú að hann muni taka þátt í stjórnmálum í framtíðinni?

„Hann er í viðskiptum í dag. Hann er að skrifa bók, skáldsögu. Honum þykir gaman að syngja og koma fram en ætlar að stofna sitt eigið fyrirtæki. Hann er ekki alveg beint „performer“, meira svona uppistandari. Í framhaldsskóla var sagt við mig: „Þú verður að koma Patrick í leiklistarnám, hann hefur náttúrulega hæfileika.“ Hann er mjög praktískur. Hann sagðist vera til í að koma fram, til dæmis í leiklist, en hann sagðist virkilega þurfa hefja fyrirtækjarekstur, eða álíka, og græða peninga.“

Pauline bætir við að Patrick sé einstök manneskja. „Þegar hann var barn gengum við í gegnum mikil fjárhagsvandræði. Þegar ég var einstæð móðir, heyrði hann mig kannski segja við vinkonur mínar að ég vissi ekki hvernig ég ætti að borga af húsnæðinu þann mánuðinn. Þá kom Patrick með sparibaukinn sinn og sagði: „Mamma, við þurfum húsið meira en ég þarf þennan pening í bauknum, leyfðu mér að hjálpa þér með reikningana,“ og þetta gerði hann oft. Í bauknum hans voru þónokkrir „Ég skulda þér“-miðar frá mér, því stundum hafði ég einfaldlega ekki næga peninga til að fæða fjölskylduna. Þá kannski gaf Patrick mér fimm þúsund krónur og ég gaf honum „Ég skulda þér fimm þúsund krónur“-miða til að setja í baukinn.“

Nú staddur á Kanarí Skrifar skáldsögu í helli.

Handskrifar skáldsögu í helli á Kanaríeyjum

Patrick stefndi á að kaupa hús fyrir móður sína. Hann hefur einnig stefnt á að skrifa bók í mörg ár en aldrei fundið stað né stund til að hefja skrifin fyrr en nýlega. Eins og margir rithöfundar hér á landi ákvað Patrick að halda í víking og skrifa bókina erlendis. Á Kanaríeyjum uppgötvaði hann samfélag sem býr saman í helli.

„Þetta er svona hippasamfélag. Þú getur búið þar frítt, og borðað upp úr ruslagámum og allir vinna þarna kauplaust. Honum finnst best að það er ekkert rafmagn á svæðinu og þannig er ekkert að trufla hann við skrifin,“ segir Pauline. „Hann fór þangað með þáverandi kærustu sinni, síðasta vetur, og var þar í þrjá mánuði. Kærastan var að skrifa leikrit og hann var að handskrifa skáldsöguna sína. Einu sinni í viku fóru þau niður í bæinn, tengdust netinu og vélrituðu allar handrituðu blaðsíðurnar.“

Þá notar Patrick einnig tækifærið til að láta vita að hann sé heill á húfi.

Lögreglan Réð illa við ástandið daginn sem Patrick var handtekinn.

„Því miður eru hann og þessi kærasta ekki lengur saman, en hann fór aftur núna og í þetta skiptið bara í mánuð. Svo þessa stundina er hann á Kanaríeyjum, býr í helli og er að skrifa bók.“

Syngjandi pylsusali opnaði heimilið

Hvað tekur svo við hjá Patrick?

„Hann langar að opna matarvagn þegar hann kemur heim og selja mat í miðbænum því hann vann áður fyrir Hressó og seldi pylsur út um glugga. Þegar honum leiddist fór hann bara að syngja og söng mjög hátt til dæmis lög eftir Queen og fleiri. Hann varð vel þekktur sem syngjandi pylsusalinn.“

Túristar voru að sögn Pauline iðnir við að taka myndbönd af þessum glaðlega syngjandi pylsusala en Patrick hefur gaman af að gleðja fólk.

„Á hverjum jólum opnum við heimili okkar fyrir þeim sem eiga engan að á jólunum. Síðustu jól komu tólf til okkar, árið þar á undan voru þau tuttugu og átta. Ein jólin, fyrir um fjórum árum, þá komu um átján manns. Flestir sem koma hafa aldrei hitt okkur. Sumir búa einir og eiga engan að, stundum eru þetta erlendir nemendur eða ellilífeyrisþegar eða þeir sem hafa misst fjölskyldur sínar. Þetta árið, eftir matinn, vorum við að kynnast öll, syngja og hafa gaman saman þegar einn gesturinn sagði skyndilega: „Hei, þetta er syngjandi pylsusalinn!“ Þá sagði ég: „Syngjandi pylsusalinn? Það myndi vera sonur minn“ og gesturinn trúði vart eigin augum. En heimurinn er lítill og allir elska Patrick, hann er frábær maður.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Innflytjandinn sem lét íslenskar konur heyra það: „Væri reiðin ykkar önnur ef Íslendingur hefði skrifað þetta?“

Innflytjandinn sem lét íslenskar konur heyra það: „Væri reiðin ykkar önnur ef Íslendingur hefði skrifað þetta?“
Fréttir
Í gær

Sigurður G. segir að eins og fyrr sé hnefinn á lofti hjá Eflingu

Sigurður G. segir að eins og fyrr sé hnefinn á lofti hjá Eflingu
Fréttir
Í gær

Strætósvindlarar verða krafðir um fargjaldaálag

Strætósvindlarar verða krafðir um fargjaldaálag
Fréttir
Í gær

Nikótínvörusali bregst við auglýsingabanni – Túnfiskdósir og „ape shop“

Nikótínvörusali bregst við auglýsingabanni – Túnfiskdósir og „ape shop“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Faðir sló og sparkaði í dóttur sína – Hótaði að berja hana svo illa að hún gæti ekki andað fyrir blóði

Faðir sló og sparkaði í dóttur sína – Hótaði að berja hana svo illa að hún gæti ekki andað fyrir blóði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sævar Þór beinir athygli að því að sumir hafa það ekki gott um jólin

Sævar Þór beinir athygli að því að sumir hafa það ekki gott um jólin
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sex ára drengur setti fingur í hurðarfals myndmenntastofu og unglingur sparkaði í hurðina

Sex ára drengur setti fingur í hurðarfals myndmenntastofu og unglingur sparkaði í hurðina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Brotist inn í bíl Páls Steingrímssonar en lögregla og tryggingafélag draga lappirnar – „Ég vil bara vara fólk við þessu“

Brotist inn í bíl Páls Steingrímssonar en lögregla og tryggingafélag draga lappirnar – „Ég vil bara vara fólk við þessu“