Þetta er meðal þess sem kemur fram í bráðabirgðatölum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um afbrotatölfræði síðasta árs.
Hegningarlagabrotum fjölgaði um fimm prósent á milli ára og voru tæplega 9.800. Umferðarlagabrotum fjölgaði mikið og voru um 45.000 á síðasta ári en það er fimmtán prósentum meira en 2017.
Fréttablaðið hefur eftir Sigríði Björg Guðjónsdóttur, lögreglustjóra, að fjölgun hegningarlagabrota megi að stórum hluta skýra með fjölgun heimilisofbeldismála. Einnig hafi tilkynntum kynferðisbrotum fjölgað. Einnig er haft eftir henni að skipulagðir erlendir glæpahópar komi oft til landsins til að fremja innbrot en þeim fjölgaði á síðasta ári frá árinu á undan og tengir Sigríður aukningu slíkra mála við komur erlendra glæpahópa en nokkrir slíkir voru upprættir á síðasta ári.