Lögreglan á Suðurnesjum þurfti síðustu vikuna að leggja hald á töluvert magn fíkniefna og hafa afskipti af drukknum manni sem barði leigubíl.
Lögreglan á Suðurnesjum lagði, í síðustu viku, hald á töluvert magn fíkniefna sem fundust við húsleit í Suðurnesjabæ. Um var að ræða kókaín og kannabis sem og fjármuni sem taldir eru vera ágóði af sölu fíkniefna. Lögreglan telur að sala fíkniefna hafi farið fram í húsnæðinu.
Kannabis fannst einnig í bifreið sem stöðvuð var við hefðbundið eftirlit og á heimili einu þar sem lögregla fann kannabis fyrir tilviljun, en hún hafði mætt af staðinn til að ræða við húsráðanda út af öðru máli.
Í fyrrinótt hafði lögreglan á Suðurnesjum afskipti af manni sem var að kýla í leigubíl fyrir utan skemmtistað í Keflavík. Maðurinn reyndist í annarlegu ástandi og fór ekki að fyrirmælum lögreglu. Hann var þá handtekinn og færður á lögreglustöð.