fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Sigríður Andersen baunar á VG og vinstri menn: „Nú vilja þeir banna það sem þeir skylduðu okkur til að gera“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 30. september 2019 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, skýtur föstum skotum á samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn og vinstrisinnaða umhverfisverndarsinna á vefsíðu sinni í dag:

„Vinstri menn vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara í umhverfismálum. Nú vilja þeir banna það sem þeir skylduðu okkur til að gera fyrir örfáum árum.“

Málið snýst um þingsályktunartillögu sem tveir þingmenn VG standa að, ásamt þingmönnum úr Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum, um að draga úr notkun pálmaolíu með banni, eigi síðar en á næsta ári. Pálmaolía er notuð til framleiðslu á lífdísli, sem notaður er sem eldsneytisgjafi fyrir bíla og lögum samkvæmt er henni er einnig blandað saman við hefðbundið eldsneyti til að draga úr mengun.

Sigríður segir þess tillögu vinstrimann koma á óvart:

„Því aðeins eru sex ár síðan ríkisstjórn vinstri flokkanna leiddi það í lög að allt eldsneyti skyldi blandað „endurnýjanlegu eldsneyti“ sem einkum er unnið úr pálmum og matjurtum á borð við repju, soja og maís. Tveimur árum áður hafði vinstri stjórnin lögfest stórkostlegar skattaívilnanir til örvunar innflutnings á slíku matjurtaeldsneyti. Þessi skylda og skattaívilnanir standa því miður enn og valda því að yfir milljarður króna rennur árlega úr ríkissjóði til erlendra framleiðenda á eldsneyti úr pálmaolíu, repju, hveiti, soja og maís,“

segir Sigríður.

Leiðir til eyðingu skóga

Fjöldaframleiðsla á pálmaolíu er mest í Indónesíu og Malasíu, en þar eru skógar stráfelldir vegna aukinnar eftirspurnar og er olían sú ódýrasta sem fæst á markaði í dag. Framleiðslan er ekki sjálfbær og nemur eyðing regnskóga minnst 15 milljónum hektara fram að þessu, en það nemur um það bil einu og hálfu Íslandi.

Í greinargerð þingsályktunartillögunnar er einnig greint frá því að pálmaolíuframleiðslan hafi áhrif á loftslagsbreytingar og stuðli að útdauða órangútana:

Regnskógar eru gríðarlega stórar kolefnisgeymslur og sumir regnskógar, einkum í Suðaustur-Asíu, vaxa í kolefnisríkum mýrum. Þegar skógarnir eru ruddir og brenndir aukast áhrif loftslagsbreytinga því bæði losnar kolefni út í andrúmsloftið þegar skógurinn sjálfur er brenndur og einnig þegar mýrin er ræst fram. Að auki kviknar oft í þessum mýrum og árið 2015, sem var mjög þurrt ár, var mikill hluti Suðaustur-Asíu hulinn menguðu mistri sem rekja mátti að miklu leyti til skógarelda í Indónesíu vegna pálmaolíuframleiðslu. Við það að breyta regnskógum í plantekrur eru í raun búin til nær líflaus landsvæði þar sem dýr eins og órangútanar eiga sér enga von. Talið er að ef haldið verður áfram að eyðileggja regnskóga Indónesíu á sama hraða gætu órangútanar orðið útdauðir í náttúrunni innan örfárra áratuga. Að auki hefur Amnesty International nýlega komið upp um hræðilegan aðbúnað fólks og barna sem vinnur á pálmaolíuplantekrum þar sem börnum er þrælað út og konur veikjast við að úða skordýraeitri á skógarbotninn.“

Eykur á vandann í stað þess að leysa hann

Sigríður spyr hvort ekki hafi verið ætlunin að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda með pálmaolíu á sínum tíma:

„Jú það var vissulega yfirvarpið hjá vinstri stjórninni á sínum tíma. Nú segja þingmenn vinstri flokkanna hins vegar um þetta eldsneyti:

Reiknað hefur verið út að lífeldsneyti frá jurtaolíu, sem er um 70% af lífeldsneytismarkaði í Evrópu, losi 80% meira af gróðurhúsalofttegundum en jarðefnaeldsneytið sem verið er að skipta út. Pálmaolía trónir þar hæst og er þrisvar sinnum verri en jarðefnaeldsneyti, en næst á eftir kemur sojaolía sem er tvisvar sinnum verri.“

 

Ég hef af og til mælt gegn þessum fráleitu lögum og skattaílvilnunum vinstri stjórnarinnar og lagði fram frumvarp árið 2015 um að aflétta þessari íblöndunarskyldu til ársins 2020 svo menn fengju ráðrúm til að skoða málið ofan í kjölinn áður en svo miklum fjármunum væri kastað á glæ.

Nú hafa þingmenn Samfylkingar og VG sem sagt skoðað málið og komist að þeirri niðurstöðu að lög hreinu vinstri stjórnarinnar um endurnýjanlegt eldsneyti sem áttu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hafi þvert á móti aukið losunina, valdið stórkostlegri loftmengun í Asíu, auk þess að stuðla að eyðingu regnskóga, ógna líffræðilegri fjölbreytni og ýta undir vinnuþrælkun og illa meðferð á konum og börnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti
Fréttir
Í gær

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fréttir
Í gær

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“
Fréttir
Í gær

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“