Lára G. Sigurðardóttir, læknir og doktor í lýðheilsuvísindum, segir að engan þarf að undra að unglingar þambi örvandi drykki til að komast í gegnum daginn.
Lára skrifar um mikilvægi svefns í bakþönkum Fréttablaðsins í dag og bendir á að skuggalega margir unglingar leggi það í vana sinn að sofa einungis í rúma sex tíma á nóttu. Það er langt frá því að vera heilbrigt þegar æskilegur svefntími þeirra eru níu tímar.
Lára byrjar grein sína á að fræða lesendur um sjúkdóm sem kallast Fatal Familial Insomnia. Sjúkdómurinn dregur fólk til dauða en hann einkennist af því að einstaklingurinn hættir að geta sofið. „Hann á erfitt með að einbeita sér, verður gleyminn og fær ofskynjanir – auk þess sem kvíði og þunglyndi sækir á. Þótt sjúkdómurinn sé afar fátíður gefur hann okkur mikilvæga innsýn í áhrif svefnleysis.“
Lára segir að það sé í raun ekki skrýtið að fólk sæki í orkudrykki þegar það sefur ekki nóg. Neyslan geti þó dregið dilk á eftir sér. „Það er auðvelt að lenda í vítahring svefnleysis og örvandi drykkja. Þegar maður fær ónógan svefn þá sækir maður frekar í örvandi efni og þegar maður er með of mikið af örvandi efnum í líkamanum þá sefur maður verr,“ segir hún og bendir á staðreynd sem er eflaust ekki á allra vitorði.
„Örvandi drykkir innihalda venjulega koffín og önnur efni sem skerða svefngæði. Ef þú færð þér orkudrykk seinnipart dags þá er helmingur koffíns enn í blóðinu þegar kemur að háttatíma en koffín hindrar m.a. að boðefnið adenósín geti sagt heilanum að það sé kominn svefntími. Börn eru næmari fyrir áhrifum koffíns og eiga alls ekki að neyta örvandi drykkja enda sérðu á umbúðunum, ef grannt er skoðað, að þeir eru ekki ætlaðir yngri en 20 ára.“
Lára segir að lokum að það þurfi ekki að vera flókið að hjálpa unglingum að sofa rótt, til dæmis með því að aftengja internetið á kvöldin, setja símtæki í lokaðan skáp og ræða við þau um svefninn. Þá beinir hún tilmælum sem innflytjenda orkudrykkja og verslunareigenda.
„Innflytjendur örvandi drykkja geta merkt betur umbúðirnar með aldurstakmarki og verslunareigendur sett stífari reglur um sölu til unglinga. Þangað til næst, sofðu rótt – því það er fátt jafn endurnærandi og að vakna eftir góðan svefn.“