Brynjar Steingrímsson, Dagur Kjartansson og Halldór Anton Jóhannesson hafa allir verið ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Allir þrír eru fremur ungir, Brynjar og Dagur eru 23 ára meðan Halldór er 21 árs.
Þeir eru sakaður um hafa saman staðið að innflutningi á ríflega 16 kílóum af kókaíni. Í ákæru kemur fram að Brynjar hafi skipulagt smyglið meðan Dagur og Halldór hafi verið burðardýrin. Samkvæmt ákæru fóru þeir tveir til Frankfurt síðastliðinn maí. Þaðan tóku þeir lest til Amsterdam og hittu óþekkta aðila um borð í lestarvagni, allt samkvæmt fyrirmælum Brynjars, að því er segir í ákæru.
Í lestarvagninum tók hver á móti sinni ferðatösku en í þeim voru fíkniefnin falin undir fölskum botni. Því næst héldu þeir til Frankfurt þar sem þeir innrituðu sig og töskurnar til Keflavíkur. Það voru yfirvöld á flugvellinum þar sem fundu fíkniefnin í tösku Halldórs meðan yfirvöld hér á landi fundu fíkniefnin í tösku Dags. Báðir voru handteknir við komuna til Íslands.
Í ákæru kemur fram að Brynjar hafi fengið þá tvo til að flytja fíkniefnin en hann lét þá í té fé til að kaupa flugmiða auk uppihalds úti. Hann er sakaður um að hafa gefið þeim fyrirmæli í gegnum ónefnt samskiptaforrit.
Athygli vekur að bæði Dagur og Brynjar eru ákærðir fyrir að hafa verið gómaðir með nokkur grömm af kókaíni í sitthvoru atvikinu eftir að þeir komu til landsins. Halldór er jafnframt ákærður fyrir peningaþvætti en á heimili hans fundust ríflega þrjár milljónir króna við húsleit.