fbpx
Miðvikudagur 13.nóvember 2024
Fréttir

Sólveig í Eflingu um hörmungar Landspítalans: „Það kostar að leyfa græðginni að ráða för“

Máni Snær Þorláksson
Sunnudaginn 15. september 2019 13:53

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elín Tryggvadóttir, hjúkrunarfræðingur á Landspítalans, skrifaði pistil á Facebook sem vakti athygli á þeim slæmu aðstæðum sem eru á bráðamóttökunni.

Hún segir föstudaginn 13. september síðastliðinn hafa verið erfiðan dag í sögu Landspítala.

„Starfsfólk Bráðamóttöku veit að þjóðsögur um föstudaginn þrettánda eru sannar og þegar dagurinn ber upp á fullu tungli er voðinn vís á vaktinni. Ekkert okkar grunaði að nýtt og ömurlegt met yrði slegið þennan dag. Innlagnarstaðan á 36 rúma Bráðamóttökunni fór í 41 sjúkling. Það þýðir að deild sem veltir um 100 skjólstæðingum á sólarhring var yfirfull af sjúklingum sem hefðu átt að liggja á legudeildum og ekkert svigrúm var fyrir starfsfólk að taka á móti nýjum sem samt streymdu á spítalann bæði í einkabílum sem sjúkrabílum. Þetta þýðir á mannamáli að eina bráðamóttaka suðvesturhornsins var óstarfhæf þennan dag. Spáið í því!“

Elín nefnir síðan dæmi sem gerðist fyrir tveimur vikum en þá var allt á kafi í Landspítalanum en á meðan var fólki gefið frí á annarri ríkisstofnun.

„Allir starfsmenn áttu þó að mæta á vinnustaðinn en þennan dag voru þó engin verk unnin. Starfsfólkið mætti klukkan tíu og steig upp í rútu á leið í óvissuferð á kostnað stofnunarinnar. Fólk sem vinnur með tölur verður að fá að hvílast og lyfta sér upp. Hlaða batteríin og tengjast vinnufélögum. Þessi sama stofnun hefur ítrekað skilað verulegum rekstarafgangi síðustu ár. Á þessari stofnun er starfsemin alltaf eins, engar óvæntar breytur, enginn óvæntur kostnaður. Veruleiki olnbogabarnsins Landspítala er annar. Enginn dagur er eins. Haga verður seglum eftir vindi því kostnaður stofnunarinnar sveiflast eins og trampolín í íslensku fárviðri. Íslendingum fer fjölgandi. Ferðamönnum og innflytjendum líka. En þessari skjólstæðingafjölgun fylgir ekkert fjármagn.“

Í miðri færslunni fara spurningar að dynja frá Elínu.

„Þurfa hjúkrunarfræðingar kannski ásættanlegar vinnuaðstæður, laun sem hægt er að vera stoltur af og mannlegt vinnuálag? Getur verið að starfsfólk Landspítala þurfi smá slaka? Kannski einstaka hrós frá ríkisstjórninni í stað ásakana um „óþarfa“ eyðslusemi. Getur verið að hrista þurfi aðeins upp í fjármálum ríkiskassans í stað þess að þurrausa þjóðarsjúkrahúsið? Getur verðið að sumar ríkisstofnanir skili alltaf rekstarafgangi vegna þess að fjármagn til þeirra sé ofmetið? Getur verið að starfsmenn Landspítala séu ekki gráðugir eyðsluseggir sem brenni peninga alla daga heldur séu þeir að sinna skyldu sinni gagnvart skjólstæðingum af alúð og fagmennsku. Getur fjármálaráðherra tekið hausinn uppúr holunni, kynnt sér málið af alvöru og byrjað að sinna starfi sínu? Getur hann notað menntun sína, dómgreind og stöðu til að jafna fjárframlög til stofnana ríkisins?“

Færslan hefur vakið mikla athygli en þegar þetta er skrifað hefur verið líkað við hana af yfir 1.700 manns og mikill fjöldi fólks hefur tjáð sig í athugasemdum undir færslunni.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar er ein þeirra sem tjáði sig um málið en hún gerði það í færslu á Facebook. Hún gagnrýnir stjórnvöld og telur upp fjöldann allan af hlutum sem bera mikinn kostnað sem „venjulega“ fólkið þarf að bera.

„Það kostar að halda uppi íslensku auðstéttinni. Það kostar að leyfa fámennum hópi að greiða sjálfum sér milljarða í fjármagnstekjur. Það kostar að leyfa fjármagnseigendum að fá endalausan og kerfisbundinn skattafslátt. Það kostar að halda uppi eignastétt sem ekki aðeins sogar til sín arðinn sem vinna vinnuaflsins skapar og neitar svo að leggja eðlilega til samfélagsins í gegnum skatta, heldur bætir um betur og sendir risastórar fjárhæðir í skattaskjól, svo að þær megi þar vaxa og dafna á meðan velferðarkerfið okkar hrörnar og hrynur. Það kostar að hafa pólitíska valdastétt sem leyfir þvi að gerast að 300 manneskjur skipti á milli sín 46 milljörðum, á meðan hún felur sig á bak við tal um „eina þjóð“.

Það kostar að þykjast ekki geta gert neitt til að endurúthluta réttmætri eign samfélagsins, öllum þessum endalausu milljörðum sem forstjórar, fjárfestar, bankastjórar og útgerðamenn gefa sjálfum sér. Það kostar að lifa eftir brauðmolahagfræðinni, það kostar að skipta kökunni ekki jafnt, það kostar að taka ekki af skarið, það kostar að bíða eftir því að auðstéttin kaupi sig endanlega fram fyrir allar raðirnar og allt álagið og smíði handa sjálfri sér heilbrigðiskerfi, skólakerfi, umönnunarkerfi hinna ríku. Það kostar að láta sem „the crisis of care“ sé ekki raunveruleg, sé ekki afleiðing nýfrjálshyggjunnar og arðránsins. Það kostar að hafa Bjarna Ben sem fjármálaráðherra. Það kostar að leyfa græðginni að ráða för þegar samfélagsleg gildi eru ákvörðuð og það er alltaf „venjulega“ fólkið sem ber þann kostnað. Allsstaðar og alltaf.“

Hér fyrir neðan má lesa færslu Elínar í heild sinni.

https://www.facebook.com/elintr/posts/10157449882838972

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Segir að Kristrún hafi tekið Stefán Einar í kennslustund

Segir að Kristrún hafi tekið Stefán Einar í kennslustund
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Nú er komið að ögurstundu – Verða ESB og Úkraína ein gegn Rússlandi?

Nú er komið að ögurstundu – Verða ESB og Úkraína ein gegn Rússlandi?
Fréttir
Í gær

Birtir dæmi úr kommentakerfinu og spyr hvað þurfi til að fólk fatti spillinguna

Birtir dæmi úr kommentakerfinu og spyr hvað þurfi til að fólk fatti spillinguna
Fréttir
Í gær

Spyr hvort „Barna­verndarpáfinn“ sé hafður í felum – „Meðan kjallarinn morknar verður íburðurinn alltaf meiri í risinu“

Spyr hvort „Barna­verndarpáfinn“ sé hafður í felum – „Meðan kjallarinn morknar verður íburðurinn alltaf meiri í risinu“