„Við leggjum fram gögnin og stefnuna og gagnaðili tekur við þeim, fær greinargerðarfrest og skilar svo greinargerð í framhaldinu. Málið er á frumstigi og þetta er fyrsta fyrirtaka,“ segir Sævar Þór Jónsson, lögmaður Wiktoriu Joanna Ginter, sem stefnt hefur hljómsveitinni Hatara fyrir samningsbrot. Ólíklegt er að hljómsveitarmeðlimir birtist í þingsal á morgun en málið verður tekið fyrir í sal 102 í Héraðsdómi Reykjavíkur kl. 10 í fyrramálið. Málið er ekki komið á dagskrá dómstólsins þar sem þetta er aðeins fyrsta fyrirtaka.
Að sögn Sævars hlaupa kröfur Wiktoriu á hendur Hatara á milljónum króna en hann sagðist ekki hafa nákvæma tölu á reiðum höndum. Meðal gagna sem Wiktoria mun leggja fram í dómnum er samningur og tölvupóstsamskipti. Hatari voru bókaðir á tónlistarhátíðina Iceland to Poland í desember. Wiktoria segir að síðar hafi þeir neitað að koma fram á hátíðinni nema gegn hærri greiðslu en samningurinn kveður á um. Hátíðin var síðan haldin í Póllandi dagana 20. – 24. ágúst án þátttöku Hatara.
„Þeir eyðilögðu næstum hátíðina mína með græðgi sinni,“ sagði Wiktoria við DV í gærkvöld.
Ekki hefur tekist að ná samband við meðlimi Hatara við vinnslu þessara frétta en þess verður freistað.