fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fréttir

„Mér gjörsamlega blöskraði hvernig lögreglumenn notuðu kerfið“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 6. september 2019 18:00

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Liður í starfi lögreglu er að skrifa skýrslur um störf sín í gagnagrunn lögreglunnar, LÖKE, en í því kerfi má finna bæði dagbók lögreglu og málaskrá. Hver sá sem lögreglan hefur í störfum sínum afskipti af, sé það grunaður eða kærður einstaklingur, brotaþoli, vitni eða annað, er skráður samviskusamlega og skýrslan sett inn í gagnagrunninn. Því er ljóst að í LÖKE er að finna gífurlegt magn persónuupplýsinga. Á undanförnum árum hafa ítrekað komið upp mál þar sem starfsmenn lögreglu eru grunaðir um að misfara með aðgangsheimildir sínar að LÖKE til að hnýsast í persónuupplýsingar, án tilefnis.

LÖKE-málin

Athygli vakti árið 2014 þegar lögreglumaðuri var ákærður fyrir að hafa flett upp 45 konum í LÖKE, forvitnast þar um upplýsingar um konurnar án þess að það tengdist störfum hans, en einnig fyrir brot gegn þagnarskyldu fyrir að hafa greint trúnaðarvini frá atviki sem átti sér stað þegar lögreglumaðurinn var við skyldustörf. Fallið var frá þeim lið ákæru sem laut að uppflettingum í LÖKE, en miklir annmarkar þóttu á rannsókn málsins og ekki nægilega sýnt fram á að uppflettingar hefðu ekki tengst lögreglustörfum hans. Maðurinn var þó einnig ákærður fyrir brot gegn þagnarskyldu eftir að hafa nafngreint, við trúnaðarvin, einstakling sem hafði ráðist á hann í starfi. Fyrir þann lið var hann sakfelldur í Hæstarétti en ekki gerð refsing. Í málinu varð því aldrei tekin afstaða til þess hvort aðgangur að LÖKE hafi verið misfarinn, þó svo að málið hafi í umfjöllun verið kennt við LÖKE.  Í kjölfarið kærði lögreglumaðurinn Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, þáverandi staðgengil lögreglustjóra á Suðurnesjum, fyrir að hafa brotið gegn starfsskyldum sínum.

Landamæravörður sem starfaði hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum var ákærður árið 2017 fyrir brot í opinberu starfi. Það gerðist eftir að upp komst að hún hafði notað LÖKE-kerfið til að fletta upp málum tengdum fyrrverandi maka og öðrum einstaklingum sem hún hafði verið í samskiptum við vegna lögreglumáls. Hún játaði fyrir héraðsdómi að hafa gerst sek um þá háttsemi sem greint var frá í ákæru og var gert að greiða 100 þúsund króna sekt. Landsréttur taldi hins vegar játningu konunnar ekki skýlausa. Hún hafði játað að hafa flett um málum í LÖKE án þess að það tengdist starfi hennar, en hafði hins vegar ekki játað að hafa með því hallað á rétt einstakra manna eða hins opinbera.

Í apríl á síðasta ári var greint frá því að gefin hefði verið út ákæra á hendur lögregluvarðstjóra hjá Lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra. Var honum gert að sök að hafa flett upp máli er varðaði rannsókn á bruna Grillskálans á Þórshöfn, sem hann sjálfur hafði áður rekið. Því var haldið fram að varðstjórinn hefði notað lykilorð annars lögreglumanns og skoðað skýrslur og vitnisburði í málinu, sem var honum óviðkomandi.

Tilfellið í Noregi

Vibeke lést sviplega í sjósleðaslysi í júlí 2018

Sambærileg mál hafa komið upp úti um allan heim. Lögregla hefur aðgang að gífurlegu magni persónuupplýsinga starfa sinna vegna og sumir láta undan freistingunni að hnýsast aðeins í mál sem þeim ekki koma við. Í nýlegu dæmi frá nágrönnum okkar í Noregi var nokkur fjöldi lögreglumanna sektaður eftir að upp komst að þeir hefðu flett upp gögnum sem tengdust rannsókn á andláti skíðakonunnar Vibeke Skofterud, sem var ekki  til rannsóknar hjá þeirra umdæmi. Lögreglumennirnir gengust flestir við sök og var gert að greiða 35 þúsund krónur í sekt.

Fyrrverandi lögreglumanni blöskraði

LÖKE-kerfið á Íslandi virðist þó ekki virka með sama hætti, það upplýsir ekki að fyrra bragði um grunsamlegar uppflettingar í kerfinu. Þá vaknar spurningin um hvort og þá hvernig persónuupplýsingar séu tryggðar hjá lögreglu. Hvernig sé komið í veg fyrir að hnýst sé í viðkvæmar persónuupplýsingar okkar og hvernig getum við komist að því hvort slíkt hafi verið gert?

Fyrrverandi lögreglumaður, sem ekki vill láta nafn síns getið, lýsti því við DV að hafa margsinnis orðið vitni að því að kollegar hans hefðu misnotað LÖKE-kerfið og þó svo nokkuð sé liðið síðan hann lét af störfum sem lögreglumaður hafi hann frétt í gegnum tengslanet sitt að slíkt væri enn stundað. „Ég starfaði sem lögreglumaður í [X] ár og mér gjörsamlega blöskraði hvernig lögreglumenn notuðu kerfið. Fólk var að fletta upp í kerfinu sér til dægrastyttingar. Það var verið að skoða vini, ættingja, þekkta einstaklinga og aðra sem höfðu ekkert með starf þeirra að gera sem lögreglumenn og svo var verið að tala um og skoða einstaklinga sem voru kannski viðloðandi einhver mál eða í rannsókn án þess að viðkomandi lögreglumenn hefðu nokkra aðkomu að málinu sjálfir. Eingöngu forvitni í lögreglumönnum og hafa eitthvað til að smjatta á og gera grín að oft á tíðum. Ég átti oft ekki til orð yfir þessu og gerði athugasemd sem engu skilaði.“

Geislavirkur kjarnorkuúrgangur

Helgi Hrafn var að mestu hlynntur lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi

Til að tryggja öryggi persónuupplýsinga og til að uppfylla skuldbindingar Íslands samkvæmt samkomulagi um Schengen voru lögfest lög um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi í júní. „Það er mikill misskilningur að lögreglan geri sjálfkrafa allt rétt, svo vægt sé tekið til orða,“ segir í ræðu Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, í umræðum þingsins um lögin.

„Í gegnum tíðina hef ég fengið að vita af mjög miklum misbresti innan lögreglustofnana og það er ekki við öðru að búast. Þetta eru mannlegar stofnanir þar sem starfar mannlegt fólk sem er jafn misjafnt og allir aðrir.“ Helgi greindi í ræðu sinni frá því að hann væri að mestu hlynntur fyrirhuguðum lögum, en hafði þó vissar athugasemdir. „Meðferð persónuupplýsinga er eitt af því sem maður hefur heyrt í gegnum tíðina frekar óþægilegar sögur af, sér í lagi í kringum tölvukerfi víðfrægt sem heitir LÖKE. […] Ég á ofboðslega erfitt með að trúa því að svo mikið af sögusögnum komi fram, sem eru í þokkabót líkar hver annarri, án þess að það sé einhver fótur fyrir þeim.“

Í nýjum lögum er sett skilyrði um rekjanleika uppflettinga í upplýsingakerfum og aðgerðarskráningu. Þó er þeim sem sem ekki hafa þegar tekið slíka skráningu í notkun gefin mjög ríflegur frestur  til innleiðingar, sjö ár. Þessu er Helgi á móti og þykir tíminn alltof langur. „Aðgerðarskráning er úr virkni í tölvukerfi þar sem skráð er niður hvað sé gert, til dæmis ef einhver flettir upp manneskju þá sé það skráð að viðkomandi hafi flett upp manneskju […] slík aðgerðarskráning að mínu mati og minni reynslu er gríðarlega mikilvæg til þess að fólk sem fer með upplýsingar fari varlega með þær. Mér hefur reynst vel sú speki að maður eigi að koma fram við persónuupplýsinga svolítið eins og geislavirkan kjarnorkuúrgang, maður á helst ekki að snerta hann eða koma nálægt honum nema maður þurfi þess og þá gera það í stuttan tíma og vera ekkert að fikta í honum umfram það sem þörf er á. En það eru bara ekki allir með það viðhorf.“

Helgi segir engan afslátt mega gefa af vernd persónuupplýsinga, sérstaklega hvað varðar löggæslustörf. Nú standi yfir tími breytinga til hins betra þar sem aukin áhersla sé lögð á vernd upplýsinga og séu þessi lög liður í þeim jákvæðu breytingum.

Helgi fjallar um aðgerðarskráningu sem er gerð að skilyrði í nýju lögunum en þó er kerfum sem tekin voru í gagnið fyrir 2016 veittur frestur til 2026 til að uppfylla skilyrðið. Allar aðgerðir og uppflettingar í LÖKE eru rekjanlegar til starfsmanna og tímasetningar. Hins vegar er ekki gerð krafa um að starfsmenn skrái í hvaða tilgangi upplýsingum sé flett upp. Til þess er ætlast að þeir geti gert grein fyrir uppflettingu ef sérstaklega er farið fram á það við þá. Þetta hefur þótt ópraktískt fyrirkomulag, þar sem lögreglumenn fletti upp gífurlegum fjölda mála og erfitt að ætla þeim að gera grein fyrir einstaka flettingu eftir að nokkur tími hefur liðið.

 

Ríkislögreglustjóri

Ríkislögreglustjóri
Vill losna við rekstur lögreglubíla.

LÖKE hefur ekki sjálfvirka ferla sem bera kennsl á óeðlilegar uppflettingar. Getur maður sjálfur farið og beðið um aðgerðarskráninguna?

„Tæknilega séð er unnt að taka út yfirlit yfir allar uppflettingar í málaskrá lögreglu,“ segir í svari embættis Ríkislögreglustjóra við fyrirspurn blaðamanns. „Hafa starfsmenn upplýsingatæknideildar ríkislögreglustjóra einir aðgang að atburðarskrá (log-skrá) lögreglukerfisins og geta rakið allar fyrirspurnir og aðgerðir starfsmanna í lögreglukerfinu. Það er á ábyrgð hvers embættis að viðhafa eftirlit með uppflettingum starfsmanna sinna og eftir atvikum biðja starfsmenn um að gera grein fyrir uppflettingum sínum.“ Viðurlög við óheimilum uppflettingum í LÖKE, fara eftir alvarleika brotsins. „Slík viðurlög geta verið allt frá agaviðurlögum starfsmannalaga eða allt að refsiviðurlögum ef um refsiverða háttsemi er að ræða,“ segir í svari Ríkislögreglustjóra.

„Nákvæmar tölur um fjölda þeirra sem óska eftir upplýsingum um hverjir hafa flett þeim upp liggja ekki fyrir, en frá því að lög um persónuvernd voru fyrst sett árið 2000 hafa einhverjir tugir óskað eftir slíkum upplýsingum,“ segir í svarinu þar sem jafnframt er tekið fram að starfsmenn með aðgang að LÖKE teljist ekki vera viðtakendur persónuupplýsinga og almenningur hafi því ekki rétt á upplýsingum um hvaða starfsmaður hafi skoðað persónuupplýsingar. „Þeim er þó leiðbeint um að hafi einstaklingur grun um að misfarið hafi verið með viðkvæmar persónuupplýsingar um sig þá sé unnt að leggja fram kæru hjá lögreglu eða kvörtun til nefndar um eftirlit með lögreglu.“

Þrátt fyrir að ekki sé hægt að fá upplýsingar um hver flettir manni upp í LÖKE þá er hægt að fá upplýsingar um hvaða persónuupplýsingar eru skráðar um okkur í kerfinu. „Fjöldi þeirra sem óskar eftir því að fá upplýsingar um hvaða upplýsingar kunna að vera skráðar í lögreglukerfin skipta hundruðum á ári hverju og þeim er ýmist afhentur listi yfir þær skráningar gegn framvísun persónuskilríkja eða sendur í ábyrgðarpósti á lögheimil eða skráðan dvalarstað.“

Staða persónuupplýsinga þinna hjá lögreglu

Fyrrverandi lögreglumaður greindi DV frá vitneskju sinni um misnotkun lögreglumanna á LÖKE og Helgi Hrafn lýsti jafnframt yfir í ræðu á Alþingi að hafa heyrt margar sögusagnir af slíku misferli. Þrátt fyrir það eigum við ekki rétt á upplýsingum um hver flettir okkur upp í LÖKE. Þær upplýsingar getum við ekki fengið nema hafa nægilegan grun um að brot hafi átt sér stað til að fara með málið í visst kvörtunar- eða ákæruferli. Helgi Hrafn segir það veita visst aðhald að þurfa að gera grein fyrir því í hvert sinn sem flett er upp í slíkum kerfum. Þrátt fyrir það er slíkt ekki gert. Þess í stað er treyst á að lögreglumenn muni hundruð skráninga og ástæður þeirra utanbókar, ef þeir skyldu vera beðnir um að gera grein fyrir þeim. Fólk getur þó fengið upplýsingar um hvaða upplýsingar liggja fyrir hjá lögreglu. Ferlið til að fá slíkt í gegn er afar einfalt. Einstaklingar geta haft samband við embætti Ríkislögreglustjóra, fylla út eyðublað og svo hefur Ríkislögreglustjóri mánuð til að verða við beiðninni. En ef þið viljið vita hver fletti ykkur upp, hvers vegna og hvenær, þá verðið þið að leggja fram kæru hjá lögreglu eða kvarta til nefndar um eftirlit með lögreglu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Í gær

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt