Eins og DV sagði frá fyrr í dag þá er búið að úrskurða bakaríið Guðni bakari á Selfossi gjaldþrota og var það gert 26. ágúst síðastliðinn samkvæmt fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra. Jóhannes Felixson, betur þekktur sem Jói Fel, festi kaup á Guðna bakara og bakaríinu Kökuvali á Hellu árið 2017, en Kökuvali hefur einnig verið lokað þó fyrirtæki sem heldur utan um rekstur bakarísins hafi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta.
Jói Fel segir í samtali við DV að hann hafi verið helmingseigandi í bakaríinu á Selfossi og ítrekar að sá rekstur sé ótengdur rekstri Jóa Fel á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hann rekur fjölmörg bakarí.
„Aðrir sáu um að reka bakaríið og var það alveg ótengt bakaríi Jóa Fel hér í bænum,“ segir Jói í samtali við DV. „Bakaríið gekk ekki vegna of mikils kostnaðar og var ákveðið að skella í lás, þar sem það var ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi rekstri,“ bætir hann við.
Því er ljóst að rekstur Jóa Fel á höfuðborgarsvæðinu er ekki í hættu samfara gjaldþroti Guðna bakara. Samtals störfuðu um tuttugu manns hjá Guðna bakara og Kökuvali, en eins og áður segir er óvíst um framtíð Kökuvals á Hellu.