Nýnasistasamtökin Norðurvígi héldu útifund á Lækjartorgi í hádeginu í dag. Hópurinn samanstóð af meðlimum hópsins frá öllum Norðurlöndum, flestir virtust þó Svíar, auk nokkurra Íslendinga. Einn Íslendinganna sagði í samtali við DV að hópurinn hygðist vera sýnilegri á næstunni. „Við ætlum að gefa í,“ sagði hann.
Lögregla mætti á vettvang en samkvæmt meðlimi samtakanna sem DV ræddi við gerði hún lítið annað en að biðja um nöfn þeirra. Fundurinn virtist fara friðsamlega fram, í það minnsta meðan blaðamaður var á vettvangi. Ljóst er þó að sumir vegfarendur létu þá heyra það.
Hópurinn dreifir bækling þar sem hugmyndir hópsins eru kynntar. Þar segir meðal annars:
„Fólki okkar og landi er stjórnað í auknum mæli af lítilli sjálfskipaðri alþjóðaelítu. Með sínu gríðarlega fjármagni hafa þeir náð stjórn á, auk annars, bönkunum, fjölmiðlum og skemmtanaiðnaðinum í öllum vestrænum samfélögum. Þar af leiðandi hefur þeim tekist að halda fólkinu í járngreipum þrælavaxta, menningar-marxisma og úrkynjaðrar ómenningar. Þeir kalla sig mannvini, kommúnista, kapítalista, síonista og alþjóðamenn – þeir eru allir höfuð á sömu hýdrunni – og markmið þeirra er alger stjórn!“