Gjaldþrot vofir yfir tveimur bakaríum sem Jói Fel keypti í desember árið 2017, en þetta eru Guðni bakari á Selfossi og Kökuval á Hellu. Um 20 manns vinna á þessum stöðum.
DV fékk ábendingar um að félagið sem rekur fyrirtækin hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta í gær. Þessu neitar Jói í samtali við DV:
„Það er bara verið að vinna í þessu og þetta skýrist síðar.“
Jói segir að það skýrist í næstu viku hvort rekstrinum verði bjargað. „Ég get ekki tjáð mig meira um þetta núna en það skýrist í næstu viku hvernig þetta verður. Það er verið að vinna í málunum núna.“
Í frétt sem Visir.is birti um kaupin árið 2017 segir:
„Já, það er rétt, ég er búin að kaupa Guðnabakarí á Selfossi og Kökuval á Hellu og tek við rekstri þeirra um áramótin. Bæði eru þessi bakarí flott og verða í svipuðum rekstri áfram en það verður þó smátt og smátt Jóa Fel stíll á þeim“, segir Jóhannes Felixson bakarameistari, betur þekktur sem Jói Fel, aðspurður hvort hann væri búinn að kaupa bakaríin.
Engar uppsagnir verða samhliða kaupunum, starfsmenn á báðum stöðunum munu halda vinnu sinni. Eftir kaupin verður Jói Fel eigandi sjö bakaría með yfir 100 starfsmenn.“
Í frétt sem Eiríkur Jónsson birti fyrir sex dögum segir að Guðni bakari hafi verið lokað og fékkst þá staðfest að reksturinn hefði stöðvast. Í maí birti Eiríkur frétt þess efnis að Jói hefði sett bakaríin á sölu. Aðspurður segir Jói að ekki standi til að loka fleiri bakaríum.