fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Fréttir

Kristjón þekkti þrjá menn sem tóku eigið líf eftir Litla-Hraun – „Reiðin var farin, vonleysi tók við og lífsviljinn ekki lengur til.“

Máni Snær Þorláksson
Fimmtudaginn 29. ágúst 2019 11:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristjón Kormákur, ritstjóri Hringbrautar, skrifaði pistil á Hringbraut í kjölfar þess að nýverið ungur maður fannst látinn í fangaklefa á Litla-Hrauni. Maðurinn hafði fyrirfarið sér og fyrr á árinu hafði annar fangi gert slíkt hið sama. 

„Ég þekki þrjá sem fangelsi á Íslandi hafa murkað lífið úr. Ég ætla að segja ykkur aðeins frá þeim.“

Fyrst segir Kristjón frá manni sem var settur á Litla-Hraun þegar hann var einungis 16 ára.

„Hann var svo sem enginn engill, þessi 16 ára pjakkur en hann var ekki orðinn harðsvíraður glæpamaður. Börn fara enn í fangelsi, við þekkjum það en þú setur ekki 16 ára barn á Litla-Hraun.“

Kristjón segir síðan frá því þegar það er gert, þegar 16 ára dreng er stungið í steininn.

„Litla-Hraun með öllu sínu myrkri, át hann. Át hann með húð og hári og spýtti leifunum út í samfélagið aftur, beinagrind af manni, fullum af heift sem hafði enga hjálp fengið. Þeir kölluðu það frelsi. Hann fór aftur á sinn stað, en núna reiðari, áttavilltari og hættulegri enn nokkru sinni fyrr. Nokkrar vikur liðu, kannski voru það dagar, þá hafði hann stungið jafnaldra sinn í miðbænum. Sköpunarverk fangelsisins var fullkomnað.“

Kritsjón talar um það hvernig drengurinn flakkaði eftir þetta á milli Litla-Hrauns og Síðumúlafangelsisins til skiptis.

„Hann réðst tvisvar á fangavörð og eitt skiptið sló hann fangavörð með járnstöng. Hitt skiptið hindraði hann fangavörð í að stöðva annan ungan fanga sem stakk barnaníðinginn Steingrím Njálsson ítrekað á opnum gangi með ydduðum tannbursta í ömurlegasta fangelsi landsins, sem nú hefur blessunarlega verið rifið. Þarna voru þessir tveir ungu menn, enn börn samkvæmt lögum í dag, á opnum gangi með hættulegasta barnaníðingi landsins!“

Kristjón talar um að mennirnir hafi farið aftur og aftur í fangelsin. Þeir urðu alltaf verri og verri enda var enga betrun að fá.

„Og með hverju broti var þeim refsað og þeir látnir sitja af sér á Litla-Hrauni og í Síðumúlanum. Þeir komu aftur og aftur, verri og verri, enda enga betrun að fá, nema á Kvíabryggju kannski. En þangað fóru þeir ekki, því þar sváfu fjárglæframennirnir, borðuðu sveitamat, fengu að vinna og stunda útiveru á einum fallegasta stað landsins. Staður sem oft hefur breytt myrkri í ljós hjá ungum föngum, þau fáu skipti sem þeir hafa fengið að afplána þar.“

Kristjón segir Litla-Hraun hafa mótað þessa tvo ungu menn. Fangelsið tæmdi í þeim sálina en herti í þeim grimmdina þar til þeir gátu ekki meir.

„Reiðin var farin, vonleysi tók við og lífsviljinn ekki lengur til.“

Það liðu þrjú ár frá því að félagi Kristjóns gekk inn á Litla-Hraun og þar til hann var dáinn á þeim sama stað.

„Hinn félagi hans, sem fékk dæmdar bætur fyrir illa meðferð á áfangaheimili, var settur á Klepp í fleiri ár en var loks sleppt út án eftirfylgni. Hann lifði í nokkra mánuði.“

Kristjón talar því næst um Styrmi, sem var vinur hans á unglingsárum.

„Við brölluðum ýmislegt saman, misgáfulegt að vísu. Styrmir var, þegar ég þekkti hann, 17 eða 18 ára, glaðlyndur og dreymdi um betra líf en hafði villst af leið. Hann framdi sjálfsmorð á Kvíabryggju á síðasta ári. Ég fjallaði um Styrmi þegar ég var ritstjóri DV. Fangaverðir sem rætt var við sögðu allir að Styrmir glímdi við andleg veikindi og ætti ekki að vera í fangelsi. Það var vitað mörgum árum áður að Styrmir væri með geðklofa. Í geðveikisástandi framdi hann hræðilegt ofbeldisverk og hafði verið úrskurðaður ósakhæfur vegna veikinda sinna. Þrátt fyrir það var hann á næstu árum sendur aftur í fangelsi. Og í fangelsinu var hjálpin skorin við nögl og gott betur.“

Kristjón segir þetta vera mjög einfalt mál.

„Þetta er nefnilega mjög einfalt. Við látum ekki geðveikt fólk í fangelsi. Bæði þeirra vegna og eins hinna fanganna sem eru kannski, við litla aðstoð, að reyna koma lífi sínu á réttan kjöl. Ég veit um dæmi þar sem fangi í margra mánaða maníu var settur á gang með harðsvíruðustu föngunum, í þeirri von að þeir myndu hafa hemil á honum. Fangaverðirnir voru ráðalausir og harðhausarnir voru bæði hræddir og reiðir en svo reyndu sumir að hjálpa. Nokkrum mánuðum síðar kom hann niður úr stjórnleysi maníunnar og þá tók þunglyndi við og hann róaðist. Í klefanum fékk hann að vera einn með allar sínar hugsanir. Þá gerði hann sér grein fyrir því sem hann hafði gert þegar hann flaug stjórnlaus á vængjum maníunnar. Og voðaverkið var of mikið, þá sérstaklega þegar hann hafði ekki aðstoð til að vinna úr því sem hann hafði gert. Hann framdi sjálfsmorð.“

Hann segir málið bitna á okkur öllum, við verðum að hjálpa hinum veiku og eins reyna að betra fanga.

„Nú skulum við segja þetta gott. Við skulum krefjast þess að geðheilbrigðiskerfið verði tekið til gagngerrar endurskoðunar og dómskerfið samhliða því. Veikt fólk á ekki heima í lokuðu rými með ofbeldismönnum, nauðgurum og harðsvíruðum glæpamönnum. Þetta skiptir okkur líka máli sem erum frjáls, ekki bara vegna þess að við styðjum mannréttindi og viljum lifa í samfélagi þar sem hugsað er um veikt fólk, það bitnar nefnilega líka á okkur, mér, þér og þeim sem við þekkjum. Veik manneskja sem er lokuð inni í fangelsi kemur alltaf verri út. Og ef við hjálpum ekki bæði hinum veiku og eins reynum að betra fanga, halda þeir áfram að kasta steinum í gegnum bílrúðuna hjá þér, brjótast inn, berja þig niðri í bæ eða jafnvel fremja morð þegar þeir loks fá „frelsi“.

Kristjón segir samfélagið bregðast veiku fólki, sjálfsvígum fjölgar og fangelsismál eru í lamasessi. 

„Fjórir hafa framið sjálfsmorð á rúmum tveimur árum. Þar sem fangelsismálayfirvöld hafa úr litlu að moða eru fangar brotnir niður eða koma út hættulegri en nokkru sinni fyrr.“

Kristjón talar því næst um doktorsritgerð Boga Ragnarssonar, félagsfræðings, sem birtist árið 2013. 

„Þar kom fram að á bilinu 54–69 prósent fanga innan veggja íslenskra fangelsa glímdu við þunglyndi. Þá hafði um þriðjungur reynt sjálfsvíg. Einnig kom fram að afar brýnt væri að fangar fái viðeigandi sálfræðiaðstoð. Í fangelsum landsins eru þrjú stöðugildi sálfræðinga og það eru mörg hundruð sem þurfa á aðstoð að halda.“

Hann segir harminn sem birtist okkur í fréttum um sjálfsvíg fanga vera aðeins anga af því allsherjar klúðri sem íslensk geðheilbrigðismál eru.

„Við sem samfélag erum ítrekað að bregðast veiku fólki. Við vitum öll innst inni að þessi mál eru ekki í lagi.“

Kristjón botnar pistilinn með því að hvetja fólk til þess að virða mannréttindi og hætta að setja börn og veikt fólk í fangelsi. Hann leyfir síðan Styrmi að eiga lokaorðið.

„Hjálpið þeim að fóta sig á ný og hlúið að þeim veiku. Komum í veg fyrir sorg og samfélagið verður öruggara og betri staður fyrir okkur öll.

Ég ætla að leyfa Styrmi vini mínum að eiga lokaorðið. Hann sagði í viðtali árið 2004:

„Ég á mér þann draum að geta lifað eðlilegu lífi í óvernduðu umhverfi og það er kannski dálítið barnalegt að segja það en vitaskuld langar mig að eignast fjölskyldu í framtíðinni. Mig langar að standa á eigin fótum, vera eðlilegur án vímuefna og lifa samkvæmt því.“

Styrmir vinur minn fékk aldrei tækifæri til þess. Hann er dáinn. Öll þessi ár vildi hann hjálp, en hún var ekki í boði. Og ég man að síðast þegar ég sá hann, áður en fangelsið brást honum og slökkti að lokum lífsviljann, þá var hann ungur, myndarlegur, svarthærður og hárið sítt. Við kvöddumst og hann var brosandi. Þannig ætla ég að muna hann og eins og Styrmir á ég mér líka draum. Draumurinn er sá að ég vona að aldrei aftur þurfi neinn að skrifa grein eins og þessa.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Enn ruglast tælenskir fjölmiðlar á löndum – Íri í haldi lögreglu vegna andláts konu en er sagður íslenskur

Enn ruglast tælenskir fjölmiðlar á löndum – Íri í haldi lögreglu vegna andláts konu en er sagður íslenskur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Katrín í Lumex svarar lektornum – „Ef hún er með einhverja hefnd og grimmd þá má hún eiga hana. Ég á enga óvini“

Katrín í Lumex svarar lektornum – „Ef hún er með einhverja hefnd og grimmd þá má hún eiga hana. Ég á enga óvini“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður