fbpx
Miðvikudagur 13.nóvember 2024
Fréttir

Sigurður varð fyrir líkamsárás og nauðgun í Marseille: „Það er eins og einhver hluti af mér hafi dáið“

Auður Ösp
Miðvikudaginn 21. ágúst 2019 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður Gói Ólafsson varð fyrir fólskulegri líkamsárás og nauðgun í frönsku borginni Marseille í júlí síðastliðnum. Atvikið hefur haft alvarlegar afleiðingar. Gerandinn gengur enn laus.

DV og fleiri íslenskir fjölmiðlar greindu frá því á dögunum að lögreglan í Marseille í Frakklandi hefði til rannsóknar ofbeldisbrot gagnvart sextugum íslenskum karlmanni þar í borg. Upplýsingafulltrúi héraðslögreglunnar í  Bouches-du-Rhône staðfesti í samtali við DV að málið væri komið inn á borð lögreglunnar.

Í samtali við blaðamann lýsir Sigurður því hvernig atburðurinn hefur umturnað lífi hans.

„Maður heldur alltaf að ekkert muni koma fyrir mann. Ég er þannig gerður að ég vil alltaf trúa á það góða í fólki. Ég hef alltaf viljað standa í þeirri trú að allir hafa eitthvað til brunns að bera: hjá sumum þarf kannski bara að hafa meira fyrir því að laða það fram.“

Sigurður segist þess vegna eiga erfitt með að meðtaka það að einstaklingur geti framið jafn viðbjóðslegt illvirki og það sem hann varð fyrir.

Hefur alltaf upplifað öryggi

Unnusta Sigurðar er frá Frakklandi og hafa þau verið í fjarsambandi undanfarin þrjú ár. Þann 24. júlí síðastliðinn hélt Sigurður utan til Marseille. Framundan var mánaðardvöl í frönsku borginni þar sem parið ætlaði að eiga ánægjulegar stundir saman, og seinna meir fá heimsókn frá 13 ára syni Sigurðar.

Marseille er í suðausturhluta Frakklands og er önnur fjölmennasta borg landsins, með rúmlega 900.000 íbúa. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Sigurður heimsótti frönsku hafnarborgina.

„Ég hafði aldrei lent í neinu veseni áður þetta gerðist. Ég hef alltaf upplifað mig öruggan í borginni og alltaf kunnað afskaplega vel við fólkið.“

Stirðnaði upp af hræðslu

Sigurður hafði aðeins verið í Frakklandi í tæpan sólarhring þegar hann skrapp niður í bæ.

„Ég þurfti að fara og kaupa mér nýtt hleðslutæki fyrir símann minn. Ég var á leiðinni aftur heim snemma um kvöld. Ég stytti mér leið í gegnum garð þegar maður á reiðhjóli gaf sig á tal við mig. Við vorum bara eitthvað að spjalla og hann kom mér fyrir sjónir sem ósköp venjulegur maður. Hann spurði mig hvaðan ég væri og hvert ég væri að fara og þess háttar.

Skyndilega réðst hann á mig, algjörlega upp úr þurru. Hann kýldi mig í síðuna og hrinti mér á magann. Því næst reif hann niður mig buxurnar. Síðan nauðgaði hann mér.“

Viðbrögð Sigurðar voru þau að frjósa.

„Ég stirðnaði upp af hræðslu. Ég var viss um að hann myndi drepa mig. Ég hélt hreinlega að ég væri að fara að deyja.“

Sigurður veit ekki hvað árásin tók langan tíma. Kannski nokkrar mínútur. En þetta virtist sem heil eilífð.

Maðurinn flúði á brott og hafði með sér hliðartösku Sigurðar sem innihélt meðal annars vegabréfið hans og reiðufé upp á tæpar 100 þúsund íslenskar krónur, 60 þúsund í íslenskum seðlum og restina í evrum. Þá tapaði Sigurður einnig gleraugunum sínum, en hann er afar sjónskertur.

Honum tókst að koma sér upp á veg og stöðva bíl. Þar voru á ferð ungir piltar sem keyrðu Sigurð rakleitt á næstu lögreglustöð.

„Það var ákaflega erfitt að ná sambandi við lögreglumennina, því nánast enginn þeirra talaði ensku. Að lokum þurfti að kalla á túlk. Þetta gekk allt mjög seinlega, en þeir unnu sína vinnu vel.“

Sigurður Gói. Ljósmynd/Úr einkasafni

Fárveikur af HIV-lyfjum

Sigurður var fluttur á sjúkrahús þar sem hann gekkst undir læknisskoðun og tekin voru af honum lífsýni. Þá voru fötin hans einnig gerð upptæk. Hann reyndist vera rifbeinsbrotinn.

Sigurði var einnig tjáð að hann þyrfti að gangast undir mánaðarlangan lyfjakúr til að koma í veg fyrir hugsanlegt HIV-smit. Lyfin eiga að koma í veg fyrir að vírusinn nái að taka sér bólfestu í líkamanum en aukaverkanirnar eru miklar.

„Maður verður fárveikur af þeim. Ég tek þau á kvöldin og vakna svo alltaf á nóttunni því ég verð að gubba.“

Sigurður fór stuttu seinna í fylgd lögreglu á svæðið þar sem árásin átti sér stað. Öryggismyndavél er á svæðinu og því náðist árásin á myndbandsupptöku.

„Upptakan reyndist samt vera svo óskýr að það var engan veginn hægt að greina andlitið á manninum.“

Sigurður fór einnig í viðtal hjá geðlækni sem starfar á vegum lögreglunnar. Málið var sett í hendur kynferðisbrotadeildar hjá embættinu og var Sigurði sagt að rannsóknin gæti tekið óratíma.

Þorði ekki út úr húsi

„Þetta hefur haft hræðileg áhrif á mig. Það er eins og einhver hluti af mér hafi dáið. Fyrstu dagana á eftir var ég mjög hræddur og þorði ekki út úr húsi. Það er rosalega erfitt að lýsa þessu,“ segir Sigurður og tekur undir að aðeins þeir sem hafi gengið í gegnum hrylling af þessu tagi geti sett sig í þessi spor.

Honum finnst vont að vita af því að gerandinn gangi enn laus. Lögreglan sagði honum að líklegast hafi árásin verið þrælskipulögð. Í þar seinustu viku fannst vegabréf Sigurðar í smábæ í 30 kílómetra fjarlægð frá Marseille. Fyrir utan það hefur lögreglan við lítið að styðjast.

„Þeir sögðu mér að hugsanlega væri hægt að grípa manninn ef hann reyndi að skipta íslensku peningunum einhvers staðar. Það er svona helsta vonin.“

„Það koma upp alls konar hugsanir og tilfinningar“

Sigurður hefur þurft á róandi lyfjum að halda til að komast í gegnum dagana. Hann hefur einnig verið í viðtölum hjá geðlækni sem honum var vísað á af sjúkrahúsinu.

„Hann er ofboðslega góður maður og ég finn að hann veit nákvæmlega hvað ég er að ganga í gegnum.

Ég sagði honum til dæmis að ég hafi stundum viljað láta loka mig inni einhvers staðar, í einhverjum klefa þar sem ég væri öruggur fyrir öllu. Hann sagði að það væri fullkomlega eðlilegt að líða svona. Í eitt skipti spurði hann mig hvort mig hafi einhvern tímann langað til að drepa manninn. Ég sagði honum að stundum langi mig til þess. „Einmitt, það er gott,“ sagði hann þá.

Það koma upp alls konar hugsanir og tilfinningar og stundum veit maður hreinlega ekki hvort þær séu rökréttar eða hvort maður sé hreinlega bara að klikkast. Þá er gott að geta rætt um það við einhvern sem hefur sérfræðiþekkingu.“

Marseille

Þjakaður af áhyggjum vegna fjárútláta

Einstaklingar sem verða fyrir ofbeldis- og kynferðisbrotum erlendis geta átt í vandræðum með að sækja rétt sinn til bóta. Sigurður stendur frammi fyrir miklum kostnaði varðandi læknis- og lyfjameðferð og þá hefur hann einnig þurft að leggja út rúmlega 900 evrur fyrir nýjum gleraugum.

Hann þarf að leggja út fyrir meðferð hjá geðlækni en hann segir óvíst hvort eða hversu mikið hann geti fengið frá Sjúkratryggingum. Ferðatrygging nær ekki yfir stuld á fjármunum. Þá getur hann ekki sótt um miskabætur frá íslenska ríkinu þar sem árásin átti sér stað í öðru landi. Bætur frá franska ríkinu eru ekki inni í myndinni á meðan árásarmaðurinn er ófundinn.

„Ég er búinn að vera þjakaður af áhyggjum yfir þessu. Mánaðarskammtur af HIV-lyfjunum kostar rúmlega 100 þúsund krónur íslenskar. Það er hræðilegt að þurfa að standa í þessu.“

Mikil óvissa

Hann hefur ekki gefið upp von um að gerandinn finnist. Hann hefur fengið ómetanlegan stuðning frá unnustu sinni. „Allir dagar eru góðir hjá okkur. Þessi kona er kletturinn í lífi mínu. Hún er yndisleg að öllu leyti og styður mig af öllu hjarta.“

Tengdafjölskylda hans hefur sömuleiðis reynst honum vel. „Þau eru alveg yndislegt fólk, ofboðslega samheldin og náin fjölskylda. Mér finnst þetta öðruvísi hér en á Íslandi, það er eins fólkið hérna gefi sér meiri tíma til að hittast og vera saman.“

Sigurður er með lögheimili á Íslandi þar sem hann hefur starfað sem bifvélavirki. En núna er framtíðin óljós. Ætlunin er að fljúga heim í lok mánaðarins en tilhugsunin um að halda áfram með daglegt líf á Íslandi er honum fjarlæg. Á Íslandi hefur hann takmarkað stuðningsnet.

„Við erum búin að vera saman í þrjú ár og þetta hefur verið stöðugt flakk á milli Íslands og Frakklands. Ég er alltaf að færast nær og nær þeirri hugmynd að flytja alfarið út, og kanski lætur maður bara verða af því á endanum.“

Líkt og áður segir stendur Sigurður frammi fyrir miklum kostnaði í tengslum við læknis- og lyfjameðferð. Þeir sem vilja styðja við bakið á Sigurði er bent á eftirfarandi reikning: Reikningsnúmer 0331-26-6139. Kenntitala 160858-6139. Margt smátt gerir eitt stórt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Segir að Kristrún hafi tekið Stefán Einar í kennslustund

Segir að Kristrún hafi tekið Stefán Einar í kennslustund
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Nú er komið að ögurstundu – Verða ESB og Úkraína ein gegn Rússlandi?

Nú er komið að ögurstundu – Verða ESB og Úkraína ein gegn Rússlandi?
Fréttir
Í gær

Birtir dæmi úr kommentakerfinu og spyr hvað þurfi til að fólk fatti spillinguna

Birtir dæmi úr kommentakerfinu og spyr hvað þurfi til að fólk fatti spillinguna
Fréttir
Í gær

Spyr hvort „Barna­verndarpáfinn“ sé hafður í felum – „Meðan kjallarinn morknar verður íburðurinn alltaf meiri í risinu“

Spyr hvort „Barna­verndarpáfinn“ sé hafður í felum – „Meðan kjallarinn morknar verður íburðurinn alltaf meiri í risinu“