Tekjublað DV kemur út miðvikudaginn 21. ágúst. Þar kennir ýmissa grasa, líkt og síðustu ár, en upplýsingarnar byggja á greiddu útsvari samkvæmt álagningarskrám Ríkisskattstjóra (RSK).
Af þeim Íslendingum sem DV skoðaði greitt útsvar hjá trónir Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, á toppnum með rúmar 29 milljónir króna í mánaðarlaun. Fast á hæla hans fylgir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, með tæplega 28 milljónir króna á mánuði.**
Illugi Gunnarsson er með rúmar 1,4 milljónir króna á mánuði en hann hefur setið í ýmsum nefndum síðan hann hætti á þingi árið 2017. Á eftir honum kemur Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, með rúmar tíu milljónir króna.
Ýmsir forstjórar og athafnamenn eru einnig á lista meðal þeirra hæstlaunuðu, til að mynda Arnar Scheving Thorsteinsson, stjórnarmaður í Kaupþingi, Ingólfur Hauksson, Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, og Egill Jónsson, framkvæmdastjóri hjá Össuri. Laun þeirra eru á milli sex og níu milljónir á mánuði.
Meðal íþróttafólks ber Hafþór Júlíus Björnsson höfuð og herðar yfir aðra með rúmar sex milljónir á mánuði, en hann er hvað þekktastur fyrir að leika Fjallið í Game of Thrones. Rétt fyrir neðan hann er Óskar Magnússon, rithöfundur og fyrrverandi útgefandi Árvakurs, einnig með rúmar sex milljónir í mánaðarlaun. Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, er síðan með 5,3 milljónir á mánuði.
Ein af skærustu stjörnum crossfit-heimsins, Katrín Tanja Davíðsdóttir, er með tæpar fjórar og hálfa milljón á mánuði og grínarinn Steindi Jr. er með tæpar tvær milljónir.
Allt um laun landsþekktra Íslendinga í Tekjublaði DV sem kemur út miðvikudaginn 21. ágúst. Tryggið ykkur eintak.
* Uppfært
Upprunalega stóð að blaðið kæmi út á morgun, þriðjudaginn 20. ágúst. Hið rétta er að það kemur út miðvikudaginn 21. ágúst.
** Uppfært
Borist hefur athugasemd frá Íslenskri erfðagreiningu vegna áætlaðra tekna Kára Stefánssonar, forstjóra fyrirtækisins:
Í tekjublöðum DV og Frjálsrar verslunar sem koma út í dag er því haldið fram að Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar sé með 27 milljónir í mánaðartekjur. Að mati Íslenskrar erfðagreiningar er mikilvægt að það komi fram í þessu sambandi að laun Kára Stefánssonar hjá Íslenskri erfðagreiningu eru 7,5 milljónir á mánuði. Mismunurinn stafar að mestu af því að Kári Stefánsson ákvað leysa til sín sparnað úr séreignasjóði lífeyrissjóðs í fyrra. Sú eingreiðsla bætist við skattstofninn og þannig verður þessi misskilningur til. Það er mælst til þess að þessi athugasemd komi fram við fréttaflutning af málinu.
*** Uppfært
Í upprunalegu fréttinni var því haldið fram að Illugi Gunnarsson væri með fjórtán milljónir króna á mánuði. Hið rétta er að hann er með 1,4 milljónir króna á mánuði. Um er að ræða mannleg mistök við vinnslu talna og beðist er afsökunar á því.