„Sú staðreynd að lén nokkurt sem hýsir heimasíðu sem er notuð til þess að kanna hug flokksbundinna Sjálfstæðismanna til þriðja orkupakkans var skráð á tölvupóstfang tengt Íslenskri erfðagreiningu var slys.“
Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í stuttri grein sem birt er í Fréttablaðinu í dag. Þar segir hann að Íslensk erfðagreining taki ekki afstöðu til pólitískra deilumála í íslensku samfélagi.
Heimasíðan sem um ræðir heitir XD5000 en maðurinn á bak við hana er Jón Kári Jónsson sem starfar hjá Íslenskri erfðagreiningu. Notaði hann tölvupóstfang sitt hjá fyrirtækinu þegar hann stofnaði umrædda síðu og má finna það meðal annars í skráningarskírteini á vef ISNIC.
„Póstfangið tilheyrir starfsmanni fyrirtækisins sem áttaði sig ekki á því að það væri rangt að tengja það heimasíðunni,“ segir Kári sem bendir á að fyrirtækið taki ekki afstöðu í pólitískum deilumálum, þó það hafi vissulega lagt sitt af mörkum til að hlúa að íslensku samfélagi, til dæmis með veglegum gjöfum til Landspítalans.
„Það sem ruglaði menn sjálfsagt í ríminu er að íslensk erfðagreining hefur lánað Orkunni okkar sem eru samtök andstæðinga orkupakkans sal til að funda í. Í því felst heldur enginn stuðningur við málstað. Fyrirtækið hefur lánað sama sal ókeypis fólki úr öllum stjórnmálaflokkum sem hafa beðið um hann sem og alls konar félagssamtökum. Með því hefur fyrirtækið lagt af mörkum til fjölbreytni í íslensku samfélagi. Ég vil líka leggja áherslu á að í tölvupóstfanginu endurspeglast ekki persónuleg afstaða mín í þessu máli enda væri það skringilegt af gömlum sósíalista að tjá hana með því að reyna að hafa áhrif á hegðun manna meðan þeir eru í Sjálfstæðisflokknum,“ segir Kári sem endar greinina á nokkuð föstu skoti á Sjálfstæðismenn.
„Ég væri hins vegar reiðubúinn til þess að leggja mikið á mig til þess að þróa lyf sem hjálpaði mönnum að ná áttum og ganga úr flokknum.“