fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Fréttir

„Ég skammast mín ekkert fyrir son minn. Ég skammast mín fyrir samfélagið og kerfið“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 11. ágúst 2019 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Albert Ísleifsson fæddist þann 26. september 1991 klukkan hálf tvö. Hann elskaði að borða plokkfisk, sinna hestunum sínum, klappa kettinum sínum Jökli. Hann var skapandi og samdi bæði texta og málaði. Aðstandendur lýsa honum sem hjartahlýjum, hjálpfúsum góðum dreng. Hann glímdi þó líka við andleg veikindi og fíknisjúkdóm og eftir langa og stranga baráttu á grýttri lífsleið gafst hann upp og ákvað að deyja.

Saga Alberts er saga ungs manns sem kerfið brást. Manns sem eftir langa og harða baráttu var loksins að koma undir sig fótunum en fékk á sig brotsjó þegar hann reyndi að sækja sér hjálp. Saga Alberts er saga margra, ungra einstaklinga sem láta lífið langt fyrir aldur fram. Manna sem falla milli þilja í kerfinu og fá enga hjálp.

Blaðamaður settist niður með Sigrúnu Ólöfu Sigurðardóttur, móður Alberts, sem deilir sögu hans til að benda á brotalöm í kerfinu þegar kemur að einstaklingum með tvíþættan vanda.

Æskan: Albert var fjörugur og glaðlyndur drengur.

Fjörugur ungur drengur

Albert Ísleifsson var listrænn og fjölhæfur.

Albert bjó fyrstu ár lífs síns í Mosfellsbæ, hann átti tvo eldri bræður og einn yngri. Hann lagði stund á knattspyrnu með Aftureldingu og stóð sig afburðavel. Móður hans er minnisstætt þegar hún fylgdi honum til Vestmannaeyja á mót þar sem hann stóð sig einstaklega vel.

„Það var rosalega gaman að sitja þarna í áhorfendaskaranum og hlusta á aðra tala um Albert, hvað hann væri efnilegur. Ég gat ekki setið á mér og sagði: „Þið eruð að tala um hann son minn, hann er ættaður héðan úr Eyjum,“ segir Sigrún.

Þegar Albert var níu ára gamall fluttist fjölskyldan til Selfoss og gekk Albert framan af vel í nýjum skóla. Hann var með athyglisbrest og ofvirkni en varð svo lánsamur að fá góðan kennara sem náði vel til hans. Það var svo eftir að sá kennari hætti sem halla fór undan fæti. Það fór svo að í níunda bekk var Albert vikið úr skóla vegna hegðunarvandamála.

Skólakerfið brást

„Það var einhver galsi í honum, en ég hef heyrt frá mörgum að hann hafi ekki verið sá versti innan veggja skólans,“ segir Sigrún. Þarna byrjaði kerfið að bregðast Albert. „Þegar honum var vikið úr skóla þá fékk hann þarna 7–10 daga þar sem hann átti að vera heima. Þarna var hann ekki orðinn 16 ára gamall. Hann var farið að hlakka til að mæta aftur að þessum tíma liðnum þegar hringt var í hann og félagsmálayfirvöld á Selfossi sögðu honum að hans nærveru í skólanum væri ekki óskað eftir þann tíma.“ Sigrún veitti því eftirtekt þegar símtalið barst, enda heyrði hún strax að þarna var sonur hennar greinilega ekki að ræða við einhvern vina sinna. „Svo kom hann fram og ég sá bara sorgarsvip á honum. Þá var ekki ætlast til þess að hann kæmi aftur í 10. bekk. Þarna var komið svona fram við hann, skólakerfið sagði bara: nei, takk þú kemur ekki aftur hingað.“

Albert bauðst að fara í sérstakan sveitaskóla, en honum þótti það afar lítillækkandi. Hann reyndi þó að sýna lit, mætti í einhver skipti, en gafst að lokum upp, niðurbrotinn og upplifði höfnun frá skólakerfinu.

Sambandsslit reyndust erfið

Á þessum tíma var Albert í sambandi við stúlku og ákaflega ástfanginn. Hann fékk leyfi til að fara í Fjölbrautaskóla Suðurlands og fór þangað með kærustu sinni. „Svo slitnaði upp úr sambandinu. Þá sá ég bara strákinn minn hverfa. Hann var mjög sár, reiður og svekktur. Þarna upplifði hann aðra höfnun,“ segir Sigrún. Þegar þarna var komið leið Albert illa á sálinni og leitaði leiða til að deyfa sársaukann. Þá leið fann hann í fíkniefnum. „Ég fann það bara, þarna átti ég orðið erfitt með að tala við hann og nálgast hann á margan máta, og þannig var það meira og minna í mörg mörg ár þangað til nú í sumar. Eftir þessi sambandsslit. Þá gerðist eitthvað innra með honum, ég fann það eiginlega um leið. Og þetta varð leið til að deyfa sársaukann. Það var bara kannabis, til að byrja með.“

Fíknin tekur völdin

Svo fór að fíknin tók öll völd í lífi Alberts, þó svo að rofað hafi til einstaka sinnum. Þannig liðu árin. Hann átti nokkur góð skeið á þeim árum, meðal annars eftir að hann leitaði til Götusmiðjunnar og svo árið 2016 þegar hann fór í langtímameðferð í Krýsuvík.

Þar segir Sigrún að hann hafi blómstrað. „Hann var svo fallegur. Heilbrigður. Hann var þar í sex mánuði. Hann fékk stundum helgarpassa og við keyrðum fram og til baka; og skjótast með hann hingað og þangað.“

Fíknin reyndist þó alltaf ná yfirhöndinni aftur. Fíkniefnaheimurinn er harður og þeir sem glíma við fíknisjúkdóma komast gjarnan í kast við lögin með einum eða öðrum hætti. Albert var þar engin undantekning og þurfti að sitja af sér fangelsisdóma.

Þegar Albert átti góð tímabil gegndi hann ýmsum störfum, yfirleitt sem verkamaður. Hann vann við virkjanir, smíðaði palla og lagði hellur svo eitthvað sé nefnt. „Undir flestum kringumstæðum þá eru þessir ungu menn, af góðum heimilum, að ná sér á strik svona að nálgast þrítugt. Ég eiginlega þorði ekkert að láta mig dreyma um það,“ segir Sigrún.

Batinn þrautin þyngri

Albert varð edrú snemma á þessu ári. Hann kom sér fyrir í leiguherbergi og fékk fjárstuðning frá Félagsþjónustunni. Hann var duglegur að fara í ræktina, átti í góðum samskiptum við sína nánustu og hlakkaði til

Listin: Málverk eftir Albert.

framtíðarinnar í edrúmennskunni. Hann var þakklátur fyrir að hafa fengið annað tækifæri og ætlaði sér að nýta það. Hann mætti reglulega á AA-fundi, stundum tvisvar á dag og leit í kringum sig eftir vinnu. En enga fékk hann vinnuna. Engin vildi ráða óvirkan fíkil.

Albert dó þó ekki ráðalaus. „Hann sagði mér svo frá því núna í sumar að hann langaði svo að fara í endurhæfingu hjá Virk. Hann var mjög spenntur fyrir því og sótti um af fullum áhuga. Ég sagði  honum frá því að þarna hefði hann aðgang að sálfræðingum og þess háttar,“ segir Sigrún klökk: „Hann fékk neitun. Neitun!“ Sigrún skildi ekki af hverju sonur hennar fékk neitun og hafði samband við sérfræðing hjá Virk. Sérfræðingurinn hvatti Albert til að sækja aftur um, því umsókn hans hlyti að hafa misfarist. En aftur fékk Albert neitun.

Glæpur og refsing

„Svo á svipuðum tíma kom hann til  mín og sagði við mig: „Mamma ég á að fara fyrir dóm og ég á að sitja inni. Ég fer aldrei aftur þarna inn“.“ Albert átti að mæta fyrir dóm núna í haust. Hann vissi ekki fyrir hvað hann var ákærður og var mjög kvíðinn. Hann hafði áður setið inni á Hólmsheiði og sagði móður sinni að það væri mikið um fíkniefnaneyslu í fangelsinu. Brotið reyndist vera akstur án ökuleyfis, því komst móður hans að eftir að hún hringdi í verjanda hans. „Hvernig er hægt, þegar fólk er loksins farið að standa sig, að kippa svona undan þeim fótunum.“ Brotið hafði átt sér stað áður en Albert varð edrú og því ljóst að það hafði töluverður tími liðið frá brotinu og þar til ákæran var gefin út. „Hann átti bara að fara að detta þarna inn út af þessum tittlingaskít.“ Sigrún segir að kerfið hafi þarna unnið gegn bata hans, í staðinn fyrir að hjálpa honum áfram var honum hrint afturábak.

„Af hverju er þetta látið ganga svona, þetta gengur ekki,“ segir Sigrún og vísar til þess hversu langan tíma það tekur fyrir íslenska réttarkerfið að dæma fyrir brot. En það er sérstaklega íþyngjandi þegar brotin eru smávægileg, framin þegar fólk er undir áhrifum vímuefna, en svo er dæmt þegar fólk er komið í bata, og jafnvel búið að vera lengi í bata. Ekki er þar þó eina brotalömin heldur geta dæmdir einstaklingar þurft að bíða lengi eftir að vera boðaðir í afplánun „Fólk er jafnvel búið að stofna fjölskyldur og eignast börn þegar á að kippa þeim inn. Svo eru hvítflibbaglæpamenn hér níðandi fólk og gera grín að fötluðum, bara ógeðslegt pakk sem kemst upp með allt. Þetta er  bara svo heimskulegt. Ekkert breytist, aldrei. Alveg sama hvað maður talar mikið um þetta.“

Uppgjöf

„Eftir svona tíma, edrúmennsku, þá kemur niðursveifla. Hjá öllum fíklum. Hann nefndi þetta við mig og við töluðum einmitt um það. Hann fór að hafa samband niður á geðdeild og svo var hann kallaður í viðtal.  Hann pakkaði niður fötum til að taka með sér í þeirri von að hann yrði lagður inn. Það kom einhver kraftur í hann,“ segir Sigrún. Þarna leið Albert illa. Hann var atvinnulaus og fannst hann vera kominn langt á eftir á í lífinu. Hann dreymdi um vinnu, sína eigin íbúð, bíl og fjölskyldu. Einstaklingar með ADHD-röskun eiga oft erfitt með að sýna biðlund. Albert gat því varla beðið eftir að byrja framtíðina. Í staðinn hafði hann fengið afsvar frá Virk, og átti yfir höfði sér afplánun. Hann gerði þó eina tilraun enn og fór vongóður upp á geðdeild.

„Svo kom hann til baka með lyf. Hafði bara fengið lyfseðil. Hann sagði bara: „Ég er fíkill, ég get ekkert gert við lyf“. Hann þurfti innlögn og hann þurfti meðferð.“ Geðdeild taldi  hann ekki nógu veikan til að leggjast inn. Þarna var Albert þó farinn að glíma við sjálfsvígshugsanir og hafði greint móður sinni og vinum frá því. „Hann sagði: „Mamma ég er í sjálfsvígshugsunum en ég vil ekki fara. Ég er hræddur við þetta“.“ Þó svo að Sigrún viti ekki fyrir víst hvað Albert og starfsmönnum geðdeildar fór á milli er hún þess fullviss að hann hafi greint þeim frá sjálfskaðandi hugsunum sínum: „Ég tel það öruggt.“

Um tveimur vikum eftir að honum var vísað burt af geðdeildinni, fannst Albert látinn heima hjá kunningja sínum.

„Þeir byrja að brjóta hann niður í skólakerfinu. Hann fær nei frá Virk og nei frá geðdeild og enginn bendir honum á nein úrræði sem standa honum opin. Auðvitað gafst hann upp.“

Vildi ekki falla: Þegar halla fór undan fæti fékk Albert enga aðstoð.

Albert deyr

Sunnudaginn 7. júlí keyrði Albert til Reykjavíkur og fór til kunningja síns. „Hann fór til manns sem ég vil ekkert vera að nefna á nafn. En sá maður vissi vel að Albert hafði verið edrú til lengri tíma. Albert var þarna mjög neikvæður og leið mjög illa. Hann sagði við vin sinn: „Mig langar að deyja, langar þig ekkert stundum að bara fara?“ Það endaði með því að hann féll. Fékk sér eitthvað og það fór svo að þessi vinur hans fór með hann upp í Frú Ragnheiði því hann hafði áhyggjur af Albert.“

Þar hitti Albert fyrir starfsmann Frú Ragnheiðar og var ástand hans ekki gott. „Hún gerði alls konar próf á honum, lífsmörk og alls konar læknisfræðileg atriði sem ég get ekki munað. Hún sagði að það væri ekki að ræða það að hann hefði dáið af því sem hann var vímaður af þá, hann hefði fengið sér annan skammt til að fara. Þau vildu senda hann upp á bráðamóttöku en hann brotnaði þá niður og sagði: „Ég vil bara fara, ég vil bara deyja“.“

Sigrún hafði samband við starfsmann Frú Ragnheiðar sem sagði vanlíðan Alberts hafa verið mjög mikla þetta kvöld. „Hún sagði við mig að hann hefði bara verið yndislegur, góður og almennilegur við hana og hann hefði leitað í fangið á henni og hún hefði knúsað hann og tekið utan um hann og talað hlýlega til hans. Og hann bara grét. Þarna virkilega þurfti hann hjálpina, og allar vikurnar þar á undan. Hugsið ykkur ef hann hefði komist að hjá Virk eða ef hann hefði komist í innlögn.“

Í kjölfarið sneri Albert aftur til vinar síns. Þar fannst hann látinn aðfaranótt þriðjudagsins 9. júlí. Dánarorsök var ofneysla vímuefna, en Sigrún telur öruggt að Albert hafi viljandi tekið of stóran skammt. „Hann fór af því að hann ákvað að fara. Hann gafst upp. Það er ekki það að hann hafi dottið í það út af fíkninni, hann tók meðvitaða ákvörðun því hann hafði ákveðið að fara.“

Minning um góðan dreng: Albert kúrir með kettinum Jökli.

Eftir situr sársaukinn

„Það var svo margt líkt með okkur,“ segir Sigrún. „Við erum bæði fædd í september, ég 23. og hann 26. Við erum bæði með ADHD, margt það sem öðru okkar fannst gott fannst hinu líka gott og svo höfðum við bæði unun af því að mála. Albert þrætti fyrir þetta á árum áður, en í seinni tíð viðurkenndi hann að við værum mjög lík. Hann fór jafnvel að monta sig af mér þegar við hittum kunningja hans og tilkynnti sérstaklega: „þetta er mamma mín“.“

Áður en Sigrún frétti að sonur hennar væri látinn birtist hann henni í draumi. „Ég vaknaði um sex leytið um morguninn og mig hafði dreymt hann. Þar sá ég hann í draumi ganga í burtu, brosandi sínu fallegasta, eins og honum liði betur. Ég vaknaði og hugsaði „Á ég að hringja í hann?“.“  Sigrún taldi þetta þó bara móðursýki í sér og hristi þetta af sér. Um daginn virtist hún þó stöðugt vera minnt á Albert. Hún rótaði í skúffu og dró þá óvart upp mynd af honum og rakst svo á lyklakippu með nafni hans á. Síðan bárust sorgartíðindin.

Eftir situr óbærilegur sársauki, enda martröð flestra mæðra að sjá á eftir börnum sínum í gröfina. En eftir situr líka reiðin. Reiðin yfir að Albert hafi alls staðar komið að lokuðum dyrum þegar hann þurfti á hjálp að halda. Að kerfið hafi brotið hann niður í stað þess að byggja hann upp. Að kerfið hafi brugðist Albert svo hryllilega að hann vildi ekki lifa lengur. Einstaklingar með tvíþættan vanda geta lent milli þilja í kerfinu. Meðferðaraðilar vísa á geðdeild, geðdeild vísar á meðferðaraðila. Enginn heldur utan um þessa einstaklinga. „Það er eiginlega ekkert hægt að segja í svona aðstæðum, en það er hægt að gera eitthvað svo þetta fari ekki og hverfi bara svona. Mér dettur ekki til hugar að kæfa þessa sögu niður. Ég vil segja hana og ég veit að Albert hefði viljað hjálpa og segja frá. Ég skammast mín ekkert fyrir son minn, ekki neitt. Ég skammast mín fyrir samfélagið og kerfið. Við erum að missa glæsilegt og gott fólk. Fólk eins og hann Albert.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dyraat hjá kennara endaði illa – Greip um úlnlið drengsins og dró hann að heimili sínu

Dyraat hjá kennara endaði illa – Greip um úlnlið drengsins og dró hann að heimili sínu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segja að herforingjar neiti að framfylgja fyrirmælum Pútíns

Segja að herforingjar neiti að framfylgja fyrirmælum Pútíns
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pútín gæti staðið frammi fyrir alvarlegum vanda á næsta ári

Pútín gæti staðið frammi fyrir alvarlegum vanda á næsta ári
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“