fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fréttir

Eggert Skúli og Jóhannes Gísli – Annar margdæmdur og hinn grunaður um fjársvik – Möguleg tengsl við Fréttatímann

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 10. ágúst 2019 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eggert Skúli Jóhannesson framkvæmdastjóri hefur ítrekað verið sakaður um misferli í viðskiptum. Á árinu 2016 hófst rannsókn á meintum svikum hans úr Ábyrgðarsjóði launa, hann stofnaði Hjálparsamtök bágstaddra barna sem sættu mikilli tortryggni og voru lögð niður eftir aðeins örfáa mánuði. Sonur hans, Jóhannes Gísli hefur ítrekað hlotið refsidóma fyrir fjársvik, síðast árið 2016 fyrir svik úr vefverslun ELKO.  Feðgarnir eru til umfjöllunar í nýju helgarblaði DV þar sem litið er á möguleg tengsl þeirra við Fréttatímann og fyrirtækið Ice X Investments. Einnig ræddi blaðamaður við annan sakborning í máli Ábyrgðasjóðs launa sem segist saklaus og sakar Eggert Skúla um skjalafals og misnotkun á kennitölu.

Þetta er hluti af stærri umfjöllun sem birtist í helgarblaði DV

Ábyrgðarsjóður launa

Grunur leikur á að umtalsvert fé hafi verið fengið af Ábyrgðarsjóði launa með sviksamlegum hætti. Upphaflega var greint frá málinu á árinu 2016 í Fréttatímanum sem þá var undir ritstjórn Þóru Tómasdóttur og Gunnars Smára Egilssonar. Enn hefur ekki verið gefin út ákæra í málinu sem heimildir DV herma að sé enn til rannsóknar hjá ákærusviði Héraðssaksóknara.

Fréttatíminn greindi frá því í ágúst 2016, í frétt sem bar fyrirsögnina „Eggert Skúli víða sakaður um svik“, að launakröfur frá tveimur fyrirtækjum tengdum Eggerti Skúla Jóhannessyni framkvæmdastjóra hefðu borist í Ábyrgðarsjóð launa. Hlutverk Ábyrgðarsjóðs launa er að bera ábyrgð á launum starfsmanna fyrirtækja sem fara í þrot. Starfsmenn gera kröfur í þrotabú vinnuveitanda síns og geta þá fengið launin sín greidd úr ábyrgðarsjóði.

Meintir starfsmenn fyrirtækja sem tengjast Eggerti Skúla fóru fram á háar greiðslur úr Ábyrgðarsjóði launa og áttu sumir hverjir að hafa starfað launalaust fyrir fyrirtækin í ríflega hálft ár. Heimildir DV herma að málið varði þónokkur þrotabú sem virðast tengjast sömu aðilum og að launakröfurnar hafi jafnvel komið frá meintum starfsmönnum sem aldrei hafi unnið fyrir þessi fyrirtæki og kannist jafnvel sjálfir ekki við að hafa lagt fram kröfurnar, eins og nánar verður vikið að hér síðar.

Blaðamaður hafði samband við embætti Héraðssaksóknara en var greint frá því að ekki væri hægt að veita svör við fyrirspurnum sökum þagnarskyldu, en samkvæmt áreiðanlegum heimildum DV hefur málið dregist mikið á langinn sökum þess að illa hefur gengið að ná í einn sakborning og ekki vitað með vissu hvar hann heldur sig.

Heimildarmaður DV, sem ekki vill láta nafns síns getið, segist í samtali við blaðamann telja Eggert siðblindan og telur ámælisvert hvað rannsókn málsins hefur dregist á langinn: „Þetta er náttúrulega sameiginlegur sjóður landsmanna. Núna þurfti virkilega á þessum sjóð að halda og þá er nú allt í lagi að það séu inni einhverjir aurar í þessum sjóði, að það séu ekki menn eins og Eggert sem eru búnir að tæma þetta.“

Hjálparsamtök bágstaddra barna

Árið 2016 stofnaði Eggert Skúli, ásamt fleirum, Hjálparsamtök bágstaddra barna. Hjálparsamtökin vöktu mikla athygli þar sem upprunalega var ómögulegt að rekja hverjir stæðu að baki söfnunum sem samtökin stóðu fyrir. Á daginn kom að Eggert stóð að baki samtökunum ásamt Gunnari Bender veiðimanni sem nokkrum mánuðum fyrr hafði lagt fram háar kröfur í Ábyrgðarsjóð launa vegna meintra starfa sinna fyrir fyrirtæki Eggerts. Launakröfum Gunnars var hafnað eftir að grunsemdir vöknuðu um að þeir félagar væru í slagtogi að reyna að svíkja fé úr sjóðnum, en eins og áður hefur komið fram eru meint svik Eggerts enn til rannsóknar hjá Héraðssaksóknara. Söfnunin þótti það vafasöm að lögregla tók málið til rannsóknar, en ekki hafði verið aflað til hennar tilskilinna leyfa samkvæmt lögum.

Í kjölfar umfjöllunar Fréttatímans var samtökunum lokað. Á heimasíðu samtakanna var greint frá því að þeim hefði formlega verið slitið, reikningum lokað, reikningar greiddir og eftirstöðvum, 68.500 krónum hafi verið ráðstafað til Mæðrastyrksnefndar.

Jóhannes Gísli Eggertsson

Sonur Eggerts Skúla, Jóhannes Gísli Eggertsson, virðist tengjast mörgum af sömum fyrirtækjunum og faðir hans. Hann hefur ítrekað komist í kast við lögin og hlotið dóma fyrir fjársvik.

Í nóvember 2016 var Jóhannes Gísli Eggertsson dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir umfangsmikil fjársvik úr vefverslun ELKO. Í dómnum kemur fram að Jóhannes Gísli hafi í fjögur skipti, á tímabilinu 17.–21. febrúar 2016 pantað vörur, fyrir um eina milljón króna, meðal annars Samsung-snjallsjónvarp og iMac-fartölvu, og síðan sent falsaða greiðslukvittun í tölvupósti. Hann hafi síðan nálgast vörurnar í verslun ELKO daginn eftir. Í tvö skipti reyndi Jóhannes Gísli sama leik og freistaði þess að fá vörurnar sendar í pósti auk þess sem hann sendi annan einstakling til þess að sækja vörurnar. Þær tilraunir misheppnuðust.

Þetta var ekki fyrsta brot hans, hann hafði áður hlotið þrjá dóma fyrir auðgunarbrot. Hann var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára í maí 2012. Þá var hann dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði bundna skilorði, í janúar 2014 fyrir margvísleg brot, meðal annars fyrir að selja sama símann þrisvar sinnum á bland.is. Síðar sama ár var hann dæmdur í eins mánaða fangelsi fyrir fjársvik, skilorðsbundið til tveggja ára.

Í viðtali við DV í mars 2015, áður en til fjársvika hans úr vefverslun ELKO kom, sagði Jóhannes Gísli: „Fortíðin mun alltaf elta mig en ég þarf bara að fá tíma til að sýna fólki hvernig ég er orðinn í dag. Ávinna mér traust.“ Hann hefur stofnað fjölmargar vefsíður þar sem boðið er upp á tölvuviðgerðir, stefnumót, ólöglegar útsendingar á enska boltanum, fréttir af frægu fólki og hópkaupasíðu.

Sjá einnig: Jóalífið – Litríkur feril Jóhannesar Eggertssonar

Fréttatíminn

Fréttatíminn  var áður í eigu útgáfufélagsins Morgundags sem var tekið til gjaldþrotaskipta sumarið 2017.  Skömmu síðar birtist Fréttatíminn aftur á netinu í breyttri mynd, en mikil leynd hvíldi yfir því hver stæði þar að baki. DV greindi frá því í janúar 2018 að Jóhannes Gísli hefði fest kaup á léninu. Í kjölfar fyrirspurna DV var opinberað að Fréttatíminn væri í eigu Guðlaugar Hermannssonar fiskkaupanda sem þvertók fyrir aðkomu Jóhannesar að fjölmiðlinum.

Jóhannes hafði þó skrifað frétt á vef Fréttatímans þar sem hann birti myndband þar sem greina mátti rödd hans og þar sem hann titlaði sig sem blaðamann Fréttatímans. Guðlaugur hafði því sagt ósatt. Jóhannes sjálfur þvertók fyrir aðkomu sína að miðlinum í fyrstu en viðurkenndi síðan að starfa þar. Hann hefði óttast að verða dæmdur vegna fortíðar sinnar og kvaðst dreyma um að vera blaðamaður. Jóhannes Gísli neitar allri aðkomu sinni að Fréttatímanum í dag.

Sjá einnig: Nýr ritstjóri Fréttatímans segir ósatt

Á huldu er hverjir skrifa fréttir á vef miðilsins en við rannsókn blaðamanns kom í ljós áhugaverð tenging við Eggert Skúla. Þegar leitað er eftir nafni Eggerts á netinu má sjá fjölda frétta af vef Fréttatímans þar finna má undirskriftina :Eggert Skúli Jóhannesson eða „Uppsetning: Eggert Skúli Jóhannesson“. Þessi undirskrift er þó hulin og sést aðeins ef textinn er valinn sérstaklega eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Hér eru upplýsingar um lénið frettatiminn.is þar sem Ice X investments kemur við sögu

Fréttatíminn hefur einnig bæði skrifað grein og birt auglýsingu fyrir Alheim vefsíðuhönnun en lénið alheimur.is er skráð á fyrirtækið Ice X Investments ehf. sem samkvæmt fyrirtækjaskrá er auglýsingastofa. Ice X Investments á fjöldann allan af lénum. Meðal þeirra léna er icelandicinfo.is. Tölvupóstfang tengiliðar er sparmye@icetraveler.is en Sparmye AS er fyrirtæki Eggerts Skúla í Noregi sem hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Frá því að Fréttatíminn fór aftur í loftið hefur einnig birst viðtal við Eggert Skúla og myndir af honum frá viðburðum Miðflokksins svo eitthvað sé nefnt.

Ice X Investments

Sonur Eggerts Skúla, Hörður, er einn í stjórn Ice X Investments í dag. En samkvæmt samþykkt félagsins frá mars 2018 var barnsmóðir Jóhannesar Gísla formaður stjórnar þar til nýlega. Athygli vekur að bæði barnsmóðirin og Hörður eru skráð með sama netfang á skjölunum, netfang sem tengist veiði, en Eggert Skúli er mikill veiðimaður. Eggert Skúli virðist einnig eiga Pintrest-síðu þar sem hann má finna möppu sem heitir Ice X Investments. Hvorki náðist í Hörð né barnsmóður Jóhannesar Gísla við vinnslu fréttarinnar.

Skjáskot af vef Frettatímans frá maí 2018

Einnig vekur athygli að Ice X Investments, skráð sem auglýsingastofa í fyrirtækjaskrá, og eigandi lénsins alheimur.is, sem hefur auglýst vefsíðugerð, er ekki með vefsíðu. Ef farið er inn á slóðina ixi.is birtist aðeins texti sem vísar gestum á að hafa samband með tölvupósti. Ice X Investments hefur jafnframt leyfi til að starfa sem upplýsingamiðstöð samkvæmt lögum um Ferðamálastofu, og samkvæmt stofnskjölum er tilgangur félagsins: Markaðsetning og sala fyrir fyrirtæki ásamt inn og útflutningi. Rekstur fasteigna og lánastarfsemi.

Þetta er að eina sem er að finna á vefsíðu Ice X Investments ehf

 

Undarlegir   greiðsluseðlar

Nokkrir einstaklingar greindu frá því á Facebook-síðunni Bakland ferðaþjónustunnar í september 2018 að hafa fengið reikninga frá Ice X Investments inn á heimabanka sinn án þess að hafa átt í viðskiptum við fyrirtækið.

„Kannast forsvarsmenn fyrirtækja við hér inná að hafa fengið reikninga í heimabankann frá Ice X Investments ehf. án þess að fá nokkra skýringu fyrir hvað er ætlast til að sé greitt. Engin leið að ná heldur á þessa aðila svara engum síma og ekkert email ásamt því að skráður stjórnarformaður segist ekki vera stjórnarformaður. Veit einhver hvernig maður snýr sér í þessu þegar bankinn segist ekkert geta gert?“

Þónokkrir aðrir könnuðust við að hafa fengið slíka kröfu og áttu erfitt með að fá svör frá meintum fyrirsvarsmönnum fyrirtækisins. Samkvæmt skráningu þá var það barnsmóðir Jóhannesar Gísla sem var í forsvari, en einn einstaklingur greindi frá því á þræðinum að í samtali við hana kannaðist hún ekki við að vera í forsvari fyrir fyrirtækið. Eftir að hafa fengið samband við hana fékk viðkomandi þó símtal frá starfsmanni Ice X Investments sem greindi frá því að fyrirtækið hefði áður heitið Íslensk skráning og héti í dag Icelandicinfo. Lénið icelandicinfo.is er skráð á Ice X investments ehf.

Skjáskot Instagram

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu