„Hvaða bull er þetta, ég kann ekki við að vera kallaður síbrotamaður. Ég átti í erfiðleikum fyrir mörgum árum en hef ekki brotið af mér í fjölda ára og þetta með að borga ekki hótelið er líka þvæla,“ sagði Ingólfur Steinar Ingólfsson í óvæntu samtali við blaðamann DV á miðvikudagskvöld, beint úr varðhaldi sínu í Kambódíu. Ingólfur var þar að mótmæla fréttaflutningi DV af máli sínu frá því 22. júlí. Það fór þó býsna vel á með Ingólfi og blaðamanni og áttu þeir í textaspjalli í dálitla stund.
Fyrirsögn fréttar DV um málið var „Íslenskur síbrotamaður handtekinn í Kambódíu: Ingólfur Steinar í haldi lögreglu.“ Er Ingólfur mjög ósáttur við að vera kallaður síbrotamaður enda séu flest hans afbrot bernskubrek. Reyndar var Ingólfur dæmdur fyrir akstur undir áhrifum kannabis árið 2017. Næsta brot þar áður er orðið sjö ára gamalt, eða frá árinu 2012. En það var fyrir árás á leigubílstjóra. Önnur brot eru mun eldri og Ingólfur leggur áherslu á að hann hafi greitt skuld sína við samfélagið og sé ekki brotamaður í dag.
Ingólfur var handtekinn þar sem vegabréfsáritunin hans til Kambódíu rann út. Það hafði þær afleiðingar að hann gat ekki tékkað sig út af hótelinu né greitt reikninginn þegar að því kom, að hans sögn.
„Ég var þarna í þrjár vikur og samdi um að borga allt saman þegar ég myndi tékka út. En ég var handtekinn áður. Þess vegna var reikningurinn ekki greiddur. Ég hef búið á hótelum í langan tíma og aldrei fengið kvörtun um eitt né neitt. Alltaf gert allt upp,“ segir Ingólfur.
„Ég lenti í þessu veseni af því vegabréfið mitt hvarf. Fékk svo neyðarpassa frá sendiráðinu í Bejing í gegnum sænska sendiráðið í Phnom Penh,“ segir Ingólfur en blaðamaður áttar sig ekki fyllilega á málavöxtum við þessar upplýsingar og Ingólfur hefur takmarkað svigrúm til að skýra málið út.
En hann útskýrir að hann eigi ekki von á neinum dómi. Hann sé einungis í sérstöku varðhaldi ætlað þeim sem dveljast ólöglega í landinu. Hann verði sendur úr landi við fyrsta tækifæri en mál hans er í vinnslu hjá sænska sendiráðinu. Hann má hins vegar ekki koma aftur til Kambódíu næstu þrjú árin.
Ingólfur er ekki ósáttur við vistina í varðhaldinu. Hann segist hafa mútað yfirmanni á staðnum til að fá að hafa símann hjá sér yfir nóttina og þess vegna gat hann sent skilaboð á blaðamann DV og hafið spjallið. Hann segir ekki verra að hafa dálítil auraráð, það hjálpi upp á samskipti við fangaverði og samfanga. Ingólfur er raunar öryrki en orörkubætur geta dugað þokkalega í löndum þar sem verðlag er miklu lægra en hér.
Ingólfur sendi þessar tvær dökku myndir sem fylgja fréttinni en þriðja myndin sýnir hann við hlið lögreglamanns eftir að hann var handtekinn. Hinar eru úr varðhaldsklefanum. Það er nokkuð þröngt um mannskapinn en fjórir eru saman í klefa. Þeir fá tvær máltíðir á dag sem Ingólfi þykir nokkuð lítið en þó ásættanlegt. Segir hann að í heildina sé komið vel fram við sig þarna.
Ingólfur hefur undanfarin ár búið á Spáni en hann sagði upp leiguhúsnæði þar áður en hann hélt í langa reisu til Asíu. „Ég sagði upp leigunni og fór að ferðast,“ segir hann. Að öllum líkindum verður hann því sendur heim til Íslands. Hann harmar það ekki:
„Á ég þrjú börn á Íslandi, það elsta 16 ára. Þrjú börn með þremur konum. Ég hlakka mikið til að hitta þau, get varla beðið eftir því,“ segir hann en sjálfur er Ingólfur 35 ára.
Ingólfur er bara sáttur við lífið og tilveruna þrátt fyrir varðhaldið í Kambódíu. „Já, blessaður vertu, ég gæti haft það mun verra. Það er nauðsynlegt að vera jákvæður, horfa á björtu hliðarnar og tækla það sem lífið hendir í mann.“