Íslenskur karlmaður á sextugsaldri lést í flugslysi á Haukadalsflugvelli í gær. Flugvélin var heimasmíðuð og tveggja sæta. Talið er að maðurinn hafi látist þegar flugvélin skall til jarðar í flugtaki.
Vísir greinir frá þessu. Þar kemur enn fremur fram að á fimmta tug manna hafi orðið vitni að slysinu. Áfallateymi Rauða krossins á Suðurlandi var kallað til. Slysið átti sér stað stuttu eftir tvö í gær og var lögregla kölluð á vettvang undir eins. Maður var úrskurðaður látinn á slysstað.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa segir að rannsókn sé komin vel á veg. Rannsókn á vettvangi lauk seint í nótt. Annað slys átti sér stað á sama flugvelli á dögunum en þá slasaðist þó enginn. Ágúst Guðmundsson, stjórnarmaður í Flugmálafélaginu, segir í samtali við Vísi að slysin tengist flugvellinum ekkert.
„Það að það skuli vera tvisvar á sama vellinum hefur ekkert með völlinn að gera, völlurinn er fínn og mikið notaður af einkaflugmönnum. Þannig að það er algjör tilviljun að þetta gerist á sama flugvellinum. Ég hef oft flogið þarna og lent. Þetta er bara flugvöllur sem er í einkaeigu, mjög vel við haldið og mjög góður völlur,“ segir Ágúst.