fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fréttir

Beitt grófu áreiti af hálfu íslensks gestgjafa á Airbnb: „Ég sagði honum stöðugt að hætta“

Auður Ösp
Sunnudaginn 28. júlí 2019 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hin bandaríska Alison Cebulla var beitt grófu kynferðislegu áreiti af hálfu íslensks gestgjafa á Airbnb þegar hún heimsótti landið árið 2016. Hún segir manninn hafa áreitt hana linnulaust eftir að hún sneri heim og að lokum þurfti hún að skipta um símanúmer.

Gestgjafar á Airbnb á Íslandi gangast ekki undir sérstaka bakgrunnsathugun við skráningu líkt og í Bandaríkjunum. Undanfarin ár hafa þónokkur mál komið upp erlendis þar sem vaknað hafa upp spurningar um lagalega ábyrgð Airbnb þegar kemur að öryggi gesta og gestgjafa.

Spennt fyrir Íslandi

Alison er búsett í Kaliforníu þar sem hún starfar sem heilsuráðgjafi en hún er einnig með háskólagráðu í umhverfis- og auðlindafræðum. Hún hefur skrifað pistla fyrir Huffington Post og haldið fyrirlestra á ráðstefnum í Evrópu og Bandaríkjunum.

„Ég var lengi búin að láta mig dreyma um að koma til Íslands. Það er búið að markaðssetja Ísland grimmt í Bandaríkjunum undanfarin ár, sem draumaáfangastað ferðamanna, og líka sem femínistaparadís,“ segir Alison í samtali við blaðamann DV. Í maí 2016 sótti hún ráðstefnu í París og hún sá auglýst ódýrt flug til Íslands með þriggja daga „layover“ og ákvað hún að nýta tækifærið og heimsækja landið á leið sinni yfir Atlantshafið.

„Ég hafði ferðast mikið undanfarin ár, sérstaklega um Evrópu, og nýtti mér oft ódýra gistingu á borð við Couch Surfing-síðuna eða þá Airbnb. Ég hafði aldrei áður lent í neinu veseni. Kannski var ég of værukær eða of „naive“ eða of saklaus þegar ég bókaði gistinguna á Íslandi, ég eiginlega veit það ekki.“

Óþægileg tilfinning

Áður en Alison fór til Íslands skoðaði hún heimasíðu Airbnb og eftir nokkra leit sá hún auglýst herbergi í íbúð í úthverfi Reykjavíkur, með sameiginlegu eldhúsi og snyrtingu. Önnur herbergi íbúðarinnar voru einnig til leigu á síðunni en skráður gestgjafi var íslenskur karlmaður á sextugsaldri.

Hún segir engar viðvörunarbjöllur hafa hringt þegar hún skoðaði auglýsinguna.

„Ég hefði ekki bókað gistingu þarna ef ég hefði haft minnstu efasemdir. Þetta leit allt mjög vel út, umsagnirnar voru jákvæðar og ég hugsaði með mér að þetta væri bara mjög fínn valkostur fyrir svona stutta ferð. Ég ákvað að gista á farfuglaheimili fyrstu nóttina og í íbúðinni hinar tvær næturnar.“

Alison segir manninn hafa sent henni skilaboð eftir að hún lagði inn pöntunina og boðist til að sækja hana á farfuglaheimilið daginn eftir að hún lenti á Íslandi. Þegar að því kom og hún steig inn í bíl mannsins fann hún fljótlega fyrir óþægilegri tilfinningu. Íbúð mannsins var í rúmlega 20 mínútna aksturfjarlægð frá miðbæ Reykjavíkur.

„Það var eitthvað rangt við þetta. Hann virkaði mjög „creepy“, það var eitthvað ógnvekjandi við hann. Á leiðinni í íbúðina byrjaði hann að tala um alls konar kynferðislega hluti og segja mér klámsögur. Hann vildi endilega segja mér frá kynlífsnámskeiði sem hann var á og fór mjög nákvæmlega út í öll smáatriði. Mér leið virkilega óþægilega en mér fannst ég ekki geta hætt við á þessum tímapunkti, ég var ekki búin að bóka neina aðra gistingu, ég var ekki með neitt „plan b.“ Þegar við komum í íbúðina hans voru aðrir gestir þar inni, nokkur pör sem voru einnig frá Bandaríkjunum. „Það virtist fara ágætlega á með manninum og hinum gestunum þannig að ég reyndi að slaka á og blanda geði við þau.“

Alison segist hafa dregið þá ályktun að maðurinn væri líklegast haldinn einhvers konar geðsjúkdómi. „Hann virkaði á mig eins og hann væri hálf manískur, hann var ör og talaði rosalega hratt. Á einum tímapunkti greip hann skyndilega í mig og byrjaði að dansa við mig. Síðan var hann með alls kyns kynferðislegar athugasemdir.“

Hún segir manninn fyrr um kvöldið hafa boðist til að skutla henni í matvörubúð og þar sem að hún hafi verið í ókunnugu landi þar sem hún rataði ekki og var þar að auki bíllaus hafi hún tekið því boði.

„Síðan vildi hann endilega að við færum og fengjum okkur drykk. Ég drakk næstum því ekkert áfengi inni á barnum vegna þess á þessum tímapunkti var ég hreinlega orðin mjög óörugg í kringum hann.“

Hún segir áreiti mannsins hafa haldið áfram inni á barnum. „Hann hélt áfram að káfa á mér og klípa í mig og ég sagði honum stöðugt að hætta.“

Aðspurð segist Alison hafa hugleitt hvort og hvernig hún gæti komið sér út úr aðstæðunum: „Ég reyndi einhvern veginn að leiða þetta hjá mér, þessa hegðun, og gera lítið úr þessu. Þetta var áður en #metoo-hreyfingin byrjaði. Þetta var einhver lærð hegðun hjá mér, að reyna að afskrifa þetta. Mér fannst ég ekki eiga kost á öðru en gista í íbúðinni, allt dótið mitt var þar og ég var ekki með neina aðra gistingu.“

Skalf og grét á leiðinni heim

Alison segir að þegar þau hafi komið til baka í íbúðina hafi aðrir gestir verið farnir að sofa. Maðurinn hafi óumbeðinn elt hana inn í herbergið þar sem hún ætlaði að sofa. Þar hafi hann leitað á hana og augljóslega ætlað að sofa hjá henni.

„Ég var svo hrædd og taugaveikluð að ég ákvað að nota þá taktík að þykjast vera hress, láta eins og við værum vinir og sagði við hann að við „myndum bara hanga saman á morgun.“ Það var mín leið til að reyna að fá hann til að fara. Ég var hrædd um hvernig hann myndi bregðast við ef ég myndi til dæmis segja honum að hypja sig út.“

Hún segist að lokum hafa þurft að ýta manninum með valdi út út herberginu og loka dyrunum. Sem betur fer hafi hann ekki gert tilraun til að nálgast hana frekar.

„Daginn eftir fór ég út með öðrum gestum og við komum ekki til baka fyrr en um klukkan 11 um kvöldið. Ég fór síðan snemma morguninn eftir. Í rútunni á leið á flugvöllinn var eins og það opnaðist einhver flóðgátt. Allt í einu byrjaði ég að skjálfa og gráta stöðugt.“

Alison segir þessa röð atvika hafa rifið upp gömul sár; minningar af misnotkun í æsku hafi blossað upp. „Þetta opnaði augu mín fyrir öllu ofbeldinu og áreitinu sem ég hafði orðið fyrir sem barn og unglingur og ung kona. Ofbeldi og áreiti sem ég hafði lært að hunsa og grafa niður og gera lítið úr vegna þess að það er einfaldlega það sem konur gera. Ég fór allt í einu að hugsa um öll atvinnuviðtölin sem ég hef farið í þar sem karlar töluðu niður til mín; öll skiptin þegar ég var úti að skemmta mér og það var káfað á mér og ég lét mig bara hafa það.“

Dauðhrædd

Alison segir að þegar hún var komin heim til Texas, þar sem hún var búsett, hafi það verið hennar fyrsta verk að hringja í þjónustuver Airbnb og tilkynna manninn. Hún hafi síðan sent þeim ýtarlega lýsingu á hegðun hans. „Sem betur fer brugðust stjórnendur síðunnar mjög skjótt við, lokuðu á allar bókanir sem hann hafði gert og lokuðu aðganginum hans strax, innan nokkurra mínútna.“

Hún segir manninn hafa brugðist afar illa við eftir að stjórnendur síðunnar lokuðu fyrir aðgang hans. Það hafi komið henni illa að maðurinn var með símanúmerið hennar, enda er venjan að gestir og gestgjafar á Arinbnb skiptist á tengiupplýsingum þegar gisting er bókuð.

„Hann fékk senda tilkynningu um að ég hefði lagt fram kvörtun. Í kjölfarið byrjaði hann að hringja í mig aftur og aftur og á einum tímapunkti skildi hann eftir 10 skilaboð í talhólfi í símanum mínum. Hann úthúðaði mér, sagði að ég hefði eyðilagt líf hans og hótaði að leggja fram kvörtun á hendur mér til baka. Síðan sagðist hann hafa talað við hina gestina sem væru með honum í liði. Ég var auðvitað dauðhrædd. Á endanum þurfti ég að skipta um símanúmer.

Í langan tíma leið mér mjög óþægilega innan um ókunnuga, gamla menn, líkaminn á mér hreinlega fraus,“ segir hún enn fremur.

Hún segist hafa glímt við mikla áfallastreituröskun eftir að hún kom heim til Bandaríkjanna. Henni leið stöðugt illa og fékk síendurteknar martraðir. Að lokum leitaði hún sér hjálpar hjá sérfræðingum og byrjaði að hitta ráðgjafa. Í dag líður henni vel.

„Ég leitaði ekki til lögreglu og ég gerði lítið úr þessu áreiti fyrst, reyndi að leiða það hjá mér. En mér er mikið í mun um að fólk skilji að rétt eins og nauðgun þá getur  gróft kynferðislegt áreiti haft hrikalegar afleiðingar. Ég hugsaði fyrst að þar sem þetta var ekki nauðgun þá væri þetta nú ekkert svo alvarlegt. Sem sýnir hvað við konur getum verið ónæmar fyrir þessari hegðun. Þetta er svo rótgróið í menningu okkar.“

Airbnb og ábyrgð

 Óljóst er hver ábyrgð Airbnb er hér á landi þegar kemur að ofbeldi og kynferðisbrotum gagnvart gestum. Á heimasíðu Airbnb kemur meðal annars fram að gestir geti sett sig í samband við þjónustuver sem er opið allan sólarhringinn.

„Upplifun þín af Airbnb hefst um leið og þú opnar þig ævintýrum. Það gerist einungis ef þú treystir samfélaginu og finnur til öryggis. Við gerum því kröfu um að þú stofnir hvorki öðrum í hættu né ógnir þeim.“

Á öðrum stað segir:

„Þú mátt ekki ógna öðrum með ofbeldi, beita kynferðislegu ofbeldi, áreitni eða misnotkun, vera gerandi í heimilisofbeldi, ræna, stunda mansal, beita öðru ofbeldi eða halda neinum gegn vilja sínum. Meðlimir í hættulegum samtökum, þ.á m. hryðjuverkasamtökum, skipulögðum glæpasamtökum og hópum um kynþáttafordóma, eru ekki velkomnir í þessu samfélagi. Airbnb hefur skuldbundið sig til að vinna með löggæsluyfirvöldum eins og við á og bregst við gildum beiðnum löggæsluyfirvalda.“

„Þessi maður á að sjálfsögðu ekki að vera skráður á þessa síðu. Ég efast um að ég sé fyrsti gesturinn sem hefur neikvæða reynslu af honum og ég er alveg örugglega ekki fyrsta konan sem hann áreitir. Það gefur auðvitað augaleið að deilihagkerfi á borð við Airbnb laða að sér kynferðisbrotamenn, þeir sjá erlenda ferðamenn sem auðvelda bráð,“ segir Alison. „Öfugt við það þegar þú gistir á hóteli, þar þurfa starfsmenn að uppfylla ákveðin skilyrði.“

Alison segist jafnframt velta fyrir sér hver sé lagaleg ábyrgð Airnb í málum eins og þessum.

„Mér finnst það mjög óþægileg tilhugsun að hugsanlega sé þessi maður búinn að búa til nýjan aðgang á síðunni og haldi áfram uppteknum hætti. Mér skilst að það sé mjög auðvelt að búa til nýjan aðgang á Airbnb.“

Á heimasíðu Airbnb segir:

„Ef við erum með nægar upplýsingar (vanalega að minnsta kosti eiginnafn, kenninafn, fæðingardag og -ár) til að staðfesta deili á gesti eða gestgjafa með búsetu í Bandaríkjunum berum við þær saman við tilteknar opinberar sakaskrár ríkja og sýslna ásamt skrám um kynferðisbrotamenn í ríkjum og fyrir allt landið til að athuga hvort viðkomandi hafi verið sakfelldur í refsimáli eða hvort hann sé skráður kynferðisbrotamaður.“

Þetta á hins vegar eingöngu við ef viðkomandi gestur eða gestgjafi eru staðsettir í Bandaríkjunum.

Á heimasíðu Airbnb segir að fyrirtækið áskilji sér rétt til að nálgast upplýsingar um viðkomandi notanda, en hvergi kemur fram að bakgrunnur viðkomandi sé kannaður við skráningu.

Fordæmi

Árið 2017 lagði Leslie Lapayowker fram kæru á hendur Airbnb og krafðist miskabóta vegna kynferðisbrots af hálfu gestgjafa. Hafði hún bókað gistingu í stúdíóíbúð í Los Angeles. Sagði hún gestgjafann hafa brotist inn íbúðina á meðan hún dvaldi þar, dregið hana inn í herbergi og beitt hana grófu kynferðislegu áreiti. Síðar kom í ljós að gestgjafinn, Del Olmo, hafði nokkrum árum áður verið handtekinn fyrir ofbeldisbrot. Nafn hans kom ekki upp þegar stjórnendur Airbnb renndu nafni hans í gegnum viðeigandi gagnagrunna, þar sem hann var ekki dæmdur vegna brotsins á sínum tíma.

Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu kom fram að „atvikið yrði ekki liðið“ og að reynt hefði verið af fremsta megni að styðja Lapayowker og koma til móts við hana. Þá kom fram að gestgjafinn hefði verið fjarlægður af síðunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Gagnrýna Íslandsbanka fyrir vaxtabreytinguna í dag – „Þetta er ógeðslegt, óboðlegt og til skammar“

Gagnrýna Íslandsbanka fyrir vaxtabreytinguna í dag – „Þetta er ógeðslegt, óboðlegt og til skammar“
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Gæsluvarðhald yfir stjórnlausum síbrotamanni stytt

Gæsluvarðhald yfir stjórnlausum síbrotamanni stytt
Fréttir
Í gær

Garðyrkjubændur greina frá 25 prósent hækkun raforkuverðs á hálfu ári – Óttast að íslenskt grænmeti verði ekki samkeppnishæft

Garðyrkjubændur greina frá 25 prósent hækkun raforkuverðs á hálfu ári – Óttast að íslenskt grænmeti verði ekki samkeppnishæft
Fréttir
Í gær

Samkeppniseftirlitið hefur tilkynnt afurðastöðvum að samkeppnislög gildi um samstarf og samruna þeirra

Samkeppniseftirlitið hefur tilkynnt afurðastöðvum að samkeppnislög gildi um samstarf og samruna þeirra
Fréttir
Í gær

Systir Thelmu flutti til Spánar: „Hafa ákveðið að þau séu ekkert endilega að koma aftur heim“

Systir Thelmu flutti til Spánar: „Hafa ákveðið að þau séu ekkert endilega að koma aftur heim“
Fréttir
Í gær

Ólga í Fjarðabyggð eftir uppsögn stjórnanda í félagsþjónustu – Saka bæinn um ófaglega og óvandaða stjórnsýslu

Ólga í Fjarðabyggð eftir uppsögn stjórnanda í félagsþjónustu – Saka bæinn um ófaglega og óvandaða stjórnsýslu