fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Sigurður hefur fengið sig fullsaddan af úrkynjun – „Stöðug hnignun íslenskunnar sem eykst með hverju ári“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 23. júlí 2019 10:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leikarinn ástsæli og ljóðskáldið Sigurður Skúlason segist hafa talsverðar áhyggjur af stöðu íslenskunnar í dag. Hann boðar endalok íslensku í aðsendri grein í Morgunblaðinu. Helsti óvinur tungunnar, að hans mati, er enska. Hann gagnrýnir hugmyndir sumra að draga úr leiðréttingum á máli og slaka á hreintungustefnunni.

„Fyrir um það bil tuttugu árum sagði góður vinur minn mér á gönguferð að innan hundrað ára yrði íslenskan liðin undir lok sem móðurmál Íslendinga. Þessi sláandi staðhæfing kallaði að sjálfsögðu á umræður um forsendur hennar og þróun málsins. Nú er þessi vinur minn horfinn á braut. Eftir stendur í dag stöðug hnignun íslenskunnar sem eykst með hverju ári,“ segir Sigurður.

Íslenska hallærisleg?

Hann veltir því fyrir sér hvort enskan muni taka við af íslenskunni á næstu árum. „Það sem vinur minn átti við var að enskan yrði búin að taka yfir innan hundrað ára, að meirihluti landsmanna talaði þá ensku að meira og minna leyti. Ef við hlustum á yngri kynslóðirnar og fylgjumst með orðaskiptum á samskiptamiðlum nútímans er það kannski ekki fjarri lagi. Enskan er alþjóðamál. Hún er alþjóðamálið. Og hún sækir stöðugt á. Um allan heim. Hér á Íslandi eru tölvunotkun (netið og samskiptamiðlarnir) og vaxandi ferðaþjónusta síðustu ár meðal gildra ástæðna þessarar þróunar,“ segir Sigurður.

Hann bætir við að mörgu ungu fólki þyki íslenska hallærisleg. „En gleymum heldur ekki þeirri staðreynd að mörgu ungu fólki finnst íslenskan gamaldags, jafnvel úrelt, af því hún má sín svo lítils í samanburði við enskuna sem leið inn í heim nútímans. Í miðri alþjóðavæðingunni hjálpar enskan að sjálfsögðu miklu meir en íslenskan nokkurn tíma til þess að skilja og gera sig skiljanlegan í heiminum,“ segir Sigurður.

Orð Vigdísar fjarri nútímanum

Hann nefnir sem dæmi að Íslendingar séu nánast hættir að blóta á íslensku. „Framrás enskunnar birtist ekki aðeins í því að einstaka orð og frasar festa sig í sessi og fer fjölgandi, heldur á vaxandi fjöldi barna og unglinga betra með að tjá sig á ensku eða enskuskotinni íslensku. Þau hugsa meir og meir á ensku. Tölvur, snjalltölvur og snjallsímar, öll öppin, allt er þetta byggt á enskunni. Og smám saman verðum við ónæm fyrir þessari þróun, við hættum að kippa okkur við enskuna í málinu, jafnvel hálfar og heilar setningar á ensku. Íslendingar eru til að mynda upp til hópa hættir að bölva á íslensku. Það þykir hallærislegt í dag að segja helvítis andskotans, en meira viðeigandi að segja sjitt og fokk. Það þykir líka forneskja að segja guð minn góður og við segjum frekar ómægad, jafnvel djísösskræst,“ segir Sigurður.

Hann bendir á að Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti lýðveldisins, hafi sagt að „hæ“ og „bæ“ væri ekki íslenska. „Ég man vel eftir þegar okkar ágæti forseti, Vigdís Finnbogadóttir, sagði eitt sinn opinberlega: „Hæ og bæ eru ekki íslenska.“ Guð minn almáttugur hvað þessi orð eru fjarri veruleika dagsins í dag. Enskan hefur yfirtekið ávörp okkar og kveðjur. Við segjum flest hæ og bæ hvað sem hver segir. Og orðatiltækin ókei-bæ eða bæbæ eru algengasta kveðjan í dag. Og margt fólk segir lovvjú eða ælovvjú, þegar það vill vera vinalegt. Og þegar við hlustum á fjölmiðla dagsins, hvort sem við slysumst til að heyra auglýsingar dagsins (um daginn endaði ein hamborgaraauglýsing á þessum orðum: lovvol-sörvol) eða heyrum í fólki í viðtölum, hvort sem það er tengt íþróttum, listum, viðskiptum eða hverju sem er, þá heyrum við strax að málið okkar er á stöðugu undanhaldi – fyrir enskunni,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að hann gæti talið upp fleiri frasa. „Ég veit það er til lítils að telja upp orð og frasa. Það væri hægt að leggja margar blaðsíður undir það. Og þó málfræðin eins og maður lærði hana hér áður fyrr sé meira og minna að fjúka út í veður og vind, þá er það kannski ekki meginmálið í stóra samhenginu. Kjarni málsins er að við yfirgefum íslenska setningaskipan, við hættum að beygja orð og stigbeygja og tjáum okkur æ meir samkvæmt enskri málvitund. Og spurningin er þessi: Er eitthvað við þessu að gera? Er þetta kannski það sem átt er við þegar talað er um þróun málsins?“ spyr Sigurður.

Hvað er rétt mál?

Sigurður spyr því næst hvað sé í raun rétt mál. „Hvað er rétt og hvað er rangt í þessu samhengi? Er til gott mál og vont mál? Vandað og óvandað? Eru þær breytingar sem nú eiga sér stað á íslenskunni eðlileg þróun eða er málið að úrkynjast? Skiptir engu máli hvernig við tölum? Er það kannski eðlilegur gangur í alþjóðlegri þróun að tungumál jafn lítils málsvæðis og okkar deyi út? Er þetta spurning um annaðhvort eða? Íslensku eða ensku? Eða mögulega hvort tveggja? Hvað viljum við í raun?,“ spyr Sigurður.

Hann segir að í dag sé áherslan á að það eigi ekki að finna að máli fólks. „Þessar spurningar leita óneitanlega á hugann núna þegar því viðhorfi vex stöðugt fiskur um hrygg að allt sé leyfilegt hvað málið varðar, að hver og einn ráði því sjálfur hvort og hvernig hann talar íslensku. Hér er um að ræða frelsi einstaklingsins til að tjá sig eins og honum sýnist. Og við eigum ekki að hindra frjálsa tjáningu. Sem er alveg sjálfsagt að taka undir. En hvað svo? Eru þá engin mörk? Dæmið hefir nefnilega alveg snúist við. Nú ríkir æ meir sú skoðun að ábendingar og tilsögn hvað varðar gott mál eða vandað mál eigi ekki rétt á sér. Það er bara yfirgangur og frekja og fólk sem það reynir er kallað málfarslöggur og jafnvel málfarsfasistar og sætir ávirðingum. Þetta hefur gengið svo langt að fólk sem vill veg og vanda íslenskunnar heldur nú að sér höndum og er tregt til að tala um það sem betur mætti fara. Meira að segja ágætur prófessor í íslensku við Háskóla Íslands sér ástæðu til að segja opinberlega: „Mér langar er líka íslenska.“,“ segir Sigurður.

Dauðateygjur kapítalismans

Sigurður bendir svo á að maðurinn sé að eyða öllu og niðurstaða þess sé flatneskja. „Ástandið í heiminum í dag er með þeim hætti, að maðurinn er að leggja jörðina í rúst með framferði sínu, með græðgi sinni, hroka og fávísi. Hamfarahlýnun af mannavöldum er staðreynd. Tegundir dýra og jurta deyja út hraðar og hraðar, sjórinn súrnar og vistkerfinu hrakar illilega. Og ekki bara það – vaxandi einsleitni í náttúrunni nær líka til mannsins og menningar hans. Nýlega kom fram í fréttum að frumbyggjatungumál eigi flest undir högg að sækja um allan heim og eigi á hættu að deyja út. Talið er að um sjö þúsund tungumál séu töluð í heiminum, tæplega 2.700 eru í mikilli hættu á að hverfa með þessari eða næstu kynslóð. Milli 50 og 90% tungumála verða horfin um næstu aldamót,“ segir Sigurður.

Hann segir að þetta megi meðal annars rekja til markaðsvæðingar alls. „Ef ekkert er að gert er myndin sem blasir við hrollvekjandi: Engilsaxneskur heimur með enska tungu sem aðaltungumál jarðarbúa, einsleit og yfirborðskennd hugsun og botnlaus markaðsvæðing á öllum sviðum tilverunnar. Dauðateygjur kapítalismans dragast stöðugt á langinn með gífurlegum harmkvælum fyrir mannlífið og náttúruna, fyrir vistkerfið í heild sinni. Er ég kannski kominn út fyrir efnið hér? Já og nei. Viljum við hreint loft, hreint vatn, hreina jörð? Viljum við fjölbreytni í náttúrunni og mannlífinu? Viljum við hafa ólíka siði og menningu með mörgum þjóðum? Viljum við læra, vaxa og þroskast, öðlast frekari skilning á tilvist mannsins og tilurð heimsins – eðli lífsins? Við gleymum alltaf og ævinlega andlega þættinum, þegar við tölum um jörðina og náttúruna. Við tölum um efni og orku, en ekki þá staðreynd að jörðin er andleg vera,“ segir Sigurður.

Hreinsun

Sigurður vitnar í ljóð Gyrðis Elíassonar og segir að framtíðarsýnin sem þar birtist sé ekki fjarri lagi.

Hreinsun

Einhverntíma kemur

að því að plánetan fær nóg,

tekur á sig snöggan rykk

á ofurhröðum snúningi sínum

og þeytir öllum þessum 7 milljörðum

ásamt því sem tilheyrir út í myrkan

geiminn, svona rétt einsog þegar

dýr hristir af sér óværu. Svo

byrjar hún í rólegheitum

upp á nýtt að safna

lífi.

Ekki annaðhvort eða

heldur bæði og

Sigurður heldur svo áfram að gagnrýna Eirík Rögnvaldsson, fyrrverandi prófessor í íslensku, en það er hann sem sagði að „mér langar“ væri líka íslenska. „Prófessorinn sem ég vitnaði í áðan sagði setninguna Mér langar er líka íslenska í þessu samhengi: „Það má ekki vera þannig að einhverjum hópum eða einstaklingum í samfélaginu finnist íslenskan ekki gera ráð fyrir sér, og það má ekki heldur vera þannig að einhverjum finnist gert lítið úr því máli og þeirri málnotkun sem þau eru alin upp við eða hafa vanist. Íslenskan er nefnilega alls konar. Íslenska með hreim er líka íslenska. App er líka íslenska. Mér langar er líka íslenska. Hán er líka íslenska. Vissulega ekki nákvæmlega sú íslenska sem ég ólst upp við í norðlenskri sveit fyrir 50-60 árum, en það gefur mér engan rétt til að fordæma íslensku annarra eða líta niður á hana.“ (Eiríkur Rögnvaldsson í grein sinni Íslenskan á aldarafmæli fullveldis, birt á Hugrás, Vefriti hugvísindadeildar Háskóla Íslands),“ segir Sigurður.

Hann segist þó átta sig á því að íslenskan þróist með árunum. „Að sjálfsögðu breytist tungumálið. Það er lifandi og þróast. En að sama skapi eru allar breytingar ekki endilega af hinu góða. Og við þurfum að gera greinarmun á því sem skiptir meira máli og því sem skiptir minna máli. Að forgangsraða. Enskuskotin íslenska er úrkynjun móðurmálsins. Hvað er að því að unga kynslóðin kunni almennilega tvö tungumál, ensku og íslensku? Í dag virðist staðan vera þannig að hún kunni hvorugt almennilega. Ætli þar liggi ekki hundur grafinn?,“ spyr Sigurður.

Hvað finnst þér?

Sigurður gagnrýnir jafnframt pistlahöfund Fréttablaðsins, Sif Sigmarsdóttur, sem talaði á svipuðum nótum og Eiríkur á dögunum. „Í Fréttablaðinu þ. 1. júní sl. var því haldið fram að íslenskunni stafi „ógn af þóttafullum ruddum sem, útbelgdir af þjóðrembingi og þjakaðir af minnimáttarkennd, nota íslenska tungu til að berja sér á brjóst, upphefja sjálfa sig með því að gera lítið úr öðrum og kæfa í leiðinni löngun og ákafa annarra til að tileinka sér hana, nota hana og leika sér að henni.“ segir Sigurður.

Hann spyr að lokum lesendur hvað þeim finnist að eigi að gera: „Við könnumst sjálfsagt flest við þessa lýsingu og vitum vel hvað sumt fólk gerir málinu mikið ógagn með þvílíkum hætti. Því það getur skipt jafn miklu máli hvernig við segjum hlutina og hvað við segjum. En þetta er ekki úrslitaatriði hvað varðar þróun tungumálsins og það að beina athyglinni svona eindregið að þessu atriði hjálpar ekki í stóra samhenginu og er beinlínis hættulegt. Enskan hefur tekið sér tryggilega bólfestu í samfélagi okkar og verður hér til frambúðar. Staðreynd sem við verðum að taka mið af. Málið snýst ekki um annaðhvort ensku eða íslensku. Málið snýst um bæði ensku og íslensku. Viðurkennum stöðuna eins og hún er og bætum kennslu þessara tveggja tungumála á öllum sviðum og stigum. Viðurkennum tvítyngi og miðum menntastefnu okkar við það. Það kallar að sjálfsögðu á nýja hugsun og kennsluhætti, allt frá leikskóla og upp úr. Og þetta mál, móðurmálið okkar, heyrir undir okkur öll, allt frá okkur sem einstaklingum til félagasamtaka og stjórnvalda. Eða – hvað finnst þér?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands mótmæla Coda Terminal – „Allt of mörgum spurningum er ósvarað“

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands mótmæla Coda Terminal – „Allt of mörgum spurningum er ósvarað“
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Örn vill að borgin setji lóðaleigu á flugvöllinn – „Þeir rændu þá besta mannvistar- og byggingarsvæði Reykvíkinga“

Örn vill að borgin setji lóðaleigu á flugvöllinn – „Þeir rændu þá besta mannvistar- og byggingarsvæði Reykvíkinga“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Dagur kveður borgarstjórn eftir nær aldarfjórðung – „Ég elska Reykjavík“

Dagur kveður borgarstjórn eftir nær aldarfjórðung – „Ég elska Reykjavík“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Illugi ómyrkur í máli – „Þetta var Hitlers-kveðja og ekkert annað“

Illugi ómyrkur í máli – „Þetta var Hitlers-kveðja og ekkert annað“
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fréttir
Í gær

Maður á sextugsaldri misþyrmdi lögreglumanni í Þarabakka

Maður á sextugsaldri misþyrmdi lögreglumanni í Þarabakka