fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Nærmynd af ríkislögreglustjóra – Haraldur víkur ekki í skugga harðrar gagnrýni

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 20. júlí 2019 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Haraldur Johannessen.

Embætti ríkislögreglustjóra hefur verið harðlega gagnrýnt undanfarið, bæði af einstaklingum sem segja farir sínar ekki sléttar af samskiptum við það sem og af lögreglumönnum sem þykir víða pottur brotinn í starfsemi þess. Því er ekki úr vegi að rekja aðeins sögu Haraldar Johannessen ríkislögreglustjóra sem hefur gegnt embættinu í rúmlega tvo áratugi.

Haraldur er fæddur 25.  júní 1954 í Reykjavík. Hann er sonur skáldsins og fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, Matthíasar Johannessen, og eiginkonu hans, Hönnu Ingólfsdóttur Johannessen. Bróðir Haraldar er Ingólfur Johannessen, doktor í veirufræði. Haraldur er giftur Brynhildi Ingimundardóttur og eiga þau þrjú börn, Matthías, Kristján og Önnu.

Haraldur lauk embættisprófi í lögfræði árið 1983 og lagði stund á framhaldsnám í afbrotafræði í Bandaríkjunum á árunum 1983–1984. Þegar hann sneri aftur til Íslands gegndi hann stöðu aðstoðarmanns forstjóra ÍSAL í tvö ár áður en hann tók við nýstofnuðu embætti fangelsismálastjóra. Hann var fangelsismálastjóri frá árinu 1988–1996. Árin 1996-1998 starfaði hann sem varalögreglustjóri, sem var nýtt embætti þegar hann tók við því. Hann tók svo við sem ríkislögreglustjóri 1998, sem hann var upprunalega skipaður í til fimm ára.

Embætti Haraldar er nú til rannsóknar hjá dómsmálaráðuneytinu, enda í mörg horn að líta. Framkoma og hátterni Haraldar gegn sérsveitarmönnum, meint einelti, rekstrarlegir þættir og fleira. Embættið hefur ekki skrifað undir ársreikninga síðan fyrir árið 2016 og mikil óánægja er meðal lögreglumanna með fatnað og ökutæki. Haraldur var skipaður í embættið í fimmta sinn á síðasta ári. Það var í fjórða sinn sem hann er skipaður áfram, án þess að embættið sé auglýst. Hann er því nokkuð öruggur með starfið allt til ársins 2023.

Sonur áhrifamanns innan Sjálfstæðisflokksins

Matthías Johannessen

Matthías, faðir Haraldar, var ritstjóri Morgunblaðsins og mikill áhrifamaður innan Sjálfstæðisflokksins. Hann birti opinberlega dagbækur sínar þar sem má finna áhugaverðar lýsingar á hvernig sonur hans endaði sem ríkislögreglustjóri.

11. janúar 1996 

„Haraldur sonur okkar talaði við Davíð Oddsson um starf sitt í morgun […] Harald langar til að skipta um starf enda hefur hann sinnt þessu erfiða og erilsama embætti fangelsismálastjóra nógu lengi, bæði að hans viti og okkar. […] Hann var ekki að heita á hurðir Davíðs, aldeilis ekki enda hefur hann ekkert með dómsmál að gera. En hann langaði til að heyra í honum hljóðið og kanna stöðu sína.“

8. nóvember 1996 

„Haraldur er að hugsa um að sækja um varalögreglustjóraembættið ef hann fær hvatningu til þess.“

 17. nóvember 1996

„Haraldur sonur minn hefur sótt um nýtt starf, embætti varalögreglustjórans í Reykjavík. Mér skilst að Þorsteinn Pálsson hafi kallað hann á sinn fund og hvatt hann til að sækja um. Vona að það fari allt vel úr hendi.“

23. nóvember 1996 

„Mér skilst  það sé talið sjálfsagt að Halli fái þetta nýja embætti sem hann er að sækja um. Held að hann sé spenntur fyrir því sjálfur. Þá mundi hann losna úr embætti fangelsismálastjórans og er svo sannarlega kominn tími til. Hann gæti orðið verðmætur yfirmaður lögreglunnar, fastur fyrir en hlýr og viðkvæmur og tillitssamur við annað fólk. Ágætur í lögum. Vona reyndar að hann losni úr gamla embættinu og taki til við ný verkefni.“

18. desember 1996 

„Haraldur sonur okkar var skipaður í embætti varalögreglustjórans í Reykjavík í dag. Það var hraustlega gert af Þorsteini Pálssyni. Hann lætur deilur okkar um sjávarútvegsmál ekki lenda á syni mínum. Það sýnir að Þorsteinn er drengskaparmaður, enda vissi ég það áður.“

18. janúar 1998

„Haraldur sonur minn hefur sótt um embætti ríkislögreglustjóra. Þegar hann tók við varalögreglustjóraembættinu í Reykjavík var á það minnzt að hann gerði sínar endurbætur á embættinu, en vel gæti komið til greina að hann tæki við ríkislögreglustjóraembættinu að því loknu, ef það losnaði.“

30. janúar 1998

„Haraldur sonur okkar var skipaður í embætti ríkislögreglustjóra en það er mikið embætti og krefst ábyrgðartilfinningar og hrokalausrar vizku. […] Halli hefur unnið sig upp í þetta embætti sjálfur en Þorsteinn Pálsson hefur þá líka sýnt honum mikinn drengskap.“

Efnahagsbrotadeildin

Árið 2011 lagði þáverandi ríkissaksóknari, Valtýr Sigurðsson, fram minnisblað um ástand efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Þar fullyrti hann að deildinni hefði lengi skort faglega yfirstjórn og metnað. Rannsókn mála tæki alltof langað tíma og mörg mál hreinlega dagaði uppi. Skömmu eftir þetta var efnahagsbrotadeildin færð frá ríkislögreglustjóra yfir til sérstaks saksóknara. Þá sendi Helgi Magnús Gunnarsson, sem áður starfaði hjá efnahagsbrotadeild, bréf til Alþingis þar sem hann lýsti reynslu sinni af deildinni. Hann sagði deildina hafa verið fjársvelta og mætt skilningsleysi frá Haraldi.

Ríkisendurskoðun gagnrýnir innkaup

Ríkisendurskoðandi taldi að Ríkislögreglustjóri hefði brotið reglur um opinber innkaup. Embættið hefði keypt mikið magn af vörum frá fyrirtækjum sem væru í eigu lögreglumanna eða tengdra aðila, án undanfarandi útboðs. Viðskipti fjórtán löggæslustofnana við umrædd fyrirtæki hefðu á þriggja ára tímabilið verið um 91 milljón króna. Ríkislögreglustjóri taldi hins vegar að ófært hefði verið að ráðast í útboð vegna innkaupa, í miðri búsáhaldabyltingu.

Hótanir á bréfsefni embættisins

Haraldur skrifaði bréf til Björns Jóns Bragasonar og Sigurðar K. Kolbeinssonar á síðasta ári vegna bókarinnar Gjaldeyriseftirlitið – vald án eftirlits?, og sjónvarpsþáttar um sama efni. Bréfin voru rituð á bréfsefni embættis ríkislögreglustjóra og undirrituð af Haraldi sjálfum, auk tveggja fyrrverandi starfsmanna embættisins og gagnrýndu þeir umfjöllun um efnahagsbrotadeild embættisins og sökuðu Björn og Sigurð um ólögmæta meingerð. Dómsmálaráðuneytið taldi að bréfinu væri ætlað að vernda persónulega hagsmuni Haraldar og starfsmannanna tveggja, en ekki embætti ríkislögreglustjóra. Upplýsingarnar í bréfinu væru villandi að efni og framsetningu og taldi ráðuneytið sendinguna ámælisverða og til þess fallna að rýra traust og trú á embætti ríkislögreglustjóra.

Leysti ekki meintan geranda frá störfum 

Aðalbergur Sveinsson.

Aðalbergur Sveinsson lögreglumaður hefur í þrígang verið ásakaður um kynferðisbrot gegn börnum, en öll málin hafa verið felld niður. Móðir einnar stúlkunnar, Halldóra Baldursdóttir, hefur harðlega gagnrýnt að Aðalbergur hafi ekki verið leystur frá störfum á meðan málið var til rannsóknar. Hún sagði Harald Johannessen hafa brugðist henni og dóttur hennar og að hann vildi ekkert fyrir þær gera. Þessu hafnaði Haraldur, hann gæti ekki leyst Aðalberg frá störfum sökum þess að hann hefði ekki fengið nauðsynlegar upplýsingar um rannsókn málsins. Innanríkisráðuneytið var þó  á öðru máli, Haraldur hefði, jafnvel án upplýsinganna, getað tekið slíka ákvörðun.

Samkvæmt kærunni braut lögreglumaðurinn á dóttur Halldóru í sumarbústaðarferð sem hún fór í ásamt honum, skólasystur sinni og móður hennar árið 2007, þegar stúlkurnar voru tíu ára. Þá hafi verið horft á klámefni í bústaðnum. Með í bústaðnum hafi verið háttsettur embættismaður og eiginkona hans. Sá vann um tíma hjá embætti ríkislögreglustjóra. „Þetta eru allt fyrrum vinnufélagar, samstarfsfélagar úr ráðuneytinu, það er alveg sama hvar að borðinu maður kemur, þetta eru allt félagar,“ sagði Halldóra í samtali við RÚV í júní.  Hún hefur kvartað til umboðsmanns Alþingis vegna málsins og kallar eftir því að Haraldur segi af sér.

Rekstur bifreiða

Embætti ríkislögreglustjóra á öll ökutæki lögreglunnar og leigir út til embættanna. Lögreglumenn hafa gagnrýnt þetta fyrirkomulag og sakað ríkislögreglustjóra um okur. Það sé hagkvæmara fyrir embættin að leigja ómerkta lögreglubíla frá bílaleigum, frekar en að leigja frá ríkislögreglustjóra. Engu að síður hefur verið taprekstur á Bílamiðstöðinni og reksturinn sætt gagnrýni Ríkisendurskoðanda. Vegna þessa máls hefur ríkislögreglustjóri óskað þess að Ríkisendurskoðun geri stjórnsýsluenduskoðun á rekstrinum og einnig farið fram á að lögmæti þess að nota almenna bílaleigubíla til löggæslustarfa verði kannað. Lögreglustjórar á landinu hafa lýst því yfir að best væri að að leggja miðstöðina niður og færa rekstur löggæslufarartækja beint inn til embættanna.

Fatnaður

DV greindi frá því í desember að mikillar óánægju gætti meðal lögreglumanna vegna fatamála. Ríkislögreglustjóri sér um að útvega lögregluembættum vinnu- og einkennisfatnað en enginn samningur hefur verið gerður undanfarin misseri um hvar fatnaðinn skuli kaupa. Vegna þessa hafa lögregluembættin sjálf þurft að panta klæðnaðinn og hefur þannig skapast ósamræmi milli embættanna. Lögreglufélag Norðurlands vestra sendi frá sér ályktun fyrir mánuði þar sem vandræðum lögreglumanna við að nálgast lögreglufatnað var mótmælt. Lögreglustjórar í hverju héraði fyrir sig sjái nú  um fatakaup, án útboða og samræmingar, en með þessu sé verið að sóa almannafé.

Umdeildar ráðningar

Ríkislögreglustjóri hefur ítrekað verið gagnrýndur fyrir ráðningar innan lögreglunnar. Um þetta bera fjölmörg álit umboðsmanns Alþingis vitni, þar sem sett er út á ýmislegt í verklagi og framkvæmd Ríkislögreglustjóra í mörgum aðskildum álitum. Frægt var þegar  hann réð inn Birnu Guðmundsdóttur, sem lögreglufulltrúa hjá Lögregluskóla ríkisins. Bæði Lögregluskóli ríkisins og kærunefnd jafnréttismála töldu að Birna hefði ekki verið hæfasti umsækjandinn, en Birna er náfrænka Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem þá var innanríkisráðherra.

Birna Guðmundsdóttir

Líflátshótun á skemmtistað

Frægt var árið 2001 þegar Haraldur var sakaður um að hafa skvett víni framan í annan mann og hótað honum lífláti.  Haraldur mun hafa verið staddur á Vínbarnum í Reykjavík þegar maður kom þar að og ávarpaði hann með röngu nafni. Haraldur á að hafa reiðst mikið við þetta, risið úr sæti, skvett vínglasi yfir manninn og hótað honum lífláti. Lögregla var kölluð til en maðurinn þorði ekki að leggja fram kæru. Haraldur hefur hafnað þessum ásökunum.

 

 

 

 

 

 

Lýsingar Matthíasar á syni sínum:

Í dagbókum sínum lýsir Matthías Johannessen syni sínum sem viðkvæmum og góðviljuðum.

Þegar Haraldur var fjögurra ára gamall skrifaði Matthías í dagbók sína „Halli dafnar og þroskast eins og fallegt lítið blóm. Dálítið vandmeðfarinn því tilfinningalíf hans er næmt og viðkvæmt.“

Þegar Haraldur tók við embætti ríkislögreglustjóra greindi hann föður sínum frá því að hann kviði nýja starfinu. Það fannst Matthíasi eðlilegt. „Þetta er erfitt embætti sem fjallar meðal annars um fólk sem á bágt og hefur orðið undir, ekki síst í baráttunni við freistingar sínar. Þetta veit Halli og það er eðlilegt að hann sé kvíðinn, því hann hefur viðkvæmar taugar og manneskjulega afstöðu.“

„Hann er ákveðinn, en hann er líka réttsýnn og viðkvæmur. Hann getur sett sig í spor þeirra sem eiga bágt. […]  Hann hefur sýnt að hann er varkár og góðviljaður.“

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan uggandi yfir óhugnanlegum tálbeituaðgerðum hóps íslenskra ungmenna – Ganga hrottalega í skrokk á meintum barnaníðingum

Lögreglan uggandi yfir óhugnanlegum tálbeituaðgerðum hóps íslenskra ungmenna – Ganga hrottalega í skrokk á meintum barnaníðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Öfgar heyra sögunni til – Erfiðleikar, gleði, sigrar og stundum sorg

Öfgar heyra sögunni til – Erfiðleikar, gleði, sigrar og stundum sorg
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Pirringur“ í garð Pútíns meðal herforingja og elítunnar

„Pirringur“ í garð Pútíns meðal herforingja og elítunnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tvö bandarísk börn, 8 og 9 ára, fundust á Íslandi – Saknað síðan í október

Tvö bandarísk börn, 8 og 9 ára, fundust á Íslandi – Saknað síðan í október