fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Fréttir

Katrín segir Sjálfstæðisflokkinn eins og mafíuna á Ítalíu nema þeir drepa ekki – „Þá hringdi Davíð meðal annars í mig“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 18. júlí 2019 10:34

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Katrín Baldursdóttir stjórnmálafræðingur segir í aðsendri grein sem birtist á Kjarnanum að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hagi sér eins og Cosa Nostra á Sikiley fyrir utan að flokkarnir ráði menn ekki af dögum.

Katrín segir að mafían og flokkarnir tveir noti sömu aðferðir. „Spilling hefur verið landlæg á Íslandi síðan elstu menn muna. Þannig hafa sjálfstæðismenn frá öndverðu stundað það kerfi að koma sínum mönnum að í æðstu stöður og embætti. Iðulega hefur kveðið svo rammt að þessu að fólk með flokksskírteini hefur gengið fyrir í allar tegundir starfa á vinnumarkaði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur notað svipaðar aðferðir og t.d. Mafían á Ítalíu eftir að hún breytti um taktík, um og uppúr 1992. Í stað þess að múta mönnum yfir borðið eins og áður hafði verið gert byrjaði Mafían að troða sínum mönnum inn í stöður og embætti stjórnkerfisins og stjórna samfélaginu leynilegar en áður hafði tíðkast,“ segir Katrín.

Eins og mafían eftir 1992

Katrín segir að mafían hafi farið að haga sér öðru vísi eftir árið 1992. „En af hverju breytti Mafían á Ítalíu um aðferðir eftir 1992? Það var vegna þess að hátt í 500 hundruð mafíósar höfðu þá verið handteknir, um 360 dæmdir og sumir fengu mjög harða dóma. Til dæmis fékk foringi Cosa Nostra á Sikiley, Salvaore „Toto“ Riina, lífstíðarfangelsi en stjórnaði samt starfseminni úr fang-elsinu. Hann var kallaður slátrarinn eða skepnan því honum munaði ekki um að láta drepa menn með köldu blóði eins og ekkert væri sjálfsagðara. Það voru dómararnir Giovanni Falcone og Paolo Borsellino sem voru í fararbroddi í skipulagðri herferð gegn Mafíunni,“ segir Katrín.

Hún segir að eftir þetta hafi mafían dregið úr morðum. „Mafían lét síðan drepa þá 1992. Bifreið Falcone var sprengd í loft upp þegar hann og fjölskyldan hans og lífverðir voru á leið til síns heima eða til Palermo á Sikiley. Mánuði seinna var Borsellino drepinn á svipaðan hátt fyrir utan heimili móður sinnar í Palermo ásamt 5 lífvörðum. Það var eftir þetta sem Mafían á Ítalíu dró úr drápum, hætti að vera eins sýnileg en hóf að styrkja völd sín með því að koma bakdyramegin inn eða koma sínum mönnum í embætti hér og þar með virkari hætti en áður. Útvega þeim vinnu á sem flestum stöðum. Þetta hefur virkað vel,“ segir Katrín.

Dregið úr ítökum Framsóknar

Katrín líkir þessu svo við helmingaskiptin svokölluðu. „Auðvitað virkar þetta. Sjálfstæðisflokkurinn hefur styrkt stöðu sína verulega á flestum sviðum með spillingu af þessu tagi. Framsóknarmenn hafa í áranna rás notað sömu aðferðir, en vegna þess hversu dregið hefur úr ítökum framsóknarmanna vegna minnkandi fylgis hafa þeir ekki verið í sömu stöðu undangengin ár til að viðhafa svona spillingu. Frægt er hvernig framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hafa í gegnum árin skipt með sér valdapóstum samkvæmt því sem kallað er helmingaskiptareglan,“ segir Katrín.

Í þessu samhengi nefnir hún fræga ljósmynd sem tekin var upp úr aldamótum. „Eitt frægasta dæmið er einkavæðing bankanna árið 2002. Mér er minnisstæð hin fræga ljósmynd af framsóknarmönnunum Finni Ingólfssyni og Ólafi Ólafssyni hjá Samskipum, þar sem þeir voru sestir saman inn í bifreið, sigri hrósandi eftir að hafa fengið Búnaðarbankann á spottprís og með blekkingum. Þessi ljósmynd er áhrifamikil heimild um spillingu. Finnur Ingólfsson var þá forstjóri VÍS en hafði áður verið ráðherra og seðlabankastjóri. Hann var kenndur við Panamaskjölin. Ólafur Ólafsson fékk nokkurra ára fangelsisdóm fyrir ólöglega fjármálagjörninga í Al Thani-málinu,“ segir Katrín.

Þóttist vera Sjálfstæðismaður

Hún segir að afi sinni hafi lengi þóst vera Sjálfstæðismaður af ótta við að missa vinnuna ella. „Frá því að ég man eftir mér gerði fólk bara ráð fyrir að flokksskírteini tryggði mönnum frama, stöður og vinnu. Svo ekki sé talað um fyrirgreiðslu í bönkum og öðrum stofnunum samfélagsins. Fólk kvartaði auðvitað yfir þessari spillingu en þó hljóðlega af hættu við að missa vinnuna. Afi minn sálugi vann stærsta hluta ævi sinnar hjá bænum eins og það var kallað, eða Reykjavíkurborg,“ segir Katrín.

Hann gekk svo langt að mæta á fundi hjá flokknum. „Hann var verkamaður í hreinsunardeildinni og síðan á sóparanum, stórum bíl sem sýgur upp ruslið á götunum. Í vinnuskúrum þorðu menn ekki að segjast vera annað en sjálfstæðismenn og þeir þurftu helst að hafa flokksskírteini til taks. Afi fór með það eins og mannsmorð að hann væri vinstri maður. Þorði varla að minnast á það heima hjá sér. Svo römm var skoðanakúgunin. Hann sá sig meira að segja knúinn til að sækja fund hjá flokknum. Hann gat ekki átt á hættu að missa vinnuna enda fyrir mörgum munnum að sjá,“ segir Katrín.

Davíð hringdi

Hún rifjar svo upp atvik þegar frá því þegar hún starfaði sem blaðamaður. „Ég sjálf hef stærstan hlutann af minni starfsævi unnið sem blaða- og fréttamaður við allar tegundir fjölmiðla. Og ég hef ekki farið varhluta af ítökum Sjálfstæðisflokksins á þeim vettvangi. Davíð Oddsson var frægur meðal fjölmiðlamanna fyrir að nota völd sín til að hafa áhrif á umræðuna. Hann setti blaða-og fréttamenn í straff ef honum líkaði ekki það sem þeir miðluðu til almennings. Hann vissi alveg hvað það er erfitt að vera blaðamaður og hafa ekki aðgang að forsætisráðherra,“ segir Katrín.

Hún fullyrðir að Davíð Oddsson hafi svo eitt sinni hringt í sig. „Það er nánast ógerningur því svo mörg mál tengjast því embætti. Ég lenti í þessu sjálf og það var mjög erfitt. Eftir að ljóst varð að Sjálfstæðisflokkurinn missti meirihlutann í borginni til Reykjarvíkurlistans (bandalag miðju-og vinstri flokka) í kosningunum árið 1994 þá hringdi Davíð meðal annars í mig persónulega og vildi beint og óbeint kenna mér um kosningatapið því ég hafði í útvarpi sagt frá fréttnæmum atburðum á kjördag sem komu ekki vel út fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Seinna frétti ég að fleiri fjölmiðlamenn hefðu fengið slíkar upphringingar,“ segir Katrín.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dyraat hjá kennara endaði illa – Greip um úlnlið drengsins og dró hann að heimili sínu

Dyraat hjá kennara endaði illa – Greip um úlnlið drengsins og dró hann að heimili sínu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segja að herforingjar neiti að framfylgja fyrirmælum Pútíns

Segja að herforingjar neiti að framfylgja fyrirmælum Pútíns
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pútín gæti staðið frammi fyrir alvarlegum vanda á næsta ári

Pútín gæti staðið frammi fyrir alvarlegum vanda á næsta ári
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“