Gestur Guðnason gítarleikari lést 11. júlí eftir erfið veikindi, en hann hefði orðinn sjötugur 23. nóvember næstkomandi. Gestur var fæddur á Siglufirði.
Gestur var einn af stofnendum hljómsveitarinnar Eik árið 1972, sem er ein minnisstæðasta funkfusionsveit íslenskrar tónlistarsögu, en áður hafði hann starfað með hljómsveitinni Tatarar.
Samferðamenn Gests minnast hans á Facebook, á meðal þeirra er Stuðmaðurinn Jakob Frímann Magnússon, sem minnist hans sem merks og framsækins tónlistarmanns og fer hann yfir feril Gests á tónlistarsviðinu.
„Gestur var þekktur fyrir afar sérstæðan stíl. Hann lék á rafmagnaðan hálfkassagítar, hafði hátíðnisviðin í hávegum og leitaði jafnan ótroðinna slóða á gítarhálsinum með skapandi tilraunamennsku að leiðarljósi. Þá féll útlit hans vel að hippaárum ástar, friðar og djúpvitundar: Sítt og liðað rauðleitt hár og skegg, auk gleraugna og hippamussu gerðu þennan óvenjulega listamann auðþekkjanlegan hvar sem hann fór.“
Gunnar Waage trommuleikari minnist Gests sem eins af sínum bestu vinum og náttúruhæfileika hans á tónlistarsviðinu.
„Þá var Gestur einnig með alskemmtilegustu mönnum, hann bjó yfir persónutöfrum og manngæsku sem er vandfundin.“
Hlynur Jakobsson, tónlistarmaður og einn eigenda veitingastaðarins Hornið, segir að Gestur hafi verið hluti af 101, en Gestur vann um tíma á Horninu.
„Sumt fólk fylgir manni í lífinu þó svo að engin sérstök ástæða sé til og Gestur var einn af þeim.“
„Mikill karakter fallinn frá. Það var alltaf gaman að spjalla við hann þótt sjúkdómur hans hefði sannarlega leikið hann grátt. Hvíl í friði,“ skrifar tónlistarmaðurinn Flosi Þorgeirsson.
Geisladiskabúð Valda minnist Gests á Facebook-síðu sinni.
DV vottar vinum og aðstandendum Gests samúðarkveðjur.