fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fréttir

Yfirheyrslan: Karítas Harpa telur samskipti Tomma og Jenna byggð á misskilningi

Aníta Estíva Harðardóttir
Sunnudaginn 14. júlí 2019 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karítas Harpa Davíðsdóttir, söngkona og dagskrárgerðarkona, vann keppnina The Voice Iceland árið 2017 þegar hún söng sig inn í hug og hjörtu landsmanna. Síðan þá hefur Karítas verið áberandi í sviðsljósinu bæði sem einsöngkona en einnig með sönghópnum Fókus. Nýlega eignaðist Karítas sitt annað barn og eyðir nú dögunum í fæðingarorfi. Karítas er í yfirheyrslu vikunnar:

Hjúskaparstaða og börn?

Einn kærasti, Aron Leví Beck, og tveir synir; Ómar Elí (4 ára) og Hrafn Leví (8 vikna).

Fyrsta atvinnan?

Gott ef blaðburður hafi ekki verið mitt fyrsta launaða starf, en það entist reyndar ekki mjög lengi, það að vakna á undan öllum öðrum var ekki alveg fyrir mig.

Skemmtilegast að gera?

Syngja, tala og koma fram. Jú, og að hlæja, það er í miklu uppáhaldi hjá mér.

En leiðinlegast?

Mér þykir til dæmis einstaklega leiðinlegt að borða bragðlítinn mat. Verð mjög matsár og þykir máltíð og magaplássi sóað. Síðan hef ég ekkert svakalega gaman af borðspilum en ég segi fólki það reyndar helst ekki.

Trúir þú á drauga?

Ég hreinlega veit það ekki, ég get allavega ekki með vissu sagst alls ekki trúa á drauga. Ég held það sé alls konar til sem við kannski skiljum ekki eða sjáum ekki, en hvort það séu draugar veit ég ekki.

Leiðinlegasta húsverkið?

Þvotturinn, eða allt sem kemur á eftir því að setja í vél og kveikja, enda oft þurft að kveikja á sömu vél af þvotti eftir nokkra daga því mér leiðist svo það sem tekur við.

Hver er fyrirmynd þín í lífinu?

Ég á kannski ekki eina svona fyrirmynd heldur meira dáist ég að hlutum í fari mismunandi fólks og nýti fordæmi þeirra frekar sem einhvers konar fyrirmyndir í mismunandi hlutum, eins og til dæmis í móðurhlutverkinu horfi ég rosalega mikið upp til mömmu minnar.

Hvað er það erfiðasta sem þú hefur gert?

Líkamlega myndi ég segja að fæða barn, andlega að ala þau upp.

Hver myndi leika þig í kvikmynd?

Væri gaman ef það væri einhver skemmtileg tútta eins og til dæmis Kristen Wiig.

Hefur þú fallið á prófi?

Í skóla nei, húð og kyn já.

Fallegasti staður á landinu?

Það þykir mér óskaplega erfitt að segja, í fyrsta lagi hef ég bara ekki ferðast eins mikið innanlands og ég vildi hafa og í öðru lagi vil ég ekki særa einn stað með því að nefna annan, enda gífurlega meðvirk, en nýlega fórum við fjölskyldan á Austfirðina og var ég mjög hrifin af þeim, þar þótti mér Seyðisfjörður til dæmis alveg sérstaklega fallegur staður.

Heldur þú með Tomma eða Jenna?

Þá blossar meðvirknin aftur upp, ég held að samskipti þeirra séu bara byggð á misskilningi og þeir hafi báðir góða menn að geyma.

Hefur þú æft íþróttir?

Já, ég æfði áhaldafimleika í mörg ár með Gerplu og keppti meira að segja með landsliðinu á Evrópumóti í Hollandi á sínum tíma.

Fyrsta utanlandsferðin?

Ég flutti til Bandaríkjanna 5 mánaða svo ég flaug þá fyrst til útlanda.

Besta ráð sem þú hefur fengið?

Betra að prófa og mistakast en að prófa ekki og velta „hvað ef” fyrir þér það sem eftir er.

Áttu gæludýr?

Ekki í dag nei, en ólst upp með hundinum Kleinu og kettinum Pepsi Max (kallaður Max).

Eitthvað að lokum?

Bara, muna að njóta og forðumst kommentakerfin á fréttaveitum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Talaði Trump af sér?

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“

Hinn grunaði morðingi Mangione getur ekki stundað kynlíf en er orðinn kyntákn – „Svooooooo heitur“
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Fimmtungur veitingastaða sem Efling sendi bréf hafa sagt sig úr SVEIT

Fimmtungur veitingastaða sem Efling sendi bréf hafa sagt sig úr SVEIT
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum
Talaði Trump af sér?