fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Fréttir

Vafasöm vegferð Eflingar í nafni réttlætis – Krafa sem ekki virðist vera fyrir hendi

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 14. júlí 2019 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ekki fæst staðfest frá Eflingu að þrjú notendafyrirtæki starfsmannaleigunnar Menn í Vinnu, af þeim fjórum fyrirtækjum sem voru send kröfubréf vegna meintra vangoldinna launa rúmenskra starfsmanna, hafi greitt starfsmönnum samkvæmt kröfunni. Vinnumálastofnun getur heldur ekki staðfest eða hafnað því að umdeild ákvæði ráðningarsamnings, sem heimilaði frádrátt frá launum, hafi verið borið undir stofnunina án þess að athugasemdir hafi verið gerðar. Einnig hafa Samtök Atvinnulífsins véfengt réttmæti krafna Eflingar og starfsmanna Manna í vinnu.

Barátta Eflingar gegn starfsmannaleigum

Barátta Eflingar gegn starfsmannaleigunni Menn í vinnu (MÍV) hefur verið áberandi í fjölmiðlum undanfarið. Málið kom fyrst upp í kjölfar umfjöllunar fréttaskýringarþáttarins Kveiks í haust og svo aftur í febrúar þegar nokkrir rúmenskir starfsmenn MÍV stigu fram í fjölmiðlum ásamt fulltrúum verkalýðshreyfinga og sögðu farir sínar ekki sléttar. Síðan þá hefur Efling gengið hart fram gegn starfsmannaleigunni með það að markmiði að rétta hlut starfsmannanna, sem Efling telur að hafi í reynd verið í nauðungarvinnu fyrir MÍV og sýnd vanvirðandi framkoma. Vinnumálastofnun (VMST) hefur einnig látið málið sig varða og lagði í mars 2,5 milljóna króna stjórnvaldssekt á MÍV, sú ákvörðun var kærð til félagsmálaráðuneytis sem nú hefur kæruna til umfjöllunar.

Nýjustu vendingar

Ný vending átti sér svo stað á dögunum er fyrirtækið Eldum rétt var dregið inn í málið, en það leigði starfsmenn af leigunni í skamman tíma í byrjun árs. Efling hefur haldið því fram að Eldum rétt beri skylda til að rétta hlut Rúmenana á grundvelli nýs lagaákvæðis í lögum um starfsmannaleigur sem kveður á um svonefnda keðjuábyrgð.

Eldum rétt hefur borið því við að keðjuábyrgð nái ekki til fyrirtækisins. Starfsmenn hafi unnið að meðaltali í fjóra daga og þar með skemur en þá 10 daga sem þurfa að líða til að keðjuábyrgð verði virk. Þessari fullyrðingu hefur Efling hafnað, en gefur þó ekki upp hversu marga daga téðir starfsmenn eiga að hafa unnið fyrir Eldum rétt, en alls störfuðu þessir tilteknu starfsmenn aðeins í mánuð í heildina fyrir MÍV, eða frá 9. janúar til 7. febrúar.

Vinnumálastofnun brást seint við

MÍV hefur, líkt og áður segir, kært sektarákvörðun VMST til félagsmálaráðuneytis, sem hefur enn ekki úrskurðað í málinu. Skýrist það líklega að nokkru leyti af seinagangi VMST að bregðast við upplýsinga- og umsagnarbeiðnum ráðuneytisins sem þurfti að margítreka áður en VMST brást við. DV hefur undir höndum bréf ráðuneytisins til VMST dagsett 23. maí, þar sem vísað er til þess að um þriðju ítrekun á gagnabeiðni sé að ræða. Var VMST gefinn frestur til 31. maí til að senda umrædd gögn eða koma með skýringu á töfum.

Blaðamaður bar efni bréfsins undir Unni Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar, sem staðfesti að ráðuneytið hefði í þrígang þurft að ítreka beiðni sína á tímabilinu 5. apríl til 23. maí áður en VMST brást við. Í svari Unnar segir:

Félagsmálaráðuneytið óskaði eftir umsögn Vinnumálastofnunar um stjórnsýslukæru Manna í vinnu þann 5. apríl. Send voru ítrekunarbréf vegna þess erindis 6., 14. og 23. maí.  Umsögn stofnunarinnar var send ráðuneytinu þann 31. maí en það dróst því miður vegna mikilla anna. Ráðuneytið óskaði eftir afriti af ráðningarsamningum þann 11. júní sl. og voru þeir sendir ráðuneytinu í síðustu viku.

Þarna minnist Unnur á ráðningarsamninga sem VMST hafði undir höndum, en samkvæmt heimildarmönnum DV var staðlaður ráðningarsamningur sem MÍV studdist við eftir umfjöllun Kveiks sendur til Vinnumálastofnunar í haust en VMST hafi engar athugasemdir gert. Í samningnum má finna ákvæði sem heimilar MÍV að draga frá launum starfsmanns kostnað meðal annars vegna leigu, flugmiða, bílaleigubíls og fleira, en Efling heldur því fram að það ákvæði sé ólöglegt og ósanngjarnt. Þegar blaðamaður bað Unni að staðfesta að VMST hefði engar athugasemdir gert við ráðningarsamninginn gat hún þó ekki svarað:

Vinnumálastofnun getur ekki tjáð sig um einstök mál eða einstök gögn sem henni berast í tengslum við framkvæmd og eftirlit með hinum ýmsu lögum. Því er ekki unnt að svara þessari spurningu.

Gátu ekki staðfest að önnur fyrirtæki hefðu greitt

Samkvæmt yfirlýsingum Eflingar var Eldum rétt eina fyrirtækið af þeim fjórum sem fengu send kröfubréf, sem sýndi ekki samstarfsvilja, en samkvæmt heimildum DV hafa hin þrjú fyrirtækin ekkert greitt. Hvorki Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, né Birkir Már Árnason, lögmaður Réttar, sem annast málið fyrir hönd Eflingar, gátu staðfest að slíkar greiðslur hefðu átt sér stað. Viðar vísaði á lögmann Réttar og lögmaður Réttar kvaðst ekki geta veitt upplýsingar sökum þagnarskyldu.

Í tilkynningu Eflingar, sem var gefin út í byrjun mánaðar segir: „Fjögur notendafyrirtæki fengu slíka kröfu. Þrjú þeirra féllust á hana án andmæla en aðeins Eldum rétt hafnaði.“ Viðar skrifaði svo í pistli í Fréttablaðinu í vikunni sem leið:  „Af fjórum notendafyrirtækjum svöruðu þrjú þeirra innan uppgefins frests og sýndu fullan samstarfsvilja. Því ber að fagna og er það vonandi til marks um hið almenna viðhorf flestra íslenskra fyrirtækja til brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Fyrri yfirlýsingin á vef Eflingar gefur sterkt til kynna að kröfurnar hafi verið greiddar þótt það sé ekki sagt berum orðum. Heldur frábrugðið er orðalag í grein Viðars sem talar þar um fullan samstarfsvilja, en ekki um að fallist hafi verið á kröfurnar.

Röng fullyrðing og gagnrýnisvert athæfi

Blaðamaður bar kröfur Eflingar undir Samtök Atvinnulífsins og í skriflegu svari frá því í júní segir að krafan í kröfubréfinu sé: „svo óskýr að engin vegur var að taka afstöðu til hennar“.

„Í [kröfu]bréfinu var með vísan til laga um greiðslu verkkaups því haldið fram að allur frádráttur frá launum teldist ólögmætur. Þetta er röng fullyrðing og er gagnrýnisvert að lögmaður stéttarfélags sendi frá sér, gegn betri vitund, fullyrðingu um meint lögbrot starfsmannaleigu með það að markmiði að fá þriðja aðila til að greiða kröfu sem ekki virðist vera fyrir hendi.“

Enn fremur:

„Samábyrgð á launum skv. lögum um starfsmannaleigur nær til vangoldinna lágmarkslauna og annarra vangoldinna launaþátta. Ábyrgðin nær þó ekki til vangoldinna orlofslauna. Í lögum um starfsmannaleigur er sú krafa gerð að starfsmaður starfsmannaleigu geri notendafyrirtæki grein fyrir í hverju vanefnd starfsmannaleigunnar hefur falist, m.a. hvenær krafan féll í gjalddaga. Krafa skv. bréfi lögmanns Eflingar var hins vegar svo óskýr að enginn vegur var að taka afstöðu til hennar.“

Átti Eldum rétt að greiða því fyrirtækinu gengur vel?

Í yfirlýsingum sem Efling hefur sent frá sér vegna þáttar Eldum rétt í málinu hefur Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, lýst yfir undrun sinni á því að Eldum rétt hefði ekki gengið að kröfunum þar sem fyrirtækið hefði hagnast umtalsvert á síðasta ári. Engin lagaákvæði skylda fyrirtæki þó til að greiða kröfur athugasemdalaust á grundvelli velmegunar. Á vef Eflingar segir í færslu frá 6. júlí :„Sáttatilboði upp á 4 milljónir hafnað þrátt fyrir ofurhagnað Eldum rétt“.

Ekki er  ljóst hvaða orsakasamhengi Efling telur vera á milli hagnaðar Eldum rétt, sem átti sér stað áður en fyrirtækið gekk til samninga við MÍV, og þeirra krafna er í stefnu greinir.

Fullt erindi til að efast um kröfurnar

Hvorki Efling né lögmaður Réttar gátu staðfest að önnur fyrirtæki í viðskiptum við MÍV hafi greitt kröfur starfsmannanna, en samkvæmt  heimildarmönnum blaðamanns hafa engar slíkar greiðslur átt sér stað.

Vinnumálastofnun hvorki hafnar því né staðfestir að ráðningarsamningur með umdeildu frádráttarákvæði hafi borist þeim til samþykktar og engar athugasemdir gerðar. Kröfurnar eru afar umdeildar og greinir til að mynda lögmenn Eflingar og lögmenn Samtaka atvinnulífsins, sem og lögmenn Eldum rétt, á um réttmæti þeirra

Mörgum spurningum er enn ósvarað í þessu máli og verður afar fróðlegt að fylgjast með áframhaldinu þegar og ef málið verður tekið til dóms.. Það ætti því ekki að sæta furðu að Eldum rétt hafi kosið að láta reyna á lögmæti krafnanna fyrir dómi, fremur en að greiða í blindni bara vegna þess að Efling sagði þeim að gera það.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Eiginkona Assads sögð ætla að sækja um skilnað

Eiginkona Assads sögð ætla að sækja um skilnað
Fréttir
Í gær

Siggi lýsir fyrstu jólunum án sonarins sem lést á árinu – „Maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið“

Siggi lýsir fyrstu jólunum án sonarins sem lést á árinu – „Maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir