„Það er galið að bera saman endurhæfingu og bráðamóttöku og láta eins og hér hafi skapast eitthvert neyðarástand af því geðlæknirinn er farinn,“ segir Ingi Þór Jónsson markaðsstjóri Heilsustofnunar í Hveragerði, í samtali við DV, og ítrekar að engum sjúkraplássum fyrir fólk með geðræn vandamál hafi verið lokað þó að eini geðlæknir stofnunarinnar sé hættur störfum. Haraldi Erlendssyni, fyrrverandi forstjóra og yfirlækni stofnunarinnar, var fyrirvaralaust gert að skrifa undir starfslokasamning undir lok síðasta mánaðar. Haraldur var jafnframt eini geðlæknir stofnunarinnar. Af þessum sökum hafa verið tjáðar efasemdir um að stofnunin sé að uppfylla þjónustusamning sinn við Sjúkratryggingar ríkisins þar sem ákvæði er um að fimmtungur greiðslunnar fari í geðþjónustu.
„Hér hefur verið endurhæfing á þessu sviði í áratugi þó að ekki hafi verið starfandi geðlæknir og hér er fullt af góðu fagfólki sem sinnir þessum málefnum,“ segir Ingi Þór.
Hann segir að starfsfólk hafi fengið að vita að áherslumunur væri milli stjórnar og Haraldar um framtíðarstefnu Heilsuhælisins og því hafi hann látið af störfum.
DV hefur rætt stuttlega við þrjá sjúklinga sem notið hafa dvalar á Heilsuhælinu og lýsa þeir allir brottrekstri Haraldar sem óvæntri uppákomu sem hafi valdið uppnámi meðal sjúklinga sem njóta geðþjónustu á staðnum. Sjúklingarnir koma hér ekki fram undir nafni.
„Þegar einhver er rekinn svona fyrirvaralaust er fyrsta hugsunin sú að hann hafi brotið af sér en það var aldeilis ekki raunin. Hann hafði ekkert brotið af sér, þetta var bara pólitík,“ segir kona greind með ADHD sem var í meðferð hjá Haraldi. Hún segir að algjör þögn hafi ríkt um þennan óvænta brottrekstur og við slíkar aðstæður fari eðlilega að kvisast út sögur. Sjálf segir hún að þetta hafi komið sér illa fyrir hana en sem betur fer sé hún með annan geðlækni.
„Ég fór í útskriftarviðtal hjá Haraldi á fimmtudegi, sama dag og hann var látinn fara, hann var kallaður á fund um kvöldið og fékk einhverjar mínútur til að taka saman dótið sitt. Ég frétti af þessu undir hádegi á föstudeginum. Ég var að byrja í lyfjameðferð hjá honum sem hann ætlaði að fylgja eftir og hann mælti með því að ég kæmi síðan aftur að hálfu ári liðnu í Hveragerði,“ segir konan.
Hún lauk sinni dvöl á mánudeginum, í vikunni eftir brotthvarf Haraldar, og í kjölfarið segist hún hafa fengið símtal frá lækni á staðnum:
„Þetta var skrýtnasta símtal sem ég hef átt. Mér er sagt að það verði bið á að hægt verði að halda meðferðinni áfram en allir pappírar verði sendir heim til mín í minn heimabæ og læknar þar beri ábyrgð á meðferðinni hér eftir. Ég benti lækninum á að læknarnir í minni heimabyggð hefðu engar forsendur til að halda meðferðinni áfram. Þá var mér bara svarað sem svo að það væri leiðinlegt að ég hefði lent í þessu. Skilaboðin voru eiginlega þau að ég væri ekki á þeirra ábyrgð og þeim væri alveg sama hvað yrði um mig,“ segir konan.
„Við getum sagt að þetta sé dvöl en ekki meðferð af því það er engin meðferð í gangi. Það er enginn geðlæknir hérna lengur,“ segir maður með geðhvörf sem dvelst núna á heilsuhælinu.
„Ég átti von á hnitmiðaðri nálgun. Ég lagðist hérna inn í vikunni sem Haraldi var sagt upp, ég fór í innskriftarviðtal við hann en svo næsta dag kom í ljós að hann hafði verið rekinn.“
Maðurinn tekur þó fram að hann sé ekki ósáttur við dvölina, um hana sé margt gott að segja og starfsfólkið gott. Hann sé auk þess með annan geðlækni og hann sé ekki í vandræðum.
„Ég er mjög sáttur við allt starfsfólkið hérna en þetta er dálítið öðruvísi en ég hélt það yrði,“ segir maðurinn.
Kona sem Haraldur greindi með ADHD eftir að hún hafði lagst inn á heilsuhælið í verkjameðferð segist hafa tilkynnt málið til landlæknis. „Ef ég hefði ekki haft geðlækni sjálf þá væri ég í vandræðum en ég veit um aðra sem hafa ekki geðlækni og eru mjög kvíðnir,“ segir konan.
Konan fer fögrum orðum um Harald en greining hans á henni voru tímamót í lífi hennar. „Ég greinist núna 45 ára gömul með ADHD og fæ allt í einu von eftir að hafa stöðugt verið lamin niður fyrir að ráða ekki við þetta. Þarna fékk ég svör frá Haraldi og það var afskaplega vel staðið að greiningunni.“
Konan vænti eftirfylgni Haraldar og því eru hennar mál að nokkru leyti í uppnámi. „Ég bíð bara eftir því að Haraldur opni stofu,“ segir konan og lofar lækninn í hástert.
Hún segir jafnframt að brotthvarf hans hafi verið afar óvænt en þó hafi verið farnar að kvisast út sögur um að hann væri að hætta:
„Ég spurði hann meira að segja á fimmtudeginum hvort hann væri nokkuð að hætta og hann sagði nei, ekki sér vitanlega. Hann var þá að undirbúa fyrirlestur sem hann ætlaði að halda morguninn eftir. En svo var hann látinn hætta um kvöldið. Morguninn eftir var bara sagt að fyrirlestrinum hefði verið aflýst. Þegar ég spurðist fyrir á vaktinni um þetta var engin svör að hafa og mér var bara sagt að hafa samband við Harald sjálfan.“
Stjórnarformaður Heilsuhælisins með 1,2 milljónir á mánuði
Heilsuhælið lokar fyrir geðþjónustu