Ásgeir Bachmann, framkvæmdastjóri byggingarvöruverslunarinnar Bauhaus, segir að verslunin hafi í vor leitað til lögreglu vegna gruns um að tilteknir menn hafi stundað þjófnað úr versluninni. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag en blaðið greindi frá því í gær að tveir menn væru grunaðir um þjófnað úr versluninni.
Í tilkynningu vegna málsins segir:
„Athugun lögreglu á málinu leiddi svo til handtöku þeirra og nokkurra húsleita. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stjórnaði þeirri aðgerð og fer ákæruvaldið nú með meðferð málsins.“
Í umfjölluninni kemur fram að Bauhaus treysti því að málið verði upplýst. „Þá verði þeir aðilar sem áttu í hlut ákærðir vegna brota sinna en félagið varð fyrir umtalsverðu tjóni sökum háttsemi þeirra,“ segir Ásgeir í tilkynningunni.
Tilkynning framkvæmdastjórans kemur ekki heim og saman við heimildir DV. DV fékk vísbendingar um þjófnað úr Bauhaus í vetur en þær vísbendingar fengust ekki staðfestar hjá lögreglu. Í apríl fékk DV þau svör frá lögreglu að rannsókn stæði yfir á þjófnaði úr byggingarvöruverslun en vildi ekki staðfesta að um Bauhaus væri að ræða. Var það um tveimur mánuðum eftir að DV fékk fyrst veður af málinu.
Bauhaus hefur neitað að svara fyrirspurnum fjölmiðla um málið þar til nú.
Annar mannanna er starfsmaður í versluninni og er um að ræða þjófnað á vörum úr versluninni upp á margar milljónir. Afbrotin munu hafa staðið yfir lengi. Starfsmaðurinn var leiddur út úr versluninni af lögreglu í augsýn annarra starfsmanna.