fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fréttir

Heilsuhælið lokar fyrir geðþjónustu en þiggur stórfé fyrir hana – „Þeir eru að taka óeðlilega mikið út úr rekstrinum“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 9. júlí 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óvæntar og furðulegar vendingar hafa orðið í rekstri Heilsustofnunar í Hveragerði sem í daglegu tali gengur undir nafninu Heilsuhælið í Hveragerði. Gunnlaugur K. Jónsson stjórnarformaður hefur fengið greiddar 1,2 milljónir á mánuði frá stofnuninni fyrir stjórnarsetu og skyld verkefni til hliðar við fast starf sem yfirmaður í lögreglunni.  Forstjóri stofnunarinnar, Haraldur Erlendsson, var nánast fyrirvaralaust látinn skrifa undir starfslokasamning í vor og í því samkomulagi er fólgin þagnarskylda um málefni félagsins. Nýráðinn aðstoðarmaður hans, Einar Bergmundur Þorgerðarson Bóasarson, kom sér hins vegar undan þagnarskylduákvæði og tjáði sig um málið við DV í dag. DV hefur einnig rætt við framkvæmdastjóra Geðhjálpar, Önnu Gunnhildi Ólafsdóttur, sem er afar ósátt við stöðu sinna skjólstæðinga eftir að Heilsustofnunin lokaði fyrir geðþjónustu í vor, þó að stofnunin fái háar fjárhæðir greiddar frá Sjúkratryggingum ríkisins fyrir þjónustu við fólk með geðræn vandamál.

Fjallað er um málefni Heilsustofnunar í nýjasta tölublaði Stundarinnar og DV endursagði frétt Stundarinnar á sunnudag.

Fá 175 milljónir fyrir geðþjónustu sem er ekki veitt

Margir skjólstæðingar Geðhjálpar hafa miklar áhyggjur eftir að Heilsustofnunin lokaði fyrirvaralaust fyrir þjónustuna í vor en nú starfar enginn geðlæknir hjá stofnuninni. Nýlega endurnýjaði Heilsustofnun samning sinn við Sjúkratryggingar ríkisins sem veitir stofnuninni 875 milljónir króna á ári fyrir hefðbundnar lækningar. Einn fimmti af því, 20%, eiga að fara í þjónustu við fólk með geðræn vandamál, eða samtals 20 sjúkrarúm. Framkvæmdastjóri Geðhjálpar, Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, segir lokunina vera á skjön við samning stofnunarinnar við Sjúkratryggingar ríkisins og kallar hún eftir því að annar aðili verði fenginn til að veita þjónustuna:

„Okkar fólk hefur gríðarlega góða reynslu af þjónustunni hjá Heilsustofnuninni sem hefur verið sveigjanleg og fólk hefur getað komið þarna og dvalist frá tveimur vikum og upp í tólf vikur. Í síðasta samningi Heilsustofnunar við Sjúkratryggingar Íslands var ramminn þrengdur og staðlaður þannig að þetta fer niður í fjórar vikur fyrir hvern einstakling. Það þykir okkur vera neikvætt. Af því sumir þurfa bara tvær vikur á meðan aðrir þurfa fjórar vikur eða jafnvel lengri tíma, eðli sjúkdómsins vegna. Þess vegna er sveigjanleiki mikilvægur.

Samkvæmt nýjum samningi Heilsustofnunarinnar við Sjúkratryggingar er gert ráð fyrir að stofnunin fái 875 milljónir króna frá ríkinu. Af því eiga 20 prósent að fara til þess að kosta þessi 20 rúm sem ætluð eru fyrir sjúklinga með geðræn vandamál. Núna vorum við hins vegar að fá þau tíðindi að það væri búið að segja yfirlækninum og forstjóranum upp störfum og þetta gerist að sumri til þegar eru lokanir á sjúkrahúsum og samdráttur í þjónustu við okkar skjólstæðinga annars staðar. Þetta bætir ofan á það og skapar gríðarleg óþægindi.“

Geðhjálp lítur málið mjög alvarlegum augum og segir Anna að það sem nú sé í uppsiglingu megi ekki gerast. Þá verði annar aðili að veita þjónustuna:

„Við höfum líka áhyggjur af því að þetta verði endanleg lokun á frábæru úrræði. Það viljum við ekki sjá, því það er langur biðlisti inn í þjónustuna og ef Heilsustofnunin ætlar ekki að veita þessa þjónustu þá finnst mér eðlilegt að þetta fjármagn fari til einhvers annars aðila sem er í stakk búinn til að veita hana. Mér finnst þetta mjög alvarlegt og hef miklar áhyggjur af því að stjórnin ætli sér að hætta með þessa þjónustu sem er á skjön við samninginn. Ég hvet Sjúkratryggingar að skoða málið og sjá til þess að ef það á ekki að veita þessa þjónustu þarna þá verði hún veitt annars staðar. Þessi hópur á undir högg að sækja í samfélaginu og það vita allir. Þörfin er gríðarleg og svona má bara ekki gerast.“

Einar Bergmundur segir allt of mikið fé tekið úr rekstrinum

Eins og áður segir var forstjóri Heilsustofnunar, Haraldur Erlendsson, látinn skrifa fyrirvaralaust undir starfsflokasamning í vor og gangast undir þagnarskyldu. Einar Bergmundur forritari átti að taka við starfi aðstoðarmanns hans en hann var líka látinn skrifa undir starfslokasamning. Einar Bergmundur kom sér hins vegar undan þagnarskyldu og tjáir sig frjálslega um málefni stofnunarinnar sem hann telur vera komin í ógöngur.

„Mín starfsflok voru gerð í flýti í tölvupósti og símleiðis og minn starfslokasamningur fól það einfaldlega í sér að ég léti af störfum hjá stofnuninni og fengi greidd laun í þrjá mánuði án vinnuskyldu. En svo átti að kalla mig til fundar til að skrifa undir annan samning. Ég spurði hvort sá samningur væri samhljóða því sem ég hefði samþykkt og þeir sögðu já. Ég sagðist þá vilja fá samninginn sendan í tölvupósti en það voru einhverjar á vöfflur þeim með það. Ég sagði að þetta væri plagg sem ég ætti að skrifa undir og því hlyti ég að geta fengið hann í tölvupósti.“

Einar segir að þagnarklásúlan í samningnum hafi verið óvenjuleg:

„Ég er tölvunarfræðingur og hef unnið víða sem slíkur. Ég veit því vel hvað þagnarskylda er. En þessi þagnarskylda var þannig að ef ég hefði verið að svara þér sem blaðamanni samkvæmt henni þá hefði ég hvorki getað játað né neitað því að hafa unnið hjá Heilsustofnuninni í Hveragerði og hvorki játað né neitað því að ég vissi að sú stofnun væri til.“

Stjórnarstörf af þessu tagi vanalega ólaunuð

Stundin greinir frá því að árið 2017 hafi 40 milljónir króna runnið frá Heilsustofnuninni til móðurfélagsins, Náttúrulækningafélags Íslands, fyrir húsaleigu og annað. Þá hafa laun stjórnarformannsins Gunnlaugs K. Jónssonar vakið athygli en hann þáði árið 2018 1,2 milljónir á mánuði fyrir stjórnarsetu og önnur verkefni samhliða fullu stjórnunarstarfi sínu hjá lögreglunni í Reykjavík.

„Þeir eru að taka óeðlilega mikið út úr rekstrinum,“ segir Einar Bergmundur um þessi fjárútlát og bendir á að stjórnarseta í félagasamtökum sé vanalega ólaunuð.

„Þeir hafa verið að vinna í hliðarverkefnum sem eru ótengd þessum rekstri en greitt fyrir af ríkinu og með dvalargjöldum gesta, en þau eru 20% af veltunni. Af þessum peningum hafa þeir verið að taka húsaleigu í gegnum annað félag og þessi gríðarlega háu laun fyrir stjórnarsetu. Yfirleitt er stjórnarseta í félagasamtökum ólaunuð en einstaka sinnum fá formenn aktífra samtaka greidda einhverja þóknun fyrir akstur og símakostnað og fyrir þennan tíma sem fer í að svara fréttamönnum og þess háttar, kannski 100-150 þúsund á mánuði – en engin eiginleg laun.“

Að mati Einar Bergmundar er samningur Heilsustofnunar við Sjúkratryggingar ríkisins brostinn:

„Þeir hafa ekki getað lýst neinni stefnu varðandi þá þjónustu sem ríkið er að greiða fyrir. Mitt hlutverk átti að vera að takast á við ýmislegt sem þarf til að uppfylla þennan samning, varðandi til dæmis mælingar og persónuverndarmál, sem til dæmis þarf að takast á við samkvæmt nýjum lögum. Það vantaði augljóslega mann með mína þekkingu þarna inn og Haraldur hafði verið að berjast fyrir þeirri stöðu í heilt ár en menn drógu alltaf lappirnar. Svo er þetta allt sprengt upp í loft í vor og sú vinna sem við Haraldur vorum búnir að leggja í undirbúning er nú bara í minni vörslu og nýtist engum. Ég læt hana ekki af hendi.“

Af framansögðu virðist ljóst að mikið vantar upp á að Heilsustofnunin í Hveragerði sé að uppfylla þann samning sem á að veita stofnuninni 875 milljónir króna árlega frá Sjúkratryggingum ríkisins.

 

Sjá einnig:

Stjórnarformaður Heilsuhælisins með 1,.2 milljónir á mánuði

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?
Fréttir
Í gær

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt
Fréttir
Í gær

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti