fbpx
Miðvikudagur 13.nóvember 2024
Fréttir

Sviðin jörð Auðar á Tenerife: „Það þarf að stoppa hana“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 6. júlí 2019 10:00

Auglýsingar Auðar á hinum ýmsu síðum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslensk kona, sem heitir Auður Ólafsdóttir og virðist hafa verið búsett á Tenerife síðan í fyrra, er sökuð um að svíkja íslenska ferðalanga á eyjunni. Hún hefur rekið Facebook-síðuna Tenerife Leigumiðlun þar sem hún hefur boðið húsnæði til leigu og verið dugleg að deila auglýsingum inn í íslenska Facebook-hópa. Hún virðist því hafa einblínt á að markaðssetja íbúðirnar til Íslendinga og flestar auglýsingar frá leigumiðluninni á erlendum síðum, til dæmis Gloopla, eru á íslensku.

Svikin loforð

Það var innanhússarkitektinn Gunnhildur Guðnýjardóttir sem vakti fyrst máls á meintum svikum Auðar, sem kallar sig Audi Auo á Facebook. Guðný skrifaði langa Facebook-færslu þar sem hún lýsti fríi sem hún fór í með fjölskyldu sinni til Tenerife í nóvember 2018. Hópurinn samanstóð af sjö fullornum, einum unglingi og tveimur börnum. Hópurinn leigði sér villu í gegnum Auði. Greiddu þau tæpa hálfa milljón fyrir eina viku, en villunni var lýst sem lúxushúsnæði. Gunnhildur segir að Auður þessi hafi tekið á móti hópnum daginn sem þau lentu í Tenerife og látið þau vita að þau gætu ekki gist í húsinu vegna leka sem hafði komið upp tveimur dögum áður. Hópnum var í staðinn boðin gisting í tveimur húsum sem áttu að vera steinsnar frá hvort öðru.

Svikin Gunnhildur Guðnýjardóttir segir farir sínar ekki sléttar. Mynd: Skjáskot Stöð 2

„Þetta fékk svolítið á okkur en ákváðum að láta á þetta reyna og vera jákvæð enda mætt í frí. Í ljós kom að það var tæplega 10 mínútna gangur á milli húsanna og ekkert af því sem hafði verið lofað var til staðar í þessum húsum nema rúm til að sofa í og aðgangur að sundlaug, við gátum ekki einu sinni setið öll saman og borðað þar sem ekki var nóg af stólum og borðbúnaði. Í hvorugu húsinu var loftkæling sem við vorum þó búin að borga fyrir,“ skrifar Gunnhildur í Facebook-færslu, en hún sagði einnig sögu sína í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrir stuttu.

Hópurinn var ekki ánægður með þessa reddingu og tjáði Auði það. Þá segir Gunnhildur að Auður hafi reiðst og verið dónaleg. Hópurinn ákvað að leita að hentugu húsnæði á Airbnb og fann eitt sem uppfyllti allar þeirra kröfur. Þau létu Auði vita sem sagðist þá vera búin að finna aðra, mun dýrari íbúð fyrir hópinn. Þegar hópurinn fékk sendar myndir af eigninni kom í ljós að þetta var sama íbúðin og þau höfðu fundið á Airbnb, nema á þeirri síðu var verðið talsvert hagstæðara. Þegar hópurinn sagði Auði það reiddist hún á nýjan leik, að sögn Gunnhildar, en samþykkti loks að borga íbúðina fyrir hópinn. Það loforð var hins vegar svikið.

„Við greiddum fyrir síðari íbúðina úti sem við dvöldum í það sem eftir lifði af fríinu og gerðum ráð fyrir endurgreiðslu frá henni, enda með skriflega staðfestingu á loforði þar um. Enn þann dag í dag höfum við ekki fengið krónu endurgreidda af þeirri tæplega hálfu milljón sem við greiddum henni fyrir „villuna“ og hún borgaði aldrei Airbnb íbúðina, þannig að þegar upp er staðið greiddum við tæplega 750.000 kr. fyrir húsnæði í eina viku á Tenerife.“

Fullt af símanúmerum – ekkert svar

DV hefur haft samband við aðra sem hafa leigt íbúðir í gegnum Auði og þeir hafa sömu sögu að segja. Þar sem þeirra mál eru í ferli hjá lögfræðingi hafa þessir aðilar ekki viljað tjá sig við blaðið.

Brask Dæmi um auglýsingar Auðar á Brask og brall. Mynd: Skjáskot Facebook

Facebook-síða Tenerife Leigumiðlunar hefur verið lokað en enn er hægt að finna auglýsingar um húsnæði á Tenerife á snærum Auðar á fyrrnefndri vefsíðu Gloopla. Allar eignir til leigu eru á Adeje-ströndinni á suðvesturhluta Tenerife. DV hefur ítrekað reynt að ná sambandi við Auði, bæði í gegnum tölvupóst, síma og Facebook. Nokkur símanúmer eru tengd henni, bæði íslensk og spænsk. Eitt af íslensku númerunum sem DV prófaði virtist vera ótengt og þegar hringt var í spænskt númer, sem gefið er upp á Gloopla, fór símtalið beint í talhólf. Kona sem talaði bjagaða ensku svaraði í eitt af íslensku númerunum sem DV prófaði. Þegar blaðamaður spurði um Auði var honum sagt að hún gæti ekki svarað í símann þar sem hún lægi á sjúkrahúsi. Svo fór, eftir að DV fór í prentun á fimmtudagskvöld, að Auður hafði samband og sagðist ekki ætla að tjá sig um málið. Líkti hún umfjöllun fjölmiðla við opinbera aftöku og staðfesti að hún hefði legið á sjúkrahúsi síðustu daga. Samkvæmt upplýsingum á Gloopla var Auður í samstarfi við aðra síðu á Facebook, Vacation in Tenerife – Holiday Homes. Þeirri síðu hefur einnig verið lokað.

Leigumiðlunin Skjáskot af Tenerife Leigumiðlun á Facebook áður en síðunni var lokað.

Langur sakaferill

Prófílmyndin Þessa mynd notar Auður á Facebook. Mynd: Skjáskot Facebook.

Samkvæmt Facebook hélt Auður utan um Facebook-sölusíðuna Fegurð & Skart þar til í apríl í fyrra. Síðan er enn opin en engin virkni hefur verið á henni síðan 28. apríl í fyrra. Nokkrum dögum fyrr, eða þann 23. apríl, auglýsti Fegurð & Skart sölu á ýmsum varningi, bæði fötum og snyrtivörum, þar sem allt átti að seljast. Auður á nokkurn sakaferil á baki. Hún var svipt ökuréttindum ævilangt árið 2017 og dæmd í níu mánaða fangelsi þegar hún var dæmd fyrir að keyra undir áhrifum áfengis og búðarhnupl. Í dómnum kemur fram að þetta var í áttunda sinn sem Auður var fundin sek um að aka undir áhrifum áfengis og í sjöunda sinn sem hún var fundin sek um að aka án ökuréttinda.

DV hefur haft samband við nokkra íbúa á Tenerife sem kannast ekki við Auði og hafa einungis heyrt af meintum svikum hennar í fréttum. Einn íslenskur fyrirtækjaeigandi á Tenerife sagðist telja að Auður hefði ekki tengst Íslendingasamfélaginu á Tenerife, sem er frekar stórt, þar sem fæstir könnuðust við hana. Sagði hann afar brýnt að stöðva svikamyllu hennar ef satt reynist.

„Það þarf að stoppa hana þvi hún eyðileggur fyrir öllum þeim Íslendingum sem eru að gera góða og heiðalega hluti hér,” sagði fyrirtækjaeigandinn í samtali við DV.

Leigusvik algeng

Leigusvik á Tenerife eru afar algeng og talið er að tíu til fimmtán falskar auglýsingar svikahrappa birtist á hinum ýmsu leigusíðum á hverjum degi. Á vefsíðunni My Tenerife Report er að finna lista yfir vefsíður sem ber að varast og er sá listi uppfærður reglulega. DV hafði samband við Peter Sarkis hjá My Tenerife Report sem kannaðist ekki við starfsemi Auðar. Samkvæmt vefsíðunni Schofields er talið að ferðalangar á Tenerife hafi verið sviknir um 6,7 milljónir punda, rúman milljarð króna, í gegnum leigusvik árið 2018.

Svikarar nota flestir svipaðar aðferðir. Auglýsa húsnæði sem er ekki til staðar, hakka sig inn í aðrar sölusíður og ná þannig sambandi við væntanlega leigjendur og biðja um millifærslur gegn ríflegum afslætti. Þetta ber að varast þegar húnsæði er leigt á Tenerife:

• Aldrei greiða með millifærslu, hvorki hluta né alla upphæðina. Ávallt nota kredit- eða debetkort til að tryggja að hægt sé að bakfæra færsluna ef upp kemst um svik.
• Spyrjist fyrir og leitið að ummælum um eignina sem þið hafið áhuga á.
• Biðjið um leigusamning – það verndar bæði leigusala og leigjanda.
• Talið við leigusalann í síma. Ef leigusali er ekki með skráð símanúmer á síðunni sinni er það áhyggjuefni.
• Ef þið finnið íbúð í gegnum viðurkennda bókunarsíðu, eins og Airbnb, Booking eða Hotels, og aðili hefur samband við þig og biður um að hafa samskipti utan síðunnar og að greiðslan fari ekki í gegnum viðurkenndu bókunarsíðuna þá er líklegast um svik að ræða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Segir að Kristrún hafi tekið Stefán Einar í kennslustund

Segir að Kristrún hafi tekið Stefán Einar í kennslustund
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Nú er komið að ögurstundu – Verða ESB og Úkraína ein gegn Rússlandi?

Nú er komið að ögurstundu – Verða ESB og Úkraína ein gegn Rússlandi?
Fréttir
Í gær

Birtir dæmi úr kommentakerfinu og spyr hvað þurfi til að fólk fatti spillinguna

Birtir dæmi úr kommentakerfinu og spyr hvað þurfi til að fólk fatti spillinguna
Fréttir
Í gær

Spyr hvort „Barna­verndarpáfinn“ sé hafður í felum – „Meðan kjallarinn morknar verður íburðurinn alltaf meiri í risinu“

Spyr hvort „Barna­verndarpáfinn“ sé hafður í felum – „Meðan kjallarinn morknar verður íburðurinn alltaf meiri í risinu“