„Lífsstílstengdir sjúkdómar leiða til 86 prósenta allra dauðsfalla á Vesturlöndum. Rekja má um 70 til 80 prósent af öllum heilbrigðiskostnaði til þeirra,“ segir Guðrún Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur, í pistli í Fréttablaðinu.
Guðrún skrifaði meistararitgerð í lýðheilsufræðum við Háskóla Íslands sem nefnist: Skattlagning og niðurgreiðsla matvæla – Áhrif á neysluhegðun.
Guðrún bendir á að yfir 60 prósent Íslendinga eru yfir kjörþyngd. Auk þess glími um 20 prósent þjóðarinnar við offitu. „23 þúsund landsmanna eru með sykursýki og um 80.000 með hækkaðan blóðsykur.“
Ástæða þessa er neysla orkuríkrar en næringasnauðrar fæðu auk aukinnar kyrrsetu. „Tölurnar sýna að rúmlega helmingur þjóðarinnar er á heilsufarslegum yfirdrætti. Fáir virðast tilbúnir að horfast í augu við skuldadaga.“
Íslendingar sýni það best sjálfir að þeim sé ekki treystandi til að gæta hófs í sykurneyslu. Öll rök gegn sykurskattinum sem fjalli um forræðishyggju og afskipti af frelsi falli því um sjálf sig. Hún hafnar einnig þeim rökum að sykurskatturinn hafi verið reyndur hérlendis, en ekki haft árangur sem skyldi. Tilraunaverkefnið hafi verið meingallað. Bæði hafi tíminn verið of skammur til að meta raunveruleg áhrif, sem og hafi skattlagningin verið hreinlega of lág til að neytandinn fyndi fyrir honum.
Sykurskatturinn áformaði sé hreinlega: „Einfaldlega hluti af neyðarúrræðum stjórnvalda til að bregðast við heilsufarslegu gjaldþroti Íslendinga. Vandinn er stærri en kílóverðið á nammibarnum. Raunveruleikinn er sá að stór hluti þjóðarinnar ræður ekki við núverandi aðgengi að sykruðum og óæskilegum matvælum“
Íslendingar hafi sjálfir skert eigið frelsi með öfgafullri neyslu á sykruðum matvælum og þar með haft neikvæð áhrif á eigin andlega, líkamlega og félagslega heilsu sína. Sykurskatturinn er engin töfralausn. Hann er þó hlekkur í hagkvæmri og skilvirkri pólitískri inngripakeðju.
„Aðrir mikilvægir hlekkir í keðjunni eru betri merkingar á matvælum, fjármagn til fræðslu- og forvarnarstarfa ásamt bættu aðgengi að hollari matvælum.“