„Bláa Lónið er upplifunarfyrirtæki sem á engan sinn líka í veröldinni og kannanir okkar sýna að verð og gæði fara saman, upplifunin stenst væntingar gesta okkar.“
Þetta segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, í viðtali sem birtist í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, í gær. Í viðtalinu ræddi hann um starfsemi Bláa lónsins sem er án nokkurs vafa vinsælasti ferðamannastaður landsins. Árið 2017 sóttu til dæmis um 1,3 milljónir gesta lónið heim.
Í viðtalinu var Grímur meðal annars spurður út í hlutfall Íslendinga sem sækja lónið. „Um 98 prósent af gestum Bláa Lónsins eru erlendir. Það hlutfall hefur farið vaxandi eftir því sem árin hafa liðið. Það má annars vegar rekja til fjölgunar erlendra ferðamanna og hins vegar til þess að við ákváðum að verðleggja þjónustuna í samræmi við eftirspurn erlendra gesta og verðmæti þeirrar þjónustu sem við veitum.“
Bláa lónið hefur verið gagnrýnt, einkum meðal Íslendinga, fyrir hátt verðlag en í dag kostar ódýrasti miðinn í lónið 6.990 krónur. Innifalið í því verði er aðgangur í lónið, kísilmaski fyrir andlit, handklæði og drykkur að eigin vali. Hægt er að velja aðra og dýrari pakka, svokallaðan Premium-pakka sem kostar 9.900 krónur og Luxury: Retreat Spa sem kostar 79 þúsund krónur.
Grímur segir að Bláa lónið sé upplifunarfyrirtæki og og bendir á kannanir sem sýna að verð og gæði fari saman.
„Íslendingum þótti dýrt að koma í Bláa Lónið og báru það gjarnan saman við aðgangseyri í sundlaugar sem eru jú hluti almannaþjónustu. Að sjálfsögðu er þjónustan og upplifunin gerólík. Bláa Lónið er upplifunarfyrirtæki sem á engan sinn líka í veröldinni og kannanir okkar sýna að verð og gæði fara saman, upplifunin stenst væntingar gesta okkar.“
Þá segir Grímur að verðið fari eftir eftirspurn hverju sinni; þannig sé dýrara þegar eftirspurnin er mikil og ódýrara þegar hún er minni. Þannig er til dæmis aðeins hægt að fá ódýrasta miðann þann 24. júlí næstkomandi klukkan 23 að kvöldi. Það kostar 48 evrur. Sé ákveðið að fara frá klukkan 8 að morgni til 19 að kvöldi þann sama dag kostar miðinn 83 evrur, 11.800 krónur. Það er því ekki hlaupið að því að fá ódýrasta miðann jafnvel þó bókað sé þrjár vikur fram í tímann.
„Árið 2009 var ákveðið að gera félagið upp í evrum. Þá kostaði ódýrasti aðgangur 20 evrur. Við höfum breytt samsetningu þjónustuframboðs og því er í raun ekki hægt að bera saman þá vöru sem við seljum nú við þá sem við seldum áður en ódýrasti aðgangurinn nú kostar 48 evrur. Hluti af því að höfða til betur borgandi ferðamanna er að auka tekjur af hverjum gesti í stað þess að einblína á fjölda gesta. Við reynum að fá viðskiptavini til að njóta sem mest þjónustu okkar en fyrir utan Bláa Lónið sjálft bjóðum við upp á veitingar á fjórum mismunandi veitingastöðum, Blue Lagoon húðvörur, akstur til og frá lóni og dvöl á öðru hvoru hótela okkar.“