fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Þóra Kristín sár og reið: Jólagjöfin snerist upp í martröð fyrir Guðjón – Krafinn um 1,3 milljónir króna

Ritstjórn DV
Föstudaginn 21. júní 2019 12:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Jólagjöf fyrirtækisins snerist því upp í martröð þess sem þurfti kannski mest á henni að halda. Þökk sé Tryggingastofnun og lögfræðingum hennar.“

Þetta segir Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsinga- og samskiptafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, í mjög svo athyglisverðri aðsendri grein sem birt er á Vísi.

Þarf aðstoð allan sólarhringinn

Þar segir hún frá Guðjóni Reykdal Óskarssyni, 28 ára starfsmanni Íslenskrar erfðagreiningar sem fékk nýlega kröfu um 1.300 þúsund króna endurgreiðslu frá Tryggingastofnun. Guðjón var sex ára þegar hann greindist með Duchenne-vöðvarýrnunarsjúkdóminn og þarf hann aðstoð allan sólarhringinn til að lifa sem eðlilegustu lífi.

„Þótt meðferðir, og þar af leiðandi lífslíkur og lífsgæði breytist jafnt og þétt til batnaðar hefur hann verið alfarið bundinn við hjólastól frá unglingsaldri. Hann er í doktorsnámi í læknavísindum og hefur unnið við rannsóknir vegna doktorsverkefnis, jafnhliða námi, hjá Íslenskri erfðagreiningu frá árinu 2016.“

Vill leggja sitt af mörkum

Í grein sinni segir Þóra að Guðjón hafi þurft að takast á við nánast vonlausar áskoranir en þrátt fyrir það náð að skara fram úr og taka þátt í samfélaginu.

„Hann hefur sjálfur lýst því hvernig hann varð feiminn og innhverfur vegna allrar athyglinnar sem hann fékk vegna sjúkdómsins sem unglingur en náði að sökkva sér í nám og vísindi til að halda sönsum. Hann hefur síðan valið læknavísindin enda er það draumur hans að geta lagt eitthvað af mörkum til að lækna vöðvarýrnunarsjúkdóminn sem hann sjálfur og 11 aðrir Íslendingar stríða við.“

Þóra Kristín segir að þar sem Guðjón er öryrki og fékk örorkubætur til ársins 2018 hafi hann þurft að skila inn tekjuáætlun til TR fyrir árið 2017 sem hann gerði. Um mitt ár 2017 fékk hann launahækkun og gerði grein fyrir þeirri breytingu í símtali við þjónustufulltrúa, að sögn Þóru.

Fengu jólabónus

„Um jólin 2017 var svo tekin sú ákvörðun hjá Íslenskri erfðagreiningu að greiða öllum starfsmönnum jólabónus sem samsvaraði einum mánaðarlaunum Guðjóns. Þetta var einhliða ákvörðun vinnuveitanda, án samráðs við Guðjón eða aðra starfsmenn og átti sér ekki stoð í ráðningarsamningi né kjarasamningi.  Þessi ákvörðun leiddi hinsvegar til þess að tekjur hans fóru yfir viðmiðunarmörk fyrir árið 2017 og TR krefur hann nú um endurgreiðslu á kr. 1.300 þúsund krónum.“

Þóra segir að vegna launahækkunarinnar og jólabónussins ætti hann að greiða 550 þúsund krónur til baka samkvæmt krónu á móti krónu reglunni. Tekjur hans fara hins vegar 55 þúsund krónur yfir sérstök viðmiðunarmörk og virkja reglu sem í daglegu stofnanamáli nefnist fall krónunnar, segir Þóra.

„Tryggingastofnun krefur hann því um alla bótaupphæðina sem hann fékk greidda á árinu 2017 sem er drjúgur hluti þess sem hann hefur sér til framfærslu í doktorsnáminu.“

Þóra segir að þegar Guðjón var sex ára hafi hann lesið sér til um sjúkdóminn sem hann er með. Þar kom fram að lífslíkur væru að meðaltali 16 ár. „Hann slökkti á tölvunni og fannst lífið vera búið. Síðan þá eru tólf ár og hann hefur sigrast á ótrúlegum hindrunum. Það er þó ljóst að hver og einn dagur er lítið kraftaverk í tilfelli Guðjóns.“

Dreginn ofan í vonleysið

Þóra segir að hann sé dæmi um mann sem með dugnaði hefur náð að snúa erfiðri stöðu upp í persónulegan sigur.

„Köld krumla Tryggingastofnunar (sem á að vera öryggisnet fólks í þessari stöðu) ætlar að reyna að grípa um öklana á honum og draga hann ofan í vonleysið með því að veifa vafasamri reglugerð. Hann vildi lifa sjálfstæðu lífi og þarf ekki lengur á bótum frá stofnuninni að halda en það á sjá til þess að sleppi þaðan ekki nema með skuldir á bakinu.“

Þóra Kristín segir í grein sinni að Guðjón hafi boðist til að greiða 550 þúsund til baka samkvæmt krónu á móti krónureglunni. Stofnunin hafi hafnað því boði og hafið innheimtuaðgerðir til að ná af honum 1300 þúsund krónum.

„Fyrir mann með tæplega 400 þúsund krónur úr að spila á mánuði er það mikil blóðtaka. Ekki síst þar sem hann hefur mikinn aukakostnað vegna fötlunar sinnar, hann þarf til dæmis að reka sérútbúinn bíl og standa straum af viðhaldi sérstakrar hjólastólalyftu á heimili foreldra sinna, þar sem hann býr til að geta frekar náð endum saman. Jólagjöf fyrirtækisins snerist því upp í martröð þess sem þurfti kannski mest á henni að halda. Þökk sé Tryggingastofnun og lögfræðingum hennar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum