„Við höfum tekið saman gögn um það að álagning banka og lífeyrissjóða hefur aukist mikið, markaðsvextir hafa lækkað mun meira en vextir hafa lækkað hjá lífeyrissjóðum og fjármálastofnunum,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór deilir frétt mbl.is þess efnis að stjórn VR hafi samþykkt að boða fund í fulltrúaráði VR hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna. Þar á að leggja fram tillögu um að afturkalla umboð þeirra sem VR tilnefnir í stjórn lífeyrissjóðsins. VR tilnefnir fjóra af átta stjórnarmönnum hjá sjóðnum.
Sjá einnig: Stjórn VR lýsir yfir trúnaðarbresti:„Eins og þruma úr heiðskýru lofti“
Ástæðan er nýleg ákvörðun stjórnar að hækka breytilega vexti verðtryggðra sjóðfélagalána. Fóru þeir úr 2,06 prósentum í 2,26 prósent, en aðeins örfáum dögum áður hafði Seðlabankinn tilkynnt um lækkun stýrivaxta.
Ragnar Þór er ósáttur við þetta og segir að álykta megi að vextir lífeyrissjóða ættu alla jafna að vera að lágmarki 0,6 prósentum lægri, þar sem þeir borga ekki bankaskatt og önnur gjöld eins og bankar.
„Nýlega hafa foreldrar og forráðamenn barna sem eiga lokaða verðtryggða reikninga fengið tilkynningar um 0,5 prósentustiga lækkun á innlánsvöxtum á meðan útlánsvextir hreyfast ekki eða lækka um brot af því sem þeir ættu að gera. Þetta er óþolandi!,“ segir Ragnar sem bætir við að lokum:
„Eigum við að sætta okkur við að lífeyrissjóðunum okkar sé alfarið stjórnað á forsendum fjármálakerfisins, eins og verið hefur, eða eigum við sem verkalýðshreyfing að beita okkur fyrir því að áherslur okkar um betri lífskjör, siðferði og samfélagslega ábyrgð fái raunverulegt vægi þar inni?
Er ásættanlegt að vextir hækki bara vegna þess að stjórnarmönnum lífeyrissjóðs finnst þeir vera of lágir án þess að hafa fyrir því haldbær rök?“
Í tilkynningu sem VR sendi frá sér í dag og Eyjan fjallaði meðal annars kemur fram það álit stjórnar VR að trúnaðarbrestur hafi orðið. Ákvörðun um vaxtahækkun sé óskiljanleg í ljósi þeirra gríðarlega miklu áherslu sem lögð var á vaxtalækkanir í nýgerðum kjarasamningum sem hefur síðan orðið af.