Það kemur eflaust fáum á óvart að íslenskir þjóðernissinnar hafi fundið að því að fjallkonan í ár sé af blönduðum uppruna. Aldís Amah Hamilton var fjallkonan í ár en faðir hennar er Bandaríkjamaður af afrískum uppruna. Innan Facebook-hópanna Stjórnmálaspjallið og Málfrelsið er hart deilt um fjallkonuna. Báðir hópar eru þekktir fyrir íhaldssamar og þjóðernissinnaðar skoðanir meðlima.
Í báðum tilvikum hefjast þræðirnir á jákvæðum nótum og Aldísi hrósað fyrir góða frammistöðu. Í athugasemdum er þó fundið að því að fjallkonan sé ekki alíslensk. Í Málfrelsinu spyr Ólafur nokkur ítrekað hvort Aldís sé íslensk. „Þannig að hún er ekki Íslendingur heldur íslenskur ríkisborgari?,“ spyr hann og aðrir svara að hún sé íslensk. Þá segir hann: „Ég er Íslendingur og stoltur af því…Þessi kona er amerísk og á að vera stolt af því líka.“
Í sama þræði í Málfrelsinu kvartar ýmsir yfir meintri fjölmenningu á Íslandi. „Er verið að kalla eftir Svíðþjóðistan, Islandistan nei takk við eigum líka mannréttindi,“ skrifar Guðrún nokkur. Hilmar nokkur vitnar svo í þekktar samsæriskenningar, sem hafa verið kenndar við rasisma. „Snúa baki við hinu hefðbundna fjölskyldumynstri. Hætta að eignast börn, drepa þau ófædd. Flytja inn aðra þjóðar og menningarhópa í staðinn. Alveg í samræmi við Kalergi planið. Þetta er uppskrift að meiri togstreitu og hópamyndun innan þjóðar. Þess vegna rísa upp þjóðernishópar eins og er að gerast í Evrópu. Það gerist ekkert af því bara og út af engu,“ skrifar Hilmar.
Unnur nokkur segist sjálf vera innflytjandi í öðru landi og harðneitar að aðlagast því samfélagi. „Ég held upp á þjóðhátíðardaginn hér í Svíþjóð sem stoltur Íslendingur. Þó ég sé búin að búa hér í áratugi þá verð ég ALDREI Svíi, er fædd Íslendingur og dey sem Íslendingur,“ skrifar Unnur.
Sjálf Margrét Friðriksdóttir kemur Aldísi þó til varnar í þræðinum í Málfrelsinu. „Get ekki betur séð en þessi kona sé íslendingur í hálfan legginn allavega þannig hvað er málið og afhverju er þessi endalausi smáborgaraháttur á íslandi þar sem fólk keppist um að segja hey ég er ekki rasisti eins og í einhverjum sandkassaleik meira ruglið, held að enginn hafi á móti góðri fjölmenningu og fjölbreytileika à íslandi sem hefur bara gengið nokkuð vel finnst mér en fólk hefur hinsvegar áhyggjur af ómenningu og ólýðræðislegu fólki sem hefur verið að skemma fjölmenningu í Evrópu sem er bara allt annar handleggur og margir berja hausnum við stein varðandi það og þykjast ekki kannast við neitt sem er öllu heldur áhyggjuefni,“ skrifar Margrét.
Athugasemdir í Stjórnmálaspjallinu er síst skárri en í Málfrelsinu. Þar ríður á vaðið þekkt nettröll og gervimenni, Baldur Muller. Hann talar þó nokkuð jákvætt um Aldísi og telur henni það til hróss að vera „fjárhagslega sjálfstæða“.
Í athugasemdum við þá færslu biður fólk um hjálp guðs. „Guð hjálpi okkur. Þjóðhátíðardagurinn er dagur Íslendinga, íslenskrar arfleifðar, íslenskrar sögu og menningar. Dagurinn þegar við þökkum þeim sem ruddu veginn og þökkum landinu fyrir þær gjafir sem það færir og minnumst þeirra fórna sem náttúran krefst og hefur krafist af íslenskri þjóð. Þetta er ekki fjölmenningadagurinn, þeir eru líka haldnir hátíðlegir og óþarfi að ræna innfædda þessum eina degi,“ skrifar Brynjólfur nokkur.
Sigurlaug Oddný Björnsdóttir segir þetta sambærilegt við það þegar borgarstjóri lét breyta íslenska fánanum. „Pólitíska rétthugsunin er komin út fyrir allt velsæmi. Tek undir orð Brynjólfs hér fyrir ofan. Og bæti því við vanvirða vissra hópa á Íslandi og őllu sem Íslenskt er er til skammar. Fyrir nokkrum árum tók skoffínið Dagur sig til og fjarlægði krossinn úr Íslenska fánanum og tjaldaði röndóttum snepli á 17 júní til að þóknast múslima vinum sinum. Svo vildi hann hætta að halda upp á 17 út af kostnaði við hinar uppákomurnar, það sést alveg hvaða hug þetta fólk ber til landsins. Þau eru Jóni Sigurðssyni og öðrum þeim er börðust fyrir sjálfstæði þjóðarinnar til háborinnar skammar,“ skrifar Sigurlaug en rétt er að taka fram að íslenski fáninn sést vel sitthvoru megin við Aldísi þegar hún hélt ávarp sitt.