Guðrún Hauksdóttir Schmidt hefur vakið athygli á og barist fyrir bættum aðstæðum útigangsmanna. Málefnið er Guðrúnu kært, en sonur hennar Þorbjörn Haukur Liljarson, var einn þessara manna.
Þorbjörn lést í Gistiskýlinu á Lindargötu þann 15. október í fyrra, 46 ára að aldri, hann var útigangsmaður. DV hefur sagt frá ævi og andláti Þorbjörns, en Guðrún stofnaði minningarsjóðinn Öruggt skjól í minningu sonar síns. Hún hefur lagt sitt lóð á vogarskálarnar í baráttu fyrir bættum aðstæðum útigangsmanna og gagnrýnt andvaraleysi borgaryfirvalda hvað málefnið varðar.
Guðrún var í viðtali hjá DV í fyrra eftir andlát sonar síns og í forsíðuviðtali Vikunnar þann 6. júní síðastliðinn.
Sjá einnig: Þorbjörn lést á mánudag fimm dögum eftir ákall móður hans – „Elsku fallegi sonur minn, hvíl í friði“
Í Facebook-færslu sem Guðrún ritar eftir viðtalið í Vikunni spyr hún hvað geri það að verkum að útigangsfólk fær ekki þjónustu við hæfi og bendir á að fólk sem lendir í þeirri stöðu að vera heimilislaust vegna fíknar sé jafnveikt og fólk með aðra sjúkdóma, sjúkdómar verði ekki læknaðir nema taka þá föstum tökum.
„Ég sagði við son minn í haust þegar við áttum saman okkar gæðastund og síðustu tíma okkar að ég vildi leggja mitt af mörkum til handa fólkinu á götunni, fólki sem kemur úr fangelsum, meðferðum og eiga ekki í nein hús að venda. Ég stend við það,“
skrifar Guðrún, sem bauð útigangsmönnum í páskamat og vakti sá viðburður mikla athygli.
Rifjar Guðrún jafnframt upp erfitt atvik, eitt af mörgum, þegar sonur hennar bankaði upp á kl. 18 á aðfangadag með jólagjafir. Var hann ásamt vini sínum í annarlegu ástandi og vísaði Guðrún þeim í burtu.
„En allir voru sammála um að þetta var rétt ákvörðun. Við vorum öll döpur allt kvöldið, allan næsta dag og margar vikurnar. Við grétum en reyndum að vera sterk.“
Segist Guðrún hugsa til sonar síns á hverjum degi og sakna hans mikið. „En lífið heldur áfram,“ segir Guðrún og bætir við að nú sé lag því með henni séu sterkir, klárir og gefandi einstaklingar til að gefa útigangsfólki rödd.