fbpx
Laugardagur 04.janúar 2025
Fréttir

Frelsissvipt af barnsföður sínum – Borin út af heimilinu nakin, blóðug og marin

Auður Ösp
Laugardaginn 15. júní 2019 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðasta sumar var Emilíönu Bened Andrésardóttur  haldið fanginni á heimili sínu á Akureyri og hún beitt hrottalegu ofbeldi í rúmlega þrjár klukkustundir. Gerandinn var barnsfaðir hennar. Að lokum tók það lögreglu tæpa klukkustund að fjarlægja manninn úr íbúðinni en alvarleiki brotanna var slíkur að farið var fram á nálgunarbann. Ákæra á hendur manninum var þingfest í Héraðsdómi Norðurlands eystra síðastliðinn þriðjudag en þrátt fyrir játningu og fjölda sönnunargagna hefur ákæruvaldið einungis farið fram á sex mánaða fangelsisdóm. Emilíana segir andlegt og líkamlegt ofbeldi af hálfu barnsföðurins hafa staðið yfir í fjögur ár, og í mörg skipti hafi kornung dóttir þeirra verið viðstödd.

„Ég var sannfærð um að ég myndi deyja“

„Við byrjuðum saman í febrúar 2015. Sambandið þróaðist strax hratt og fór út í öfgar. Andlega ofbeldið byrjaði um leið og þróaðist hratt. Líkamlega ofbeldið byrjaði ekki fyrr en rúmlega tíu mánuðum seinna. Það sitja mörg dæmi í mér, þau eru óteljandi,“ segir Emilíana.

Hún rifjar upp atvik sem átti sér stað þegar hún var ófrísk að dóttur þeirra.

„Þá braut hann allt inni í íbúðinni minni, þar á meðal persónulega hluti sem voru mér mjög kærir. Hann mölbraut til dæmis bakarofninn. Lögreglan mætti á staðinn en þá var hann búinn að hlaupa út. Ég var spurð að því hvort hann hefði lagt hendur á mig. Ég sagði að hann hefði hrint mér og ég dottið á skápahurð.“

Hún segir mörg tilfelli hafa verið svo alvarleg að hún hafi verið sannfærð um að hún myndi deyja. Oft hafi barnsfaðir hennar beitt hana ofbeldi fyrir framan dóttur þeirra eða á meðan hún hélt á barninu í fanginu.

Emilíana Bened

„Í eitt skipti reyndi ég að hlaupa með hana út um nóttina. Hann reif mig upp á hárinu við útidyrnar og negldi hausnum á mér aftur og aftur í vegginn þannig dóttir okkar hristist og hristist og við vorum báðar skælandi. Það blæddi úr hausnum á mér. Dóttir okkar var þarna fimm mánaða og rétt byrjuð að halda haus. Hún hefði auðveldlega getað dáið.“

Hún segist hafa reynt af fremsta megni að fela ofbeldið á þessum tíma. Eins og svo margir þolendur upplifði hún skömm yfir aðstæðum sínum.

„Hann lofaði líka alltaf öllu fögru beint eftir á. Lögreglan var oft kölluð til á heimili okkar eða á heimili foreldra hans. Þannig að það eru til skýrslur. Ég kærði hann samt aldrei. Um leið og lögreglan mætti þá annaðhvort opnaði ég ekki fyrir þeim eða ég reyndi að fegra hann og segja að það væri allt í góðu.“

Hún rifjar upp annað skipti þegar barnsfaðir hennar braut á henni fingur. „Ástæðan fyrir því var sú að ég gat ekki hætt að skæla eftir að hann hafði legið ofan á mér og tekið mig hálstaki þannig að ég missti andann.“

Emilíana segist jafnframt hafa undir höndum ljósmyndir sem sýna áverka sem hún hefur hlotið af hálfu barnsföðurins og í sumum tilvikum hafi verið vitni að ofbeldinu. Hún bendir á að ofbeldismenn séu oftar en ekki  snillingar í að  „manipulera“ aðstæður og sía út hentug fórnarlömb.

„Sem þeir fá síðan til að treysta og trúa á sig. Brjóta þau svo hægt niður þangað til þeir geta byrjað að beita alvöru ofbeldi. Siðblinda heitir það.“

Marin, blóðug og útötuð í áfengi

Alvarlegasta tilfellið átt sér stað síðasta sumar.

„Þá hélt hann mér inni í íbúðinni gegn vilja mínum í tæpa þrjá klukkutíma. Hann beitti mig ofbeldi og gerði viðbjóðslega hluti. Á einum tímapunkti hélt hann hníf upp að hálsinum á mér og sjálfum sér. Í einhverri geðveiki skildi hann óvart eftir símann minn á borðinu. Ég náði að laumast í símann og senda vinkonum mínum sms þar sem ég bað þær um að hringja á lögregluna.“

Hún segir lögregluna hafa mætt á staðinn á örskotsstundu. Emilíana var í kjölfarið borin út af heimilinu og vafin í handklæði þar sem hún var nakin. Var hún að eigin sögn í áfalli, verkjuð um allan líkama, marin og blóðug. Þá var hár hennar og líkami útataður í áfengi sem hellt hafði verið yfir hana á meðan hún lá á gólfinu. Blóð var á víð og dreif í íbúðinni.

„Lögreglukona bar mig út í handklæðinu á meðan hinir hlupu inn á móti honum. Þeir voru í klukkutíma að handtaka hann inni á heimilinu vegna þess hann vildi ekki sleppa hnífnum.“

Emilíana var í kjölfarið flutt á bráðamóttöku. Barnsfaðir hennar var fluttur í fangageymlsu og sleppt eftir sólarhring í haldi. Vegna alvarleika árásarinnar fór lögreglan fram á nálgunarbann á hendur honum en það féll úr gildi í nóvember síðastliðnum. Barnsfaðir hennar var síðar  kærður fyrir frelsissviptingu, líkamsárás og fleiri brot en ákæran var alls í sjö liðum. Fyrirtaka í málinu fór fram í Héraðsdómi Norðurlands eystra síðastliðinn þriðjudag og þar játaði barnsfaðir Emilíönu á sig sök samkvæmt öllum liðum ákærunnar.

Hún segist ekki eiga von á öðru en að barnsfaðir hennar verði sakfelldur, enda liggur fyrir játning í málinu, auk sönnunargagna. Hún hefur fengið þær upplýsingar að ákæruvaldið fari einungis fram á sex mánaða fangelsisdóm. Hún segir það „stingandi sárt“ að ekki sé farið fram á þyngri refsingu.„Það er viðbjóðslega lítið miðað við alvarleika málsins, ofbeldið sem hefur staðið yfir síðustu ár. Maðurinn hefur reynt að drepa mig oftar en ég get talið á báðum fingrum,“ segir hún og bætir við að vitað sé um fleiri stúlkur sem hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu barnsföður hennar.

Á meðal gagna sem lögð eru fram í málinu er myndbandsupptaka þar sem barnsfaðir Emilíönu heyrist meðal annars segja: „Ég er að fara í fjögurra ára fangelsi, missa allt.“ Emilíana bendir á að á upptökunni komi greinilega fram að barnsfaðir hennar viðurkenni að hafa brotið á henni og geri sér grein fyrir alvarleika málsins.

Martraðir og svefnleysi

Emilíana segist í dag sitja uppi með sár sem hún viti ekki hvort eða hvenær muni gróa.  Fyrstu mánuðina eftir frelsissviptinguna hafi hún glímt við svefnleysi og ótta og fengið stöðugar martraðir. Martröðunum hefur fækkað, en hún fær þær enn.

Ég get ekki verið ein heima hjá mér. Vinir mínir og fjölskylda hafa skipst á að vera hjá mér svo ég upplifi mig örugga.“

Emilíana bætir við að það hafi reynst henni um megn að kljást við minningar af ofbeldinu og leitaði hún þess vegna í áfengi til að deyfa sársaukann.

„Áfengisneysla mín jókst mikið og ég þurfti í fyrsta skipti að fara inn á Vog núna í janúar síðastliðnum. Ég er núna byrjuð í prógrammi fyrir fólk sem hefur orðið fyrir heimilisofbeldi. Það hefur hingað til gengið vel. Ég er þakklát fyrir alla þá aðstoð sem mér hefur boðist. Ég hef líka fengið að kynnast því hvað það er til mikið af góðu fólki þarna úti, sem er í sjálfboðavinnu við að hjálpa öðrum að vinna úr erfiðum áföllum.“

Hún ráðleggur öðrum brotaþolum heimilisofbeldis að halda í vonina og þiggja aðstoð og hjálp til að komast úr aðstæðunum.

„Af því að aðstæðurnar verða alltaf verri og verri. Ef einhver er í þessari stöðu, þá eru til athvörf, aðstoð og leiðir til þess að fá hjálp. Það er enginn einn í þessum aðstæðum og það er alltaf einhver sem hægt er að leita til og treysta.

En það er til skammar hversu vægt er tekið á heimilisofbeldi hér á landi. Það er eins og það skipti engu máli þó að einstaklingar brjóti af sér aftur og aftur, þeir fá að ganga um lausir í samfélaginu eins og ekkert sé. Á meðan eru mörg þúsund konur, menn og börn föst í þessum aðstæðum.“

Emilíana Bened

Emilíana leggur áherslu á það að hún vilji fyrst og fremst beina athygli fólks að brotalöm kerfisins, sem hún segir algjörlega hafa brugðist.

„Hann er búinn að brjóta af sér, hann er búinn að sýna fram á siðblindu og ljóta hegðun. Kerfið á ekki að gera það með honum eða líta fram hjá því. Kerfið á að standa með mér og öllum þolendum. Og bregðast við þegar brotið er á okkur. Kerfið á að standa með þolendum, af því að hver á annars að gera það? Eiga ofbeldismenn alltaf bara að fá einhvern „götudóm“ og svo ekkert meir? Það þarf að viðurkenna betur alvarleika ofbeldis, hvort sem það er heimilisofbeldi, andlegt, líkamlegt eða kynferðisofbeldi. Réttarkerfið okkar á að vernda okkur og passa að við fáum einhverju réttlæti framgengt og að þeir sem brjóti af sér fái viðeigandi refsingu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Salah kveður Liverpool
Fréttir
Í gær

Mogginn skýtur föstum skotum á Ingu Sæland: „Svik eru ekki svik, heldur eitthvað allt annað“

Mogginn skýtur föstum skotum á Ingu Sæland: „Svik eru ekki svik, heldur eitthvað allt annað“
Fréttir
Í gær

Hlutfall erlendra fanga aldrei verið hærra hér á landi

Hlutfall erlendra fanga aldrei verið hærra hér á landi
Fréttir
Í gær

Björn gagnrýnir RÚV fyrir að sýna ekki tilhlýðilega virðingu – segir Danina gera þetta betur

Björn gagnrýnir RÚV fyrir að sýna ekki tilhlýðilega virðingu – segir Danina gera þetta betur
Fréttir
Í gær

Hryðjuverkamaðurinn var ósköp venjulegur fjölskyldufaðir – Fyrir rúmum tveimur árum virðist allt hafa farið til fjandans

Hryðjuverkamaðurinn var ósköp venjulegur fjölskyldufaðir – Fyrir rúmum tveimur árum virðist allt hafa farið til fjandans
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Þar til reynt er að lægja öldur með launaleynd. Þá byrjar spillingin“ 

„Þar til reynt er að lægja öldur með launaleynd. Þá byrjar spillingin“ 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Myndband: Að gleyma þessu atriði getur valdið stórslysi í umferðinni

Myndband: Að gleyma þessu atriði getur valdið stórslysi í umferðinni