fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Móðir Jóns Þrastar telur að hann hafi tekið afdrifaríka ákvörðun: „Ég veit í hjarta mínu hvað gerðist“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 12. júní 2019 15:17

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hanna Björk Þrastardóttir, móðir Jóns Þrastar Jónssonar, sem hvarf sporlaust í Dublin þann 9. febrúar síðastliðinn, telur að einhver búi yfir meiri upplýsingum í tengslum við hvarf hans en komið hefur fram. Hanna beinir sjónum sínum að þeim sem Jón átti í samskiptum við þann sólarhring sem hann varði í Dublin áður en hann hvarf. Hanna telur að Jón hafi nánast ekki yfirgefið hótelið þennan tíma, nema rétt til að fara út á stétt og reykja, þar til hann snemma að morgni laugardagsins 9. febrúar gekk út af hótelinu og eftirlitsmyndavélar sýna hann ganga nokkurn spöl uns hann hverfur.

Hanna Björk veitti DV viðtal vegna málsins en hún er orðin þreytt á því að fá ekki meiri upplýsingar, hún telur að meiri upplýsingar en komið hafa fram séu til og vill að þeir aðilar sem búa yfir þeim upplýsingum stígi fram og veiti fjölskyldunni svör. Við förum betur yfir það neðst í greininni hvaða aðilar þetta gætu verið.

Sögusagnir hafa gengið um að peningavandræði eða tap í spilamennsku hafi þarna verið örlagavaldur en fjölskyldan hefur alltaf hafnað þeirri skýringu. Jón hafi haft góða stjórn á sinni spilamennsku og hann hafi ávallt gert sér fyllilega grein fyrir því að stundum tapar maður og stundum vinnur maður í spilum. Hann hafi lagt til hliðar þá fjármuni sem hann spilaði fyrir og haldið þeim aðskildum frá öðrum fjármálum sínum.

„Við þekktum hann en þegar fólk veit ekki neitt þá verða til kjaftasögur af því fólki finnst það verða að hafa skoðun á öllu,“ segir Hanna Björk, um leið og hún viðurkennir að skortur á öðrum skýringum kunni að eiga stóran þátt í því að fólk leitar til spilamennskunnar vegna skýringa.

„Einhver veit eitthvað, einhver veit það sem okkur vantar svo sárlega til að við sjáum heildarmyndina,“ segir Hanna Björk og kallar eftir því að sá aðili eða þeir aðilar stigi fram.

„Ég veit í hjarta mér hvað gerðist en ég get ekki sannað það“

Hanna Björk telur að Jón Þröstur hafi tekið hræðilega ákvörðun eftir að hann gekk út af hótelinu í Dublin laugardagsmorguninn 9. febrúar. „Hann hafði setið við spilamennsku og drykkju alla nóttina og var í mesta lagi búinn sofa í einn og hálfan klukkutíma,“ segir Hanna Björk. Hún telur útilokað að hann hafi orðið fyrir árás eða verið myrtur.

„Auðvitað veit ég þetta ekki fyrir víst en ég get þó sagt að í hjarta mér veit ég hvað gerðist en ég get ekki sannað það. Staðreyndirnar tala líka sínu máli. Hann var með peninga á sér og greiðslukort en greiðslukortin hafa ekki verið hreyfð síðan. Þetta var um hábjartan dag og það voru margir á ferli í borginni. Hann þekkti engan þarna. Ég held að enginn hafi unnið honum mein. Það er sagt að hann hafi verið með mikla peninga á sér, það liggur reyndar ekkert fyrir um það, en hafi svo verið þá vissi enginn um það og var ekki ástæða til að ráðast á hann. Hann Jón minn var stór og stæðilegur og hann var ekki að fara að láta neinn yfirbuga sig upp úr þurru úti á götu. En ég held líka að hann sé ekki á meðal okkar lengur og að hann hafi tekið hræðilega ákvörðun,“ segir Hanna Björk og kinkar kolli við þeirri spurningu hvort sú ákvörðun hafi verið að taka eigið líf.

„Ég get samt ekki sannað neitt og á meðan svo er veit ég það ekki fyrir víst,“ bætir hún við og slær varnagla.

Hanna Björk er ósátt við það að hafa ekki fengið svör um það sem Jóni og öðru fólki fór á milli sólarhringinn sem hann dvaldist í Dublin. Hún telur að til sé fólk sem viti í hvernig hugarástandi hann var þegar hann tók þá afdrifaríku ákvörðun sem hún telur hann hafa tekið.

Mynd: Eyþór Árnason

„Ég vil fá að vita í hvaða ástandi drengurinn var þegar hann fór. Mér finnst það skipta öllu máli, því í einhvers konar ástandi var hann. Þú gerir ekki svona nema eitthvað hafi gengið á,“ segir Hanna Björk.

Hanna Björk segir að Jón hafi ekki strítt við nein geðræn vandamál og henni vitanlega aldrei verið með sjálfsvígshugsanir. En þau mæðgin voru í miklum og góðum samskiptum.

Hanna Björk telur jafnframt útilokað að Jón hafi látið sig hverfa og tekið upp nýtt líf einhvers staðar í heiminum. Það sé ekki í neinu samræmi við persónuleika hans og skapgerð. Einnig vinna þær staðreyndir gegn þeirri tilgátu, að engar hreyfingar hafa verið á greiðslukortum hans eftir að hann hvarf og að hann hafði ekki vegabréf sitt með út af hótelinu.

Hanna Björk leggur þunga áherslu á að hún sakar engan um að vera valdur að hvarfi hans eða mögulegri ákvörðun um að vinna sér mein. Það hafi þá verið algjörlega hans ákvörðun en ekki annarra – en á þessu hlýtur þó að vera til einhver skýring. Einhver býr yfir upplýsingum sem varpað gætu ljósi á hvað varð til þess að hann steig þetta örlagaríka skref.

Við hverja hafði Jón samskipti í Dublin?

Jón var mikill sjósundsmaður og þar sem Dublin er hafnarborg er ekki hægt að útiloka þá tilgátu að hann hafi farið í sjóinn. Stórstreymi var á þeim tíma þegar hann hvarf sem þýðir að hafi þetta gerst þá hefur hann rekið langt út á haf. Langur tími getur liðið þar til lík rekur aftur upp á land hafi maður farið í sjóinn á þessum slóðum og við þær aðstæður sem þarna voru.

Sem fyrr segir dvaldist Jón einn sólarhring í Dublin áður en hann hvarf. Engan veginn er hægt að útiloka að hann hafi kynnst fólki í borginni en þó bendir margt til þess að hann hafi nánast ekki yfirgefið hótelið þennan tíma. Hann sat við spilamennsku og drykkju á föstudagsnóttina.

Fólkið sem hann hafði samskipti við voru þá einhverjir aðrir spilarar, starfsfólk spilavítisins, annað starfsfólk hótelsins og síðast en ekki síst, unnusta hans, Jana Guðjónsdóttir. Fréttir af máli Jóns hafa verið áberandi í írskum fjölmiðlum og fólki sem hafði samskipti við Jón á þessum sólarhring ætti að vera fullkunnugt um hvarf hans.

Jana Guðjónsdóttir, unnusta Jóns, flaug til Dublin sólarhring á eftir honum, þar sem hún hafði ekki fundið vegabréf sitt nægilega snemma til að geta verið samferða honum. Í viðtali við Kastljós 25. febrúar kom meðal annars fram að Jana hafi komið á hótelherbergið að morgni laugardagsins. Þau hafi spjallað lítils háttar saman. Hún hafi sagt honum að hún ætlaði að fara niður og fá sér kaffibolla og sígarettu. Það gerði hún en þegar hún kom til baka á herbergið var Jón Þröstur þar ekki lengur, að hennar sögn. Hún segist ekki hafa haft áhyggjur af því þar sem hún teldi að hann hefði skroppið frá til að skrá þau í pókermót sem þau ætluðu að taka þátt í. „Þegar ég talaði við hann, þá var ég að vekja hann. Hann lá uppi í rúmi sofandi og ég ýti við honum og þessi litli tímarammi, að ég hafi farið niður og pantað mér kaffi og á meðan gengur hann út af hótelinu,“ sagði Jana sem ekki segist hafa hugmynd um hvaða erindi Jón gat hafa átt út af hótelinu en skráningin á pókermótið var inni á hótelinu sjálfu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Dagur kveður borgarstjórn eftir nær aldarfjórðung – „Ég elska Reykjavík“

Dagur kveður borgarstjórn eftir nær aldarfjórðung – „Ég elska Reykjavík“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Illugi ómyrkur í máli – „Þetta var Hitlers-kveðja og ekkert annað“

Illugi ómyrkur í máli – „Þetta var Hitlers-kveðja og ekkert annað“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“
Fréttir
Í gær

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fréttir
Í gær

Maður á sextugsaldri misþyrmdi lögreglumanni í Þarabakka

Maður á sextugsaldri misþyrmdi lögreglumanni í Þarabakka
Fréttir
Í gær

Guðmunda þekkir það vel að vera aftast í röðinni og gleymast – „Ég lifi það ekki af að bíða svo lengi, henni varð á að hlæja“

Guðmunda þekkir það vel að vera aftast í röðinni og gleymast – „Ég lifi það ekki af að bíða svo lengi, henni varð á að hlæja“
Fréttir
Í gær

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“