Hjón og sonur þeirra létust í flugslysinu sem varð við Múlakot í Fljótshlíð á sunnudagskvöld. Annar sonur hjónanna og kona hans liggja þungt haldin á Landspítalanum, að sögn lögreglu er líðan þeirra stöðug.
Sjá einnig: Flugslysið við Múlakot:Nöfn þeirra sem létust
Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Líkt og fram kom hefur komið í fréttum barst lögreglu tilkynning laust eftir hálf níu á sunnudagskvöld um flugslys nálægt flugvellinum við Múlakot í Fljótshlíð.
Eldur var þá laus í öðrum væng flugvélarinnar. Fjölmennt lið lögreglu, slökkviliðs og sjúkraflutninga HSU, á fimmta tug manna, kom að aðgerðum á slysstað. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar fóru á vettvang, auk þess sem viðbragðsteymi Rauða kross Íslands veitti vitnum og öðrum á vettvangi sálrænan stuðning.
Þrír voru úrskurðaðir látnir á vettvangi, en tveir fluttir alvarlega slasaðir með þyrlum Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík. Beita þurfti klippum til að komast að fólkinu sem var í vélinni.
Tildrög slyssins eru enn ókunn, en rannsóknardeild lögreglustjórans á Suðurlandi fer með rannsókn slyssins, auk rannsóknarnefndar samgönguslysa og tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Vélin hefur verið flutt af vettvangi slyssins, en hún er af gerðinni Piper PA-23, tveggja hreyfla og fimm manna vél. Vélin er skráð í Georgíu í Bandaríkjunum.